Jónína Björt í verðlaunasöngleiknum Vorið vaknar: „Hárið vex alltaf aftur“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Þetta er minn stærsti draumur að rætast svo það má alveg segja að ég sé vægast sagt mjög spennt,“ segir Jónína Björt Gunnarsdóttir söng- og leikkona sem tekur þátt í verðlaunasöngleiknum Vorið vaknar sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir á föstudaginn í Samkomuhúsinu.

 

Marta Nordal leikstýrir söngleiknum, um danshreyfingar sér West End danshöfundurinn Lee Proud og um tónlistina sér hinn eini sanni Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. „Ég er ótrúlega spennt að vinna með öllu þessu flotta fólki og fá að kynnast öllum, bæði teyminu og leikurunum. Mórallinn er frábær og hér eru mikil hæfileikabúnkt eins og mun sjást á föstudaginn.“

Vorið vaknar hefur farið sigurför um heiminn síðan söngleikurinn var frumsýndur á Broadway árið 2006 þar sem hann hlaut 8 Tony awards en Jónína sá verkið á sínum tíma á Broadway. „Tony verðlaunin eru svona óskarsverðlaun Broadway fólksins. Þegar ég sá sýninguna var hún leikin af tvöföldu „casti“, helmingurinn var heyrnarlaus. Það var mjög áhugaverð og öðruvísi sýning. Ofur söngleikjaaðdáandinn ég er svo auðvitað búin að hlusta mikið á tónlistina.“

Vorið vaknar fjallar um unglinga og ólgandi tilfinningarnar innra með þeim en Jónína varð að klippa á sér hárið til að líta út fyrir að vera yngri. „Í náminu lék ég alltaf ömmurnar svo það er bara skemmtileg áskorun að þurfa að yngja sig upp. Mér fannst ekkert mál að þurfa að klippa mig. Ég var með eldrautt hár þegar ég lék í Rocky Horror í Hofi hjá Leikfélagi Akureyrar svo ég ýmsu vön. Mér leið svolítið eins og eins árs dóttur minni þegar ég var komin með stuttan top, en þetta er bara hár, það vex alltaf aftur.”

Jónína lærði við söngleikjadeild í New York Film Academy þar sem hún horfði á frelsisstyttuna út um gluggann á morgnanna. Hún segist helst vilja búa á Íslandi og líður vel á Akureyri. „Í skólanum úti létu skólafélagar mínir sig dreyma um Broadway en ég hugsaði bara um leikhúsin heima. Atvinnuleikhúsin á Íslandi eru Broadway fyrir mér. Þangað ætlaði ég mér alltaf og þangað er ég komin og nú er bara spurning hvað tekur við. Draumurinn er allavega að vinna eingöngu við söng-, dans- og leiklist.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira