• Orðrómur

Kristinn Rúnar er með geðhvörf-Sáttur við Benedikt: „Mér þykir vænt um að sumir hugsuðu til mín“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Kristinn Rúnar Kristinsson, sem er 31 árs að aldri, hefur glímt við geðhvörf í rúman áratug, en hann var greindur með geðhvörf árið 2009. Í maníum hefur hann margoft lent í ýmsum uppákomum, sem margar eru hálflygilegar að heyra.

Kristinn Rúnar gaf bókina Maníuraunir: Reynslusaga strípalingsins á Austurvelli út í lok ársins 2018, og las hana síðar sjálfur inn sem hljóðbók á Storytel. Í bókinni segir hann frá því þegar hann berháttaði sig á Austurvelli, sem hann varð landsþekktur fyrir eftir að fréttir birtust af atvikinu, hvernig hann reyndi að tengjast Cristiano Ronaldo í gegnum Herbalife og stýrði umferð á sundskýlunni einni fata.

- Auglýsing -

Kristinn Rúnar hefur verið opinn um andleg veikindi sín, og vill vekja fólk til umhugsunar um geðsjúkdóma. Núna í júní fór hann í sína fimmtu maníu, sem lesa má nánar um hér. 

Nýlega lauk sýningum á sjónvarpsþáttaröðinni Ráðherrann á RÚV og eins og þeir sem horfðu á þættina vita fjalla þeir um forsætisráðherrann Benedikt Ríkarðsson, sem er með geðhvörf, og maníu sem hann fer í.

Kristinn Rúnar tjáir sig um þættina í færslu á Facebook-síðu sinni Kristinn Rúnar Kristinsson Bipolar, þar sem hann segist strax hafa orðið spenntur þegar hann frétti af þáttunum og ákveðið að horfa með gagnrýnum augum og opnum huga.

- Auglýsing -

„Við pabbi vorum sammála um að svona sjónvarpsefni á Íslandi, þar sem aðalpersónan væri með geðhvörf, hefði líklega ekki verið til umræðu að gera fyrir um það bil 15 árum síðan,“ segir Kristinn Rúnar.

„Mér fannst þetta þræl skemmtilegt og vel heppnað í nánast alla staði. Manían hjá forsætisráðherranum fannst mér þó fara of rólega af stað. Benedikt var frá byrjun öðruvísi einstaklingur og með aðrar hugsanir en kollegar hans en ég var að bíða eftir einhverju meira afgerandi fyrr. Í fjórða þætti voru allt í einu margir farnir að hafa áhyggjur af honum, að hann væri orðinn svo ör eftir að hann tók við embættinu og þyrfti á hjálp að halda. Frá þeim tímapunkti fór manían að stigmagnast nokkuð greinilega. Mér fannst vanta eitthvað smávegis í þætti tvö og þrjú, að hann væri þá farinn að fljúga meira upp áður en áhyggjurnar byrjuðu skyndilega hjá fólkinu í kringum hann.“

Tengdi persónulega við margt í þáttunum

- Auglýsing -

Kristinn Rúnar segist hafa tengt þættina töluvert við sjálfan sig, og eitt þeirra þá sérstaklega. „Eitt atriðið lét mig fá sérstaklega mikla gæsahúð … ,,Benedikt … hvernig er álagið að fara með þig? Nærðu alveg að sofa?“ ,,Já, já, já, ja, já, jú. Þú veist, eða Ísland sefur ekki sko.“ Mér fannst þetta svo mikið beint í mark, svona litlar en mjög svo manískar setningar.“

Kristinn Rúnar nefnir fleiri atriði eins og þegar Benedikt vakti innanríkisráðherra upp um miðja nótt, og þegar hann var einn á fjalli í sauðskinnsskóm, búinn að missa öll tengsl við raunveruleikann.

„Einnig var viðeigandi fyrir manneskju sem er að fljúga upp þegar forsætisráðherra bankaði upp á hjá innanríkisráðherra kl. 4.30 að nóttu til. Það er erfitt að bíða eftir því að aðrir vakni, þegar maður er spenntur yfir einhverju eða að eitthvað getur ekki beðið. Það segir sig sjálft. Og í næstsíðasta þættinum (þætti sjö af átta) þegar Benedikt, var einn upp á fjalli í jakkafötum og sauðskinsskóm, með kindunum og hundinum sínum í ekkert sérstaklega góðu veðri, algjörlega í sínum eigin heimi og ekki að spá í neitt annað í langan tíma – búinn að missa öll tengsl við raunveruleikann og að upplifa einhvers konar alsæluástand,“ segir Kristinn Rúnar og bætir við að um það bil 1% þjóðarinnar hafi tengt vel við það atriði. „Að hann skyldi slasa sig svona illa er síðan líklega einn mesti ótti allra í kringum þann sem er í mikilli maníu.“

Sjálfsfróunarsena ósmekkleg

Það er þó eitt atriði sem Kristni Rúnari fannst óþarfi og ósmekklegt, þegar Benedikt reynir við Hrefnu aðstoðarkonu sína og fróar sér í kjölfarið.

„Það var þó eitt sem stakk mig mest og mér fannst það óþarfi og ósmekklega sett fram. Kynhvötin eykst vissulega í maníu en þegar Benedikt fór að reyna við aðstoðarmann sinn sem endaði síðan sem áreiti og sjálfsfróun um leið og hún fór út … það var svona: ,,Ahh, það hefði mátt gera þetta öðruvísi,“ móment.“

Lifði sig inn í þættina

Kristinn Rúnar segist hafa lifað sig inn í alla þættina og haldið með Benedikt forsætisráðherra í flestu, þó að honum hafi fundist hann mjög ýktur í sínum aðgerðum.

„Ég vonaði að hans andstæðingar, aðallega andstæðingar innan sama stjórnmálaafls, næðu ekki að koma sínum vilja í gegn til þess að koma honum úr embætti með sjálfræðissviptingu eða að birta sjúkraskýrslu með sjúkdómsgreiningu sem átti að verða banabiti Benedikts, eins og þetta var sett upp. Ég tengi vel við þetta, maður hefur upplifað í gegnum tíðina, að sumir aðilar séu að reyna að stöðva mann í því sem maður ætlar sér,“ segir Kristinn Rúnar, sem kannast við fleiri atriði persónulega:

„Benedikt lét föður sinn stöðva bílinn í miðju rifrildi á Akureyri og strunsaði út og skellti hurðinni á eftir sér. Þetta hef ég líka gert, við tvær manneskjur – pabba og gamlan vin minn, heppni þá bara að hurðin fór ekki af í látunum.“

Kristinn Rúnar segir þættina hafa náð að fanga vel það fjölskyldudrama sem oft verður. „Samband Benedikts við konuna sína var ekkert sérstakt og skömmin frá henni vegna geðhvarfanna og yfirhylmingin var það sem stóð mest upp úr. Von mín var eiginlega sú að ástandið myndi dempast hjá Benedikt undir lokin eða að hann fengi viðeigandi hjálp án þess að það myndi hafa áhrif á hans frama í stjórnmálunum … höfuðhöggið varð það hins vegar sem tók hann úr maníunni, lyf sem hann síðan fékk og svo fylgdi niðursveifla í kjölfarið.“

Geðsjúkdómar eiga ekki að vera feimnismál

Segist Kristinn Rúnar hafa fengið ryk í augun undir lok þáttanna þegar Benedikt sagði frá geðhvörfunum í ávarpi sínu og hætti þar með feluleiknum, þvert á vilja konu hans. „Það er bara alls ekki langt síðan það fór að verða möguleiki hér á landi, það er að opna sig um sín andlegu mál og halda áfram nokkuð eðlilegu lífi.“

Segist Kristinn Rúnar gefa þáttaröðinni 4,3 stjörnur af 5 mögulegum og segist hann ekki geta ímyndað sér að neinn maður sé ósáttur með afraksturinn.

„Ólafur Darri átti stórleik, sem maður átti von á enda sennilega okkar færasti leikari. Hann var smeykur fyrir fram, að hann hefði kannski ekki leikið þetta nógu vel, og fólk með geðhvörf og aðstandendur þeirra yrðu mögulega óánægð með eitthvað tiltekið. Ég veit að allir sem komu að gerð þáttanna kappkostuðu að gera þetta af virðingu og að sýna geðhvörfin í eins sönnu ljósi og hægt væri. Ég get ekki ímyndað mér að það sé nokkur maður ósáttur með afraksturinn,“ segir Kristinn Rúnar og segir þættina hjálpa í baráttunni við að fræða fólk um geðsjúkdóma sem eigi ekki að vera feimnismál.

„Það kom vel fram í þáttunum að þetta var viðkvæmt feimnismál, að forsætisráðherra væri með geðhvörf. Vonandi verður það ekki þannig í framtíðinni, hvort sem það er í stjórnmálum eða annars staðar. Að heyra orðið manía á sjónvarpsskjánum var líka létt gæsahúð, það hefur lítið sem ekkert heyrst á skjánum fyrr og yfir 90% fólks hefur ekki haft hugmynd um hvað orðið þýðir. Ég get fullyrt það út frá fyrirlestrinum mínum,“ segir Kristinn Rúnar, sem hefur undanfarnar vikur og mánuði verið lítið meðal fólks í hálfgerðri sóttkví.

„Flestir sem ég hef hitt undanfarið hafa spurt mig hvort ég sé ekki örugglega að horfa á Ráðherrann. Mér þykir vænt um að sumir hugsuðu til mín þegar þau horfðu á þættina.“

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -