Tvíburasysturnar Freyja og Oddný Benónýsdætur, og hálfsystir þeirra Margrét Ósk Guðjónsdóttir, tóku upp lag hljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns, Undir þínum áhrifum, á sunnudag.
Guðjón Halldór Óskarsson faðir Margrétar og stjúpfaðir Freyju og Oddnýjar birti myndbandið á Facebook og voru viðtökurnar frábærar.
„Oddný og Freyja eru í kór Menntaskólans á Laugarvatni. Fyrr í vetur lentu þær í 2. og 3. sæti í undankeppni framhaldskóla á Laugarvatni. Þær kepptu fyrir Hvolsskóla í úrslitum Samfés 2019,“ segir Guðjón í samtali við Mannlíf. „Þær tóku þátt í Ísland got talent er þær voru 11 ára og komust í sjónvarpið.“
Tvíburasysturnar eru 17 ára, og Margrét Ósk verður 12 ára núna í apríl. Fjölskyldan býr rétt fyrir utan Hvolsvöll á bæ sem heitir Miðtún.
„Margrét Ósk er í söngnámi í Tónlistarskóla Rangæinga hjá Unni Birnu Björnsdóttur. Allar hafa þær lært á hljóðfæri,“ segir Guðjón og aðspurður um hvort það sé hann sem spili undir svarar hann glettinn: „Jú ég fæ að gera það.“
Horft hefur verið yfir 22 þúsund sinnum á myndbandið, og þar sem það vakti svona mikla lukku, þá tóku þær upp annað lag og myndband í gær, í þetta sinn lag Bubba, Með þér, og það hefur fengið yfir 20 þúsund áhorf.
Það er nokkuð ljóst að við eigum eftir að sjá og heyra meira frá systrunum í Miðtúni.