Tónlistarmennirnir Birnir Sigurðarson og Páll Óskar gefa í dag út lagið Spurningar ásamt myndbandi.
Lagið er samið af Birni og Þormóði Eiríkssyni pródúsent og lagahöfundi. Magnús Leifsson leikstýrir myndbandinu, en hann hefur gert mörg slík, meðal annars fyrir Of Monsters and Men, Hatara, Retro Stefson og Emmsjé Gauta.
„Þetta er lag um ást og erfiðleika sem fylgja henni. Svo er þetta líka bara algjört smash popp lag, og tæklar það að vera í ástarsambandi eða vera ástfanginn eða skotinn. Þá geta í kjölfarið komið efasemdir,“ segir Birnir um nýja lagið í samtali við Vísi.
„Ég gerði þetta lag með Þormóði, söng bara upprunalega demóið og datt Palli í hug – þetta var svolítið Pallalegt. Ég sendi honum demóið. Við höfðum aldrei unnið saman áður en þekktumst aðeins í gegnum tónlistina.“