Jón var settur í „makeover“ – Sjáðu ótrúlega útkomu

Deila

- Auglýsing -

Jón Guðmundsson, 51 árs, var eins og margir ekki búinn að huga að útlitinu í nokkurn tíma. Svo fór að vinir hans þrír fengu nóg, sögðu Jóni að taka daginn frá og fóru með hann í klippingu og rakstur, og létu svo dressa hann upp frá toppi til táar.

 

„Ég var ekki búinn að fara í klippingu síðan í desember,“ segir Jón í samtali við Mannlíf. „Og ekki búinn að raka mig síðan í febrúar. Ég var bara alltaf á leiðinni.“

Jón segir vini sína þrjá alltaf hafa verið að ýta á hann og að lokum fengu þeir nóg: „Vinir mínir, Björgvin Barðdal ljósmyndari og eigandi Seglagerðarinnar Ægir,  Jónas B. Björnsson, verkstjóri á saumaverkstæðinu þar og Gunnar Jónsson fasteignasali (Gunni straumur) sögðu mér að við værum að fara á Barber á Laugavegi. Þar var ég settur í klippingu og rakstur.“

Jón segist hafa spurt hvort hann ætti ekki að skipta um föt áður en lagt væri af stað, en vinirnir bönnuðu honum það. Fyrri myndin er af honum eins og hann er svona dags daglega við vinnuna. „Síðan eftir klippingu og rakstur, fóru þeir með mig í Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar, og þar var ég dressaður upp frá toppi til táar. Eina sem ég átti fyrir þegar ég gekk út voru nærbuxurnar!“

Breytingin er ótrúleg

Að lokum fóru vinirnir fjórir á Eiriksson Brasserie og gerðu vel við sig í mat. „Þetta var allt þeirra hugmynd,“ segir Jón, sem var hæstánægður með breytinguna. Aðspurður segist hann þó ekki búinn að raka sig síðan, en „makeoverið“ fór fram í lok maí.

„Skeggið er að verða eins og áður,“ segir Jón, „þannig að vinirnir eru alltaf að hnippa í mig og spyrja hvort ég sé ekki að fara að gera eitthvað í þessu. Ég fer að drífa mig í rakstur!“

Jón fyrir og eftir
- Advertisement -

Athugasemdir