Nýtt á Netflix Hjem til jul: Hvar finnur kona kærasta á 24 dögum fyrir jól?

Deila

- Auglýsing -

Þættirnir Hjem til jul eða Home for Christmas eru glænýir á Netflix. Þættirnir sem eru sex talsins eru um 30 mínútur hver þáttur. Þáttaröðin er því tilvalin til áhorfs eina kvöldstund, og ég horfði á hana í gærkvöldi þegar óveðrið,  eða golan eins og sumir kölluðu það, geisaði um landið.

 

Johanne er 30 ára, einhleyp og barnlaus, sú yngsta af systkinum sínum, sem eru öll komin með maka og börn. Móðir Johanne er auðvitað ekki par sátt við makaleysi örverpisins, og finnur hverja fjölskyldustund til að ýja að þessum skorti á tengdasyni, ja eða tengdadóttur. Síðan bætir ekki úr skák að fyrrum kærasti Johanne sem dömpaði henni fyrir þremur árum, er enn í guðatölu hjá móður hennar, sem skilur bókstaflega ekkert í hvað klikkaði þar.

Þættirnir koma frá frændum okkar í Noregi og á Netflix má velja um að hlusta á frummálið eða hafa enskuna, ég valdi fyrra, enda gott að hvíla sig af og til á ensku máli.

Johanne í jólaboðinu 1. desember enn á krakkaborðinu enda einhleyp

Í fjölskylduboðinu þann 1. desember ákveður Johanne, orðin langþreytt á þessu tuði um hvenær hún eignist kærasta, að láta slag standa og segist komin með einn. Móðir hennar er alsæl og segir að hann verði auðvitað að koma í jólaboðið þann 24. Því eru góð ráð dýr, Johanne hefur 24 daga til að finna kærastann, sem hefur ekki dúkkað upp á þremur árum.

Þáttaröðin er frábær og fullkomin á aðventunni. Í þeim má finna dramatík, fáránleika, gleði, húmor, sorg og allt þar á milli. Stundum allt í bland og stundum ekki.

Fyrir utan þann eina galla að við eigum að trúa að sú hjartahlýja, skemmtilega og fallega kona sem Johanne er hafi gengið um vonbiðlalaus í þrjú ár, og síðan séu þeir á hverju horni á 24 dögum, þá mæli ég eindregið með þessum skemmtilegu og hjartahlýju þáttum, sérstaklega núna á aðventunni.

Johanne bakar köku fyrir ástmann sinn, en hvern þeirra?

Þættirnir fá mann til að trúa því að ástin leynist þarna úti, eða svo vitnað sé í sjálfan Hugh Grant: „Ef þú leitar, þá hef ég lúmskan grun um að þú komist að því, að ástin er í raun alls staðar.“

- Advertisement -

Athugasemdir