2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Hugurinn er hjá dýrum og fólki í Ástralíu“

  Listakonan Margrét Ósk Hildur Hallgrímsdóttir selur nú verk með mynd af kóalabirni og rennur 100% af ágóðanum til styrktar CFA (Country Fire Authority) í Ástralíu.

   

  „Undanfarna daga hefur hugurinn verið mikið hjá dýrum og fólki í Ástralíu. Mig langar til þess að hjálpa á þann litla hátt sem ég get. Styrkir fara í að aðstoða björgunaraðila, dýr og fólk sem hefur orðið fyrir skaða vegna eldanna,“ segir Magga, sem segist ekki taka oft þátt í fjáröflunum á Facebook. „Ég geri það bara ef mér finnst málefnið ná til mín, síðast var ég með í bleikum október því það málefni snertir mig persónulega. En ég ákvað að reyna að hjálpa í þessu tilfelli líka.“

  „Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um dýr og skordýr og viljað fara til Ástralíu síðan ég vissi hvað Ástralía var út af einstaka dýralífinu þar. Og það hefur verið á „Bucket-listanum“ mínum heillengi að sjá kóalabjörn í sínu náttúrulega umhverfi en ekki í dýragarði,“ segir Magga.

  Myndin sem hún teiknaði og selur til styrktar CFA er af krúttlegum kóalabirni, stykkið kostar 3.000 krónur og vonast Magga til að selja 200 verk og safna þannig 600 þúsund krónum fyrir málefnið.

  AUGLÝSING


  Kóalabjörninn hennar Möggu.

  „Áður en eldarnir náðu heimsathygli sá ég fyrir mér sofandi kóalabjörn í tré með sólina í bakgrunni, en núna þegar þetta hræðilega ástand stendur yfir sé ég kóalabjörn sem er búinn að flýja upp í tré með himin sem lýsist upp af eldi í bakgrunni.“

  Þeir sem vilja styrkja málefnið með því að kaupa mynd geta gert það á Facebook-síðu Möggu, MÓHH verk. Myndin er svo prentuð á vistvænan pappír, númeruð, árituð og send í pósti.

  Allir sem vilja mega deila myndinni á stafrænu formi og vekja þannig athygli á málefninu.

  Allir mega deila myndinni.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum