Sigurbjörn Þorgrímsson, Bjössi Biogen, tónlistarmaður, hefði orðið 45 ára í dag. Sigurbjörn féll fyrir eigin hendi 7. febrúar 2011 eftir langa baráttu við geðhvarfasýki (bipolar/manic depressive disorder) – sjúkdóminn sem hafði haft mikil áhrif á lífshlaup hans og listsköpun.
Eftir andlát Sigurbjörns ákváðu Atli Már, bróðir hans, foreldrar þeirra, Þorgrímur Baldursson og Jenný G. Sigurbjörnsdóttir, og vinir hans, að safna saman öllu efni sem Sigurbjörn hafði samið og gefa það út á vinyl plötum og geisladiskum. „Mikið af efninu hafði aldrei verið gefið út áður og var bara til á hörðum diskum hjá honum,“ segir Atli Már.
Stofnað var til hópfjármögnunar á Karolinafund til að fjármagna útgáfuna og kom fram að allur ágóði yrði gefinn til styrktar sjálfsvígsforvörnum. „Nú þegar Bjössi hefði átt 45 ára afmæli, 24. febrúar, er komið að því að gefa Píeta samtökunum eina milljón króna, sem er ágóði af sölu tónlistar Biogen, bæði af sölu platna og geisladiska, auk STEF tekna sem hafa safnast upp,“ segir Atli Már.
Sigurbjörn Þorgrímsson, eða Bjössi Biogen eins og flestir þekktu hann sem, var einn af frumkvöðlum íslenskrar raftónlistar á árunum 1992 til 2011 og hafði mikil áhrif á íslensku raftónlistarsenuna.
Fjölmargir komu að útgáfunni og vill fjölskyldan þakka þeim öllum. Sérstakar þakkir fá vinir Bjössa, raftónlistarmennirnir Árni Grétar Jóhannesson (Futuregrapher), Tanya Pollock (Röskva) og Jónas Þór Guðmundsson (Ruxpin) og fleiri fyrir aðstoð við útgáfu og Ragnar Jónasson og Ólafur Breiðfjörð (ILO) fyrir hönnun umslags (covers).
„Hann hafði ómetanleg áhrif á mig sem tónlistarmann – og ferill minn sem Futuregrapher (sem spinnur nú margar plötur og mörg ár) hefði aldrei orðið að veruleika nema út af því að hann trúði á mig og mitt verkefni. Hann sagði mér að halda áfram. Hann hjálpaði mér að gefa út. Ég verð honum óendanlega þakklátur. En Bjössi sjálfur var tónlistarsnillingur. Hann var með Þórhalli Skúlasyni í Ajax. Hann var einn af þeim sem stofnuðu Thule Records. Hann var með Tanyu Pollock í Weirdcore. Hann var tónlistarmaður sem samdi töff tónlist og líka fallega tónlist. Hann var svalur – og hann var umfram allt; góður vinur. Margt af þessu dóti sem hann samdi og gaf út – var sjálfútgefið. Eins og plöturnar Mutylin og You Are Strange. Þetta dót er ófáanlegt í dag í góðum gæðum. Flest allt dótið sem hann gerði sem Biogen er líka mjög erfitt að finna. Þannig að það var kominn tími á þetta,“ sagði raftónlistarmaðurinn Árni Grétar Jóhannesson (Futuregrapher) um vin sinn, þegar hópfjármögnunin fór af stað.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna, þar síminn 552-2218 opinn allan sólarhringinn og vefsíðan www.pieta.is.