2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Rándýr gjafapoki á Óskarnum: Skemmtisigling um Suðurskautslandið, gylltur veippenni og snjallbrjóstahaldari

  Óskarsverðlaunahátíðin fer fram sunnudaginn 9. febrúar í Dolby Theatre í Los Angeles og að vanda verður mikið um dýrðir. Það munu ekki allir sem tilnefndir eru fara heim með verðlaun, en þó fara allir 24 einstaklingarnir sem tilnefndir eru fyrir hlutverk og leikstjórn heim með veglegan gjafapoka í boði Distinctive Assets, markaðsfyrirtæki sem sérhæfir sig í fræga fólkingu og vörustaðsetningu í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

   

  Gjafapokinn er veglegur svo ekki sé meira sagt og er andvirði hvers poka 215 þúsund dollarar (um 27 milljónir íslenskra króna) sem er 70 þúsund dollurum meira en fyrir ári. Til samanburðar þá kostar 400 dollara að gera hverja Óskarsstyttu, en hver þeirra er húðuð 24 karata gulli og er styttan að líkindum með eftirsóttustu verðlaunagripum heims. Forbes fjallar ítarlega um gjafapokana dýru.

  Að jafnaði eru gjafapokarnir 25, en í ár eru þeir einum færri þar sem leikkonan Scarlett Johansson er tilnefnd bæði fyrir aðalhlutverk í Marriage Story og aukahlutverk fyrir Jojo Rabbit. Fær hún því bara einn poka, en samkvæmt stofnanda Distinctive Assets, Lash Fary, hyggst hann hafa samband við hana um hvort hún vilji gefa hinn pokann.

  Fary stofnaði fyrirtækið fyrir tuttugu árum, þá 28 ára gamall, og þá sem vettvang fyrir hönnuði til að koma fatnaði sínum á framfæri fyrir sjónvarpsþætti. Árið 2000 byrjaði hann að gefa stjörnunum merktar vörur á Grammy-verðlaununum. Í dag þá útbýr Fary og fyrirtæki hans gjafapoka fyrir flestar stærstu verðlaunahátíðirnar, þar á meðal Tony-verðlaunin og bandarísku tónlistarverðlaunin,

  AUGLÝSING


  Hann segir að alltaf sé einn og einn sem vilji ekki gjafapokann, í fyrra ákvað leikkonan Glenn Close, sem tilnefnd var fyrir The Wife, að gefa sinn gjafapoka til kvennaathvarfs í hennar nafni. Gjafapoki er þó klárlega rangnefni, því hlutirnir og gjafirnar sem um ræðir eru svo margir að þeir eru færðir gjafaþegum í nokkrum ferðatöskum vikuna fyrir Óskarinn.

  Fyrirtækin sem gefa gjafirnar bera kostnaðinn, en um er að ræða allt frá gjafakössum með kökum til fegrunaraðgerða og sérvaldra lúxusferða. Einnig greiða fyrirtækin sérstaka greiðslu til Distinctive Assets fyrir að fá að vera með. Kostnaðurinn er frá 4 þúsund dollurum til 50 þúsund dollara. Stórar upphæðir en lágar borið saman við 2 milljóna verðmiðann á 30 sekúndna auglýsingu í útsendingu verðlaunanna. Þrátt fyrir að gjafapokinn sé rándýr, margborgar hann sig ef/þegar stjarna sem fær gjafapokann sést nota gjöfina og tala nú ekki um ef hún birtir færslur um það á samfélagsmiðlum.

  Sem dæmi um gjafir í gjafapokanum í ár má nefna vatnsflöskur frá Hfactor (30 dollarar stykkið), baðbombur frá Hotsy Totsy Haus (75 dollarar stykkið) og snjall-hárband frá Muse (250 dollarar). Einnig fá gjafaþegar gjafabréf á stærri gjafir eins og 12 daga siglingu á snekkjunni Scenic Eclipse, sem tekur 220 farþega, innifalið eru einkaþjónar, tvær þyrlur og spa. Um er að ræða dýrustu gjöf gjafapokans og er andvirðið um 78.190 dollarar, snekkjan siglir meðal annars til Suðurskautslandsins og Miðjarðarhafsins.

  Snekkjan glæsilega

  Gjafabréf á spænskt lúxushótel, sem var áður viti (1300-1899 dollarar nóttin), ársaðild að Drawing Down The Moon Matchmaking (20.000 dollarar), og 25.000 dollara andvirði snyrtimeðferða og aðgerða hjá fegrunarlækninum Konstantin Vasyukevich.

  Lúxushótelið sem áður var viti

  Ódýrasti hluturinn í gjafapokanum eru tveir pakkar af súkkulaði, þar sem hvor kostar 4,89 dollara.

  Á meðal furðulegra hluta í gjafapokanum eru heilbrigðisvörur frá Peezy Midstream, vörur sem notaðar eru til að mæla sýkingar í þvagi. Einnig má nefna snjallbrjóstahaldara frá Soma sem mælir réttu stærðina á brjóstahaldara fyrir konur og 150 dollara gyllta veip-græju frá Hollowtips.

  Brjóstahaldarinn

  Veip penninn

  Aðspurður um af hverju ríku stjörnunum eru gefnir rándýrir gjafapokar með vörum sem þau hafa fyllilega efni á að kaupa sér sjálf, svarar Fary: „Jennifer Lawrence þarf ekki 20 milljón dollara fyrir kvikmynd, en hún er komin á þann stað að geta krafist þess vegna nafns síns.“

  Skatturinn mun þó taka sitt því skylt er að greiða tekjuskatt af gjafapokanum.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum