2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Nýtt lag frá Skítamórall – Aldrei ein afturhvarf í gamla Skímó hljóminn

  Hljómsveitin Skítamórall sendir frá sér nýtt lag á morgun, fimmtudaginn 26. mars, á streymisveitur og útvarpsstöðvar og um leið verður nýtt myndband frumsýnt.

   

  Hljómsveitin hefur ekki verið virk í nýrri tónlist síðustu tíu ár en þá kom út platan Ennþá sem voru upptökur af 20 ára afmælistónleikum sveitarinnar. Þess á milli komu út lögin Þú (ert ein af þeim) og Förum tilbaka. Lagið sem kemur út á morgun heitir Aldrei ein og er alveg hreinræktað Skítamórals lag. Fyrir þá sem þekkja sveitina vel og hennar verk minnir lagið á lögin af plötunni Nákvæmlega” sem kom út vorið 1998. Svo mikið að sumir hafa kallað það týnda lagið.

  Afturhvarf í gamla hljóminn

  AUGLÝSING


  „Við erum búnir að vera að reyna að semja og útsetja inn í tíðarandann en til að ná því fram þarf stundum að fórna gamla hljómnum eða gömlum elementum,“ segir Hebbi Viðars bassaleikari sem er höfundur lagsins. „Svo bara fórum við að leita aftur í gamla hljóminn okkar og leituðum af þeim þáttum sem drógu hlustendur til okkar í upphafi.“

  Vignir Snær Vigfússon stjórnaði upptökum af laginu en sveitin hefur unnið heilmikið með honum í gegnum tíðina.

  Skítamórall
  mynd / Aðsend

  Valur í Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur samdi textann

  „Það er allt löðrandi í gamla Skítamóral í þessu lagi og maður fer bara í huganum á sveitaball, sér fyrir sér sumar, sól og betri tíð með blóm í haga, bara akkúrat það sem þjóðin þarfnast núna! Maður sér jafnvel fyrir sér dalinn taka undir,“ segir Addi Fannar.

  Textinn við nýja lagið er eftir Val Arnarsson æskuvin strákana frá Selfossi og inntakið er að þrátt fyrir að við séum öll einstök erum við langt frá því að vera ein, saman erum við ein heild. Valur var meðal annars aðalsprauta hinnar goðsagnakenndu hljómsveitar Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur (Já menn kunna að gefa hljómsveitunum nöfn á Selfossi).

  30 ára afmælistónleikar í Hörpu 9. maí

  Hljómsveitin Skítamórall var stofnuð á Selfossi árið 1989 og hefur starfað þannig, nánast í upprunalegri mynd í rúm þrjátíu ár.  Hljómsveitin gaf út sína  fyrstu plötu, Súper árið 1996, Tjútt fylgdi svo í kjölfarið árið 1997, Nákvæmlega árið 1998 og Skítamórall árið 1999. Þær tvær síðastnefndu komu hljómsveitinni endanlega á kortið og hefur hljómsveitin notið velvildar og vinsælda allar götur síðan. Á þessari öld komu svo plöturnar Má ég sjá og Ennþá og safnplatan Skímó – Það besta frá Skítamóral.

  Hljómsveitin ætlar að fagna þessum áfanga með stórtónleikum í Hörpu 9. Maí. Þar mun sveitin spila öll sín vinsælustu lög og spila þau nákvæmlega eins og um risa sveitaball ball væri að ræða. Strákarnir hafa engu gleymt og nú ætla þeir að líta um öxl og halda tónleika í Eldborg. Umgjörðin verður hin glæsilegasta og engu til sparað við að búa til ógleymanlega kvöldstund sem enginn sannur Skímó aðdáandi má láta fram hjá sér fara. Miðasala er inná Harpa.is og eitthvað örlítið til af miðum ennþá.

  Hljómsveitina Skítamóral skipa:
  Gunnar Ólason, söngur/gítar
  Einar Ágúst Víðisson, söngur/gítar/ásláttur
  Jóhann Bachmann, trommur
  Herbert Viðarsson, bassi
  Gunnar Þór Jónsson, gítar
  Arngrímur Fannar Haraldsson, gítar.

  30 ára saga í þremur málsgreinum

  Skítamórall er íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 1989 af þeim Gunnari Ólasyni söngvara og gítarleikara, Herberti Viðarsyni bassaleikara, Jóhanni Bachmanni Ólafssyni trommara og Arngrími Fannari Haraldssyni gítarleikara. Þeir eru allir fæddir árið 1976 og koma frá Selfossi. Það var hálfbróðir Arngríms, Einar Bárðarson sem lagði til að nafnið Skítamórall yrði notað. Hljómsveitin gaf út sinn fyrsta geisladisk, Súper árið 1996, Tjútt fylgdi svo í kjölfarið árið 1997, Nákvæmlega árið 1998 og Skítamórall árið 1999. Sveitin náði strax nokkrum vinsældum með fyrstu tveimur diskunum sínum en geisladiskurinn Nákvæmlega náði að festa sveitina í sessi sem eina af vinsælustu sveitaballahljómsveitum landsins. Einar Ágúst Víðisson bættist í hópinn árið 1997 þegar hljómsveitin spilaði á Þjóðhátíð í Eyjum sem söngvari, áslátursleikari og gítarleikari.

  Geisladiskurinn Nákvæmlega, sem innihélt meðal annars lagið Farin sem náði miklum vinsældum og var á toppi íslenska listans í þrjár vikur árið 1998, hlaut gullplötu. Árið 2000 var hinsvegar toppur ferilsins hjá strákunum í Skítamóral en sveitin hætti í kjölfar mikillar vinnu í byrjun árs 2001. Skítamórall kom saman aftur á Hlustendaverðlaunum FM957 haustið 2002. Sumarið 2004 lék hljómsveitin víða um land en síðsumars skildi Einar Ágúst við hljómsveitina. Árið 2005 gaf hljómsveitin út sína fimmtu hljómplötu sem hlaut nafnið Má ég sjá og gerði hljómsveitin myndbönd við nokkur lög af plötunni sem leikstýrð voru af Hannesi síðar landsliðsmarkverði í fótbolta.

  Í byrjun árs 2009 gekk gítarleikarinn Gunnar Þór Jónsson til liðs við hljómsveitina sem síðar sama ár hélt upp á 20 ára afmæli með tónleikum á Rúbín við Öskjuhlíð. í kjölfarið var gefinn út tónleikadiskurinn Ennþá en á disknum fylgdi einnig DVD með öllum myndböndum hljómsveitarinnar. Einar Ágúst gekk aftur til liðs við hljómsveitina árið 2014 og hefur hún síðan þá komið fram einstöku sinnum og sent frá sér nokkur lög. Í maí 2020 ætlar hljómsveitin að koma fram í félagsheimili allra landsmanna, Hörpu.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum