Ukulellur, ukulele sveit skipuð miðaldra lesbíum, eins og þær segja sjálfar á YouTube hefur nú gefið út lag við texta Braga Valdimars Skúlasonar um píkuprump.
Upphaf lagsins og textans má rekja til greinar sem birtist í jólablaði Vikunnar 10. desember í fyrra. Þar skrifaði greinarhöfundur Vera Sófusdóttir ákall til Braga Valdimars um hvort hann gæti ekki fundið betra orð fyrir píkuprump.
„Við konur getum ekkert að því gert þótt loft sleppi út úr leggöngunum, með dálitlum látum jafnvel. Loftið sem fer þangað inn við innsetningu verður jú að komast aftur út. Píkuprump, eins og það er jafnan kallað á íslensku, er einfaldlega eitthvað sem við konur ráðum ekki við og getum ekki haldið í okkur, en mörgum þykir vandræðalegt að lenda í því fyrir framan bólfélaga,“ skrifaði Vera og lagði til nokkur ráð til að minnka líkurnar á píkuprumpinu.
„Mikið vildi ég samt að hægt væri að finna fallegra orð yfir þetta. Getur ekki Bragi Valdimar Skúlason, Kappsmálsmaður og Baggalútur, fundið eitthvað fallegt orð í stað píkuprumpsins?“
Bragi Valdimar var ekki lengi að bregðast við og svaraði ákallinu á Twitter með fjölda nýyrða fléttuðum saman í texta.
Klofsöngur & skapasköll
skuðahvinur, láfuköll.
Tussupískur, barmabrak
budduljóð & físukvak.
Pík–atsjú & rifuraul
rjáfurgola, pjásubaul.
Kússugjálfur, klobbaflaut,
kórpjása & tónaskaut.
Neðribæjardirrindí
dalagola, pjallerí.En þó það máski kveiki krump
— kallast þetta píkuprump. pic.twitter.com/5TsbwkF6Py— Bragi Valdimar (@BragiValdimar) December 10, 2020
Og nú hefur Helga Margrét Marzellíusardóttir sett saman lag við textann sem hér má hlusta á í flutningi Ukulellanna.
Ukulellurnar voru stofnaðar í lok árs 2018 af hópi samkynhneigðra kvenna, en um er að ræða 12 lesbíur sem hittast reglulega á æfingum þar sem þær syngja og spila á hljóðfærið Ukulele.