Úrslitakeppnin í amerískum fótbolta, Super Bowl eða Ofurskálin, fór fram í gærkvöldi (nótt að íslenskum tíma) á Raymond James Stadium í Tampa. Um er að ræða einn stærsta íþróttaviðburð ársins og langstærsta sjónvarpsviðburð Bandaríkjanna og því jafnan mikið í hann lagt.
Í hálfleik er heimsþekktur tónlistarmaður fenginn til að sjá um fjörið og var árið í ár engin undantekning. The Weeknd mætti til leiks, og var mikið lagt í sýninguna, en hann greiddi sjálfur um 900 milljónir króna í herlegheitin. Flutti hann vinsælasta lag síðasta árs Blinding Lights ásamt fleiri smellum sínum.
Tampa Bay Buccaneers og Kansas City Chiefs áttust við og unnu þeir fyrrnefndu með miklum yfirburðum, 31-9.
Sökum kórónuveirufaraldursins voru færri áhorfendur en vanalega, eða 25 þúsund. 7.500 heilbrigðisstarfsmönnum var boðið, en allir hafa þeir verið bólusettur fyrir kórónaveirunni.