2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hildur hlaut Óskarinn

  Hildur Guðnadóttir tónskáld hlaut rétt í þessu Óskars-verðlaun í flokknum besta tónlist fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker.

   

  Hildur er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta styttuna eftirsóttu. Brie Larson, Gal Gadot og Sigourney Weaver afhentu verðlaunin.

  „Allar konur eru ofurhetjur,“ sögðu stöllurnar og Maestra Eimear Noone sá um að stjórna tónlistinni undir tilnefningunum og er það í fyrsta sinn í sögu Óskarsins sem tónlistarstjórnandinn er kona.

  Brie Larson, Sigourney Weaver og Gal Gadot
  Mynd / EPA

  AUGLÝSING


  Fyrsti Íslendingurinn til að fá Óskar

  Þetta er í sjöunda sinn sem Íslendingar fá tilnefningu til Óskarsins, en Hildur er áttundi Íslendingurinn. Árið 1992 var Börn náttúrunnar, kvikmynd Friðrik Þórs Friðrikssonar, tilnefnd sem besta erlenda kvikmyndin. Árið 2001 voru söngkonan Björk og Sjón tilnefnd fyrir besta lagið í kvikmynd fyrir lagið I’ve Seen It All úr kvikmyndinni Dancer in the Dark. Pétur Benjamín Hlíðdal var árið 2005 tilnefndur ásamt Tom Fleischman fyrir bestu hljóðblöndun fyrir The Aviator. Rúnar Rúnarsson leikstjóri og Þórir Snær Sigurjónsson framleiðandi voru tilnefndir árið 2006 fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn. Jóhann Jóhannsson fékk tilnefningar árin 2015 og 2016 fyrir tónlist sína í kvikmyndunum The Theory of Everything og Sicario.

  Sjá einnig: Hildur Guðnadóttir: Hafnfirðingurinn sem heillar heimsbyggðina

  Weaver þjófstartaði líklega, því þegar tónlistinni lauk reif hún upp umslagið og tilkynnti nafn Hildar, í stað þess að nöfn allra tilnefndra væru lesin upp meðan mynd af þeim væri varpað á skjáinn.

  „Til stelpnanna, til kvennanna, til mæðranna, til dætranna, sem heyra í tónlistinni rísa upp að innan; látið í ykkur heyra. Við þurfum að heyra raddir ykkar,“ sagði Hildur tilfinningarík meðal annars í þakkarræðu sinni. Hún þakkaði einnig fjölskyldu sinni fyrir.

  Mynd / EPA

   

  Myndband af ræðu Hildar má sjá hér.

  Hildur svaraði spurningum baksviðs eftir að hafa tekið á móti Óskarnum og má sjá það myndband hér.

  Sjöunda konan í karlaveldi

  Hildur er fjórða konan sem vinnur Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmyndatónlist og sú sjöunda sem hefur verið tilnefnd í 92 ára sögu Óskarsins, alls eru tilnefningarnar tíu og verðlaunin fjögur. Hildur er  fyrsta konan í meira en 20 ár til að vinna Óskar fyrir bestu tónlist. Þær sem unnið hafa Óskar fyrir bestu tónlist eru Marilyn Bergman (Yentl 1983), Rachel Portman (Emma 1996) Anne Dudley (The Full Monty’s 1997). Angela Morley var tilnefnd 1974 og 1977, Lynn Ahrens 1997, Rachel Portman var einnig tilnefnd 1999 0g 2000 og Mica Levi 2016.

  Hildur og eiginmaður hennar, tónskáldið Sam Slater
  Mynd / EPA

  Óskars-verðlaunahátíðin fer fram í 92. sinn í kvöld í Dolby leikhúsinu í Los Angeles.

  Horfa má á keppnina í beinni á RÚV.

  Sjá einnig: Séð og Heyrt spáir í Óskarinn: Þessi fá Óskarsverðlaun

  Mynd /EPA

  Stórlaxar í sama flokki

  Aðrir sem tilnefndir voru í sama flokki og Hildur eru engir nýgræðingar í bransanum, fjórir karlmenn sem allir eiga margar tilnefningar til Óskarsverðlauna að baki og tveir þeirra hafa farið heim með styttuna og það oftar en einu sinni. Alexandre Desplat (Little Women), Randy Newman (Marriage Story), Thomas Newman (1917) og John Williams (Star Wars: The Rise of Skywalker). Williams hefur verið tilnefndur fyrir bestu tónlist 46 sinnum og unnið fjórum sinnum. Allt í allt hefur hann verið tilnefndur til 53 Óskarsverðlauna og er þannig sá sem hefur fengið næstflestar tilnefningar til Óskarsverðlauna, í fyrsta sæti er Walt Disney. Thomas Newman hefur 14 sinnum verið tilnefndur og Randy Newman níu sinnum, en hvorugur hefur unnið. Alexandre Desplat hefur 11 sinnum verið tilnefndur og unnið tvisvar. (Til gamans má svo geta að Randy og Thomas eru frændur).

  Mynd /EPA

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum