Perla Guðmundar: „Textinn er byggður á reynslu vina minna og því sem ég hef upplifað“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Perla heitir nýjasta lag Guðmundar Rafnkells Gíslasonar en það verður á plötunni Sameinaðar sálir, sem kemur út 19. febrúar, á 50 ára afmælisdegi Guðmundar. Á plötunni eru lög eftir Guðmund, Jón Ólafsson og Guðmund Jónsson. Allir textar eru eftir Guðmund.

 

Platan Sameinaðar sálir

Bubbi Morthens syngur með Guðmundi í Perlu. „Lagið fjallar um Alzheimer og textinn er byggður á reynslu vina minna og því sem ég hef upplifað. Bjarni Halldór Kristjánsson (Halli) mótaði þetta lag með mér í upphafi og á frumútsetningu,“ segir Guðmundur.

Bubbi og Guðmundur
Mynd / Facebook

„Textinn er að stórum hluta byggður á því sem hann sagði mér á sínum tíma en móðir hans var veik af Alzheimer í mörg ár en er nú látin. Halli spilar líka hinn stórkostlega sólógítar í laginu sem margir eru að tala um. Gítarsólóið kemur sannarlega frá hjartanu og nú vitið þið hvers vegna.“

Guðmundur er þekktastur sem forsöngvari norðfirsku popphljómsveitarinnar Súellen sem átti talsverðum vinsældum að fagna á níunda og tíunda áratug aldarinnar sem leið. Með nýju sólóplötunni fylgir hann eftir plötunni Þúsund ár (2017) sem hann vann einnig með Jóni Ólafssyni og hljómsveitinni Coney Island Babies frá Neskaupstað. Sú plata gekk prýðilega en innihélt hún m.a. lagið Eins og vangalag sem komst inn á vinsældalista Rásar 2. Áður hafði Guðmundur gefið út hljómplötuna Íslensk tónlist (2007) sem var unnin með tónlistarmanninum Haraldi Reynissyni sem lést nýliðið haust, langt fyrir aldur fram.

Lag og texti í Perla er eftir Guðmund sjálfan. Upptökum stjórnaði fyrrnefndur Jón og Bassi Ólafsson hljóðblandaði. Um undirleik sáu, auk Jóns og Bassa, þeir Bjarni Halldór Kristjánsson (gítar), Stefán Magnússon (gítar), Hafsteinn Már Þórðarson (bassi) og Jón Knútur Ásmundsson (trommur).

Platan Sameinaðar sálir.

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira