2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hanna Rún lömuð á lærvöðva eftir mænudeyfingu: „Hvað ef þetta lagast aldrei?“

  Hanna Rún Bazev Óladóttir atvinnudansari eignaðist sitt annað barn, dóttur, 6. janúar. Hanna Rún var sett 30. desember, en fór nokkra daga framyfir.

   

  Sjá einnig: Hanna Rún og Nikita – Dóttir komin í heiminn

  Hanna Rún hefur alla tíð verið virk á samfélagsmiðlum, enda með fjölda fylgjenda á Instagram, en hún hefur verið lítið virk þar undanfarnar vikur. Hanna Rún birtir hins vegar langa færslu í stories á Instagram í kvöld þar sem hún útskýrir fjarvistina og segir frá fæðingunni.

  Í fæðingunni voru gerð mistök þegar átti að mænudeyfa Hönnu Rún og mistökin ollu því að vöðvi í öðrum fæti Hönnu Rúnar er lamaður, sem veldur því, vonandi bara tímabundið, að hún getur ekki dansað.

  AUGLÝSING


  „Við fórum upp á fæðingardeild um nóttina þar sem að verkirnir voru orðnir öflugir strax og stutt á milli. Ég þorði nú ekki að bíða þar sem ég var búin að heyra með annað barn að það kæmi fyrr en svo var nú ekki, þetta tók sólarhring eins og með bróður hennar,“ segir Hanna Rún

  Eftir nokkra klukkutíma var mælt með að Hanna Rún fengi mænurótardeyfinguna svo að hún næði að hvílast. „Ég var ekkert allt of hrifin af því, ég hræðist mænurótardeyfingu og þoli ekki nálar.“

  Mistök voru gerð við deyfinguna og þurfti að gera hana þrisvar að sögn Hönnu Rúnar. „Í fyrstu tilraun var stungið í taug sem var held ég bara jafn vont og fæðingin sjálf. Í fæðingunni missti ég alveg máttinn í fótunum, sem var samt ekki að trufla fæðinguna. Ég gat ekki labbað, en ég þurfti þess hvort eð er ekki í fæðingunni.“

  Segir Hanna Rún að henni hafi fundist þetta ofboðslega óþægilegt, þar sem hún er dansari og því mikið að nota fæturna. Eftir nokkurra tíma hvíld vaknar Hanna Rún og finnur að deyfingin er enn öðru megin, en nær að labba út í bíl með því að styðja sig við ferðatöskuna.

  „Ég er nýbúin að eiga, gefum þessu smá séns,“ segir Hanna Rún að hún hafi hugsað og henni hafi verið sagt að deyfingin ætti að vera farin eftir smástund.

  Heimaljósmóður leist ekkert á ástandið

  Hanna Rún segir að staðan hafi verið eins daginn eftir, fóturinn einhvern veginn lamaður og slengdist til þegar hún gekk, og hún hafi dottið ef hún gekk með hraði. Einnig hafi hún ekki getað lyft fætinum þegar hún lá.

  „Ljósmóðirin sem kom heim leist ekkert á þetta. Ég er búin að fara upp eftir nokkrum sinnum og láta líta á þetta,“ segir Hanna Rún og enn liðu 1-2 vikur og ástandið óbreytt.

  Taugasérfræðingur skoðaði síðan Hönnu Rún. „Hann sagði að það sem hefði gerst væri að þegar stungið var í taug, hefði innri vöðvi á lærinu lamast tímabundið.“

  Læknirinn sagði að ekkki væri hægt að gefa svar eða lofa neinu um hvað fóturinn yrði langan tíma að jafna sig að sögn Hönnu Rúnar, sem segist að vonum hafa verið farin að svitna og verið mjög stressuð í viðtalinu við taugasérfræðinginn. Eiginmaður hennar, atvinnudansarinn, Nikita Bazev, hafi einnig spurt mikið.

  „Hausinn fór á fullt hvað ef þetta lagast aldrei? Mun þetta pottþétt lagast? Fóturinn á mér er að fara að vera eðlilegur aftur er það ekki?,“ segir Hanna Rún og segir þau hjónin hafa verið mjög stressuð.

  Hanna Rún segir tímann frá fæðingu dótturinnar hafa flogið áfram og allt í einu séu fimm vikur liðnar. „Ég er bara búin að vera hér heima og maður veit varla hvaða dagur er. Ég er búin að vera að lyfta löppinni upp, með vöðvanum sem er sá mikilvægasti í dansinum. Ég var alltaf að bíða eftir að vakna og fóturinn væri kominn í lag, líka bara svo maður sé ekki að hræða aðrar konur sem eru óléttar og að fara að eiga og þurfa jafnvel í mænudeyfingu,” segir Hanna Rún, og bætir við að það sem kom fyrir hana sé mjög mjög sjaldgæft.

  Ástæðan fyrir því að hún vildi segja frá núna sé sú að þau hjónin eru að byrja aftur með dansnámskeið. Hafi þau frestað þeim aðeins vegna þessa, en nú séu þau að byrja um næstu helgi.

  „Þó ég geti ekki dansað þá get ég kennt og það finnst mér ofboðslega gaman.“

  Fylgja má Hönnu Rún á Instagram og einnig eru hjónin búin að opna nýja heimasíðu fyrir dansnámskeiðin.

   

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum