2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Íslenskt app í fyrsta sæti í Bandaríkjunum

  Spurningaleikurinn Trivia Royale, sem gefinn er út af íslenska tæknifyrirtækinu Teatime er í fyrsta sæti á lista App Store yfir mest sóttu leiki í Bandaríkjunum.

  Leikurinn kom út fyrir viku og hefur farið sigurför um heiminn. Á bak við leikinn stendur sama teymi og gaf út spurningaleikinn QuizUp fyrir nokkrum árum, sem einnig átti miklum vinsældum að fagna.

  Þorsteinn B. Friðriksson, einn stofnenda Teatime, sagði í samtali við Vísi að velgengni leiksins vestanhafs sé mikill sigur fyrir Teatime.

  „Að vera númer eitt í Bandaríkjunum er eins og að vera númer eitt í heiminum. Það er bara ótrúlegt, við erum bara í smá sjokki hérna. Við erum búin að vera að fylgjast með þessu núna, við gáfum hann út í síðustu viku og byrjaði strax mjög vel og maður sá þetta fara eitthvað upp en ég hreinlega átti ekki von á því að við myndum ná fyrsta sæti.“

  AUGLÝSING


  Teatime Games er með höfuðstöðvar sínar á Laugavegi 56, en 15 manns vinna hjá fyrirtækinu.

  Það kostar ekkert að spila Trivia Royale en hægt er að kaupa hluti í leiknum sem skapar Teatime tekjur. Trivia Royale er eins konar QuizUp leikur nema með svipuðu keppnisfyrirkomulagi og Fortnite og fleiri vinsælir leikir þar sem stór hópur keppir innbyrðis í útsláttarkeppni um að standa uppi sem eini sigurvegarinn.

  Nú um helgina eru fleiri Bandaríkjamenn að hlaða leiknum niður en öppum allra þekktustu netfyrirtækja heims. Leikurinn, Trivia Royale, gekk fyrst mjög vel í Bretlandi þar sem hann var á topp tíu í liðinni viku en fór svo að dreifast hratt um heiminn. Um helgina fór hann í toppsætið yfir farsímaleiki í Bandaríkjunum og upp úr hádegi í dag fór hann svo í toppsætið í App store heilt yfir.

  Í leiknum búa notendur sér til svokallaðan „avatar,“ sem er eins konar birtingarmynd hvers spilara í leiknum. Þá geta notendur notað til þess að sýna viðbrögð sín og andlitshreyfingar meðan spilað er, með hjálp myndavéla þeirra snjalltækja sem spilað er á.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum