Olivia de Havilland látin

Deila

- Auglýsing -

Olivia de Havilland leikkona er látin, 104 ára að aldri. De Havilland var ein af goðsögnum Hollywood, hún hlaut tvenn Óskarsverðlaun á ferli sínum fyrir besta leik í aðalhlutverki í myndunum To Each his Own árið 1946 og The Heiress árið 1949. Hún var alls tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna, og hlaut einnig Emmy-verðlaun og Golden Globe verðlaun, auk annarra verðlauna. Hún lék í 49 kvikmyndum á löngum og farsælum ferli á árunum 1935-1980.

Í tilkynningu frá umboðsmanni hennar segir að hún hafi fengið hægt andlát á heimili sínu í gær í París í Frakklandi, þar sem hún bjó síðan snemma á sjötta áratug síðustu aldar.

„Hún var drottning í Hollywood og verður minnst sem slíkrar í kvikmyndasögunni,“ sagði Thierry Fremaux, stjórnandi kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í samtali við AFP-fréttastofuna.

De Havilland var einnig baráttukona fyrir réttindum leikara í Hollywood, og þar er enn í gildi viðauki við atvinnulöggjöfina, sem kölluð er de Havilland-reglan. Leikkonan fór á sínum tíma í mál við Warner Bros kvikmyndaverið sem hún var samningsbundin, og árið 1945 var kveðinn upp úrskurður þar sem réttindi leikara voru bætt til muna.

- Advertisement -

Athugasemdir