2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Leikkonan og Reykjavíkurdóttirin Þórdís Björk segir heilandi að vera á Akureyri

  „Þetta er fyrsta hlutverkið mitt eftir útskrift þannig að ég er ógeðslega spennt og tilbúin í þetta,“ segir leikkonan og Reykjavíkurdóttirin, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, en Þórdís leikur eitt aðal hlutverkanna í verðlaunasöngleiknum Vorið vaknar sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í janúar.

   

  Vorið vaknar fékk átta Tony verðlaun þegar söngleikurinn var frumfluttur á Broadway árið 2006. Síðan hefur söngleikurinn farið sigurför um heiminn en þetta verður í fyrsta skipti sem hann er settur upp af atvinnuleikhúsi á Íslandi. Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, leikstýrir söngleiknum og danshöfundurinn er hinn margverðlaunaði Lee Proud frá West End.

  Leikhússtjóri
  Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, leikstýrir söngleiknum Vorið vaknar. Söngleikurinn hefur farið sigurför um heiminn en er nú í fyrsta skipti sýndur í atvinnuleikhúsi á Íslandi.

  Þórdís segist halda mikið upp á söngleikinn. „Tónlistin er svo falleg og hrífandi og þessi saga hreyfir við manni. Það hefur alltaf verið draumur að fá að leika aðalhlutverk í söngleik og ég gæti eiginlega ekki ímyndað mér betra fólk en Mörtu og Lee til að vinna með. Ég hef unnið með Mörtu áður, þegar hún leikstýrði útskriftarverkefninu okkar í LHÍ, Mutter Courage, sem var einmitt í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar og Þjóðleikhúsið. Það er virkilega gott að vinna með henni og hún er að gera ótrúlega spennandi hluti hér fyrir norðan. Ég er mjög þakklát að fá að vera partur af þessu verkefni og fá tækifæri til að vinna aftur með henni.“

  AUGLÝSING


  Vorið vaknar
  Þórdís Björk leikur aðal hlutverkið á móti Júlí Heiðari Halldórssyni.

   

  Hún segir danshöfundinn Proud magnaðan og engum líkur. „Hann hefur auðvitað tekið söngleiki hér á Íslandi algjörlega uppá næsta „level“. Ég hef ekki getað gengið fyrir harðsperrum síðan æfingar byrjuðu en hann nær algjörlega því besta útúr manni og fær alla til að blómstra.“

  Þórdís Björk hefur komið sér vel fyrir á Akureyri en viðurkennir að það sé erfitt að vera fjarri fjölskyldunni. „Og þá sérstaklega stráknum mínum. Það fer samt ótrúlega vel um mig hér á Akureyri. Það er svo góð orka hérna og eiginlega bara mjög heilandi fyrir svona orkubolta eins og mig að koma hingað og geta einbeitt mér að vinnunni. Það er mjög dýrmæt reynsla.“

  Hljómsveitin hennar, Reykjavíkurdætur, er á fullu þessa dagana að undirbúa jólatörn auk þess að græja útgáfu á nýrri plötu sem er væntanleg í vor. „Við reynum að nýta jólafríið til að fara í myndatökur og taka upp tónlistarmyndband þegar við verðum loksins allar heima um jólin. Svo það verður alveg nóg að gera!“

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum