Helgi stofnaði sönghóp á Facebook sem er að slá í gegn: „Öllum velkomið að koma með sitt framlag í gleðina“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Helgi Haraldsson stofnaði fyrir stuttu Facebook-hópinn, Syngjum veiruna í burtu, öllum frjálst að leggja sitt af mörkum. Hópurinn hefur fengið góðar viðtökur og keppast félagar við að deila inn myndböndum af söng, sem oftast er tekinn upp með engum undirbúningi.

 

Hópinn má finna hér.

„Þetta byrjaði í einhverju flippi þar sem við vorum nokkrir félagar með opið Snapchat að kasta á milli okkar áskorunum um að syngja á snappinu,“ segir Helgi í samtali við Mannlíf.

Helgi er 41 árs, búsettur á Seyðisfirði og félagarnir sem hann vísar til eru: Trausti Friðriksson sem býr á Akureyri, Kristján Magnússon sem býr í Keflavík og Rúnar Ásþór Ólafsson sem býr á Spáni. Helgi hefur hitt Trausta, en ekki hina tvo í eigin persónu, en segir það lagast síðar.

„Svo fannst mér þetta bara eitthvað svo gott konsept og fólk var farið að gera þetta svolítið á hinum ýmsu miðlum. Og þá datt mér allt í einu í hug: „Af hverju ekki að ná þessu liði saman í grúppu og hafa gaman,“ segir Helgi. „Það er jú mjög skemmtilegt og gott fyrir sálina að koma saman og syngja og þar sem við flest hlýðum Víði þá eru svoleiðis fjöldasamkomur auðvitað bannaðar sem stendur og því ekki þá að koma saman í grúppu og reyna að syngja þessa óværu í burtu. Það er kannski ekki læknisfræðilega mögulegt að syngja þetta í burtu en við getum allavega haft gaman saman og glatt hvort annað.“

Þegar þetta er skrifað eru meðlimir hópsins orðnir 2063 og fer bara fjölgandi.

„Viðtökurnar hafa bara verið almennt mjög góðar bæði í þátttöku og áhorfi. Hópurinn fer stækkandi og mér finnst fólk líka vera almennt ánægt með þessa hugmynd miðað við ummæli og viðbrögð í hópnum,“ segir Helgi og segir alla velkomna í hópinn. „Og öllum velkomið að koma með sitt framlag í gleðina.“

En syngur hann sjálfur?

„Ég er lítið í söng nema fyrir sjálfan mig og snappið og já núna eitt og eitt lag í grúppunni góðu. Sumir kalla mig snappara en ég veit ekkert hvort ég er nógu vinsæll til að bera þá nafnbót en ég hef allavega gaman af því að pródúsera eitt og eitt rugl á snappinu,“ segir Helgi, sem er formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði og virkur í starfi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, en dagvinnan er skolpdælubílstjóri hjá Bólholt á Egilsstöðum.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Lilja Ósk nýr formaður SÍK

Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdastjóri og meðeigandi kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Pegasus var á fimmtudag kjörin formaður stjórnar Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda,...

Bassafanturinn genginn út

Þröstur Jónsson, fyrrum bassaleikari pönkrokksveitarinnar Mínus, og Martina Klara, eru nýtt par.Parið skráði sig í samband í...