2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Landslið poppara hvetja landsmenn til að hlýða Víði: „Við elskum svona stúss, að dúllast innanhúss“

  Íslendingar hafa staðið sig frábærlega vel í baráttunni við COVID-19 sjúkdóminn, en þetta er langhlaup og enn er að minnsta kosti mánuður eftir af stríðinu. Núna þegar farið er að hægjast á virkum smitum og páskar eru í nánd er gríðarlega mikilvægt að landsmenn haldi vöku sinni og haldi áfram að hlýða Víði!

   

  Til þess að hamra heim þessi skilaboð og leggja málefninu lið hefur hópur stórpoppara, ásamt þremur leynigestum, sent frá sér myndband af laginu „Ferðumst innanhúss“. Lagið er betur þekkt á Íslandi sem „Góða ferð“ en er núna flutt við nýjan texta eftir Leif Geir Hafsteinsson.

  Allir þeir sem komu að laginu gáfu vinnu sína með glöðu geði, allt til að leggja mikilvægu málefni lið og styðja við frábæra vinnu heilbrigðisyfirvalda og þremenningana: Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, Ölmu D. Möller landlæknis og Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns

  AUGLÝSING


  Aðdragandi lagsins

  Leifur Geir samdi textann helgina 28. -29. mars, flutti lagið með Kristjáni Steini syni sínum og birti á Facebook-vegg sínum þann 29. mars. Lagið og flutningurinn vakti nokkra athygli, var deilt víða og voru skrifaðar nokkrar fréttir á vefmiðlum um uppákomuna. Í kjölfarið kviknaði sú hugmynd hjá Leifi Geir að gera myndband af laginu í anda „We are the world“, safna saman stórpoppurum Íslands og leynigestunum þremur og fá þá til að taka höndum saman við að hamra heim skilaboðin: „Hlýðum Víði“ og „Ferðumst innanhúss“ núna fyrir páskana.

  Fyrsta símtal Leifs Geirs var fimmtudaginn 2. apríl við Halldór Gunnar Pálsson, Fjallabróður, sem tók boltann á lofti og þá var ekki aftur snúið. Síðan hafa þeir félagar lagt nótt við dag, með aðstoð alls þessa frábæra fólks sem lagði hönd á plóg, við að púsla öllu saman þannig að næðist að koma laginu út í dag.

  Hvernig var lagið tekið upp?

  Allur söngur var tekinn upp sem myndband á snjallsíma þátttakanda og einu leiðbeiningarnar sem söngvararnir fengu voru þessar: „Við sjáum fyrir okkur að yfirbragð myndbandsins verði í „verum heima“ stílnum, það er heimilislegt, eðlilegt og tilgerðarlaust. Endilega verið frjó í því hvar þið takið upp, látið vaða á skemmtilegar hugmyndir og hafið í huga að boðskapur lagsins er jú að búa til ævintýri úr hversdagsleika heimilisins. Hafið símann í uppréttri „portrait“ stöðu.

  Þátttakendur hittust aldrei á meðan ferlinu stóð, voru heima hjá sér við tökur og þannig voru allar reglur um nánd, samkomubann og það að halda sig heima virtar 100% við vinnslu lagsins.

  Lagið sjálft

  Textinn er eftir Leif Geir Hafsteinsson en lagið eftir Enrico Sbriccoli, Carlo Pes, Ferreira Sebastiao og Francesco Migliacci, og heitir í upprunalegri útgáfu Che

  Sará, flutt af Jose Feliciano. Á Íslandi varð það fyrst vinsælt í flutningi BG og Ingibjargar undir heitinu „Góða ferð“, við texta Jónasar Friðriks, en Stefán

  Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson endurgerðu það 2006 við geysimiklar vinsældir.

  Ferðumst innanhúss – texti lagsins

  1.

  Þú veist það eru viðsjárverðir tímar

  með landamæri lokuð víðast hvar

  En sútum ekki örlög, heldur húkkum okkur far

  Í ferðalag og freistum gæfunnar

   

  Góða ferð, góða ferð, góða ferð

  þetta‘er tækifæri‘af allra bestu gerð

  Já tínum til vort trúss og ferðumst innanhúss

  Góða ferð, verum sæl með góða ferð

  2.

  Í tveggja metra fjarlægð kæri vinur

  og ekki fleiri‘ en nítján á sama stað

  Í takmörkunum lífsins þá líst mér best á það

  að bregða mér í ilmolíu-bað

   

  Góða ferð, góða ferð, góða ferð

  þetta‘er heima-SPA af allra bestu gerð

  Oh við elskum svona stúss, að dúllast innanhúss

  Góða ferð, verum sæl með góða ferð

   

  3.

  Ef leiðigjörn er orðin blessuð stofan

  og eldhúsið svo hversdagslegt og grátt

  Þá ævintýrin bíða, það toppar enda fátt

  góða bílskúrsútilegu, yfir nátt

   

  Góða ferð, góða ferð, góða ferð

  þetta‘er útilega af allra bestu gerð

  Já tínum til vort trúss og kúrum innanhúss

  Góða ferð, verum sæl með góða ferð

   

  4.

  Nú þurfa allir þétt að standa saman

  og koma COVID-stríðinu á skrið

  Ef efla viljum lýðheilsu og finna sálarfrið

  Við hlýðum Víði og ferðumst heima við!

   

  Góða ferð, góða ferð, góða ferð

  þetta‘er upplifun af sérstökustu gerð

  Já, fáum úr því rúss, að ferðast innanhúss

  Góða ferð, verum sæl með góða innanhúsferð

  Góða ferð, verum sæl með góða ferð

  Flytjendur og aðstandendur lagsins

  Lagið var frumflutt í kvöld, þriðjudaginn 7. apríl á RÚV, Stöð2 og Sjónvarpi Símans, og helstu útvarpsrásum og vefmiðlum í kjölfarið.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum