Þegar einar dyr lokast opnast aðrar – SinfoniaNord ljós í myrkrinu hjá SN í COVID-19 

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eins og aðrar menningarstofnanir hefur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands orðið hart úti í COVID-19 faraldrinum. „Frá því að samkomubann gekk fyrst í gildi á vordögum hefur hljómsveitin þurft að fella niður eða fresta átta tónleikum og nær ómögulegt er að segja hvenær starfsemin getur aftur komist í eðlilegt horf,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Upptökur hjá SinfoniaNord

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar

Þorvaldur segir stöðuna ekki góða fyrir þá fjölmörgu áheyrendur sem vilja njóta menningar á Akureyri. „Staðan er ekki síður alvarleg fyrir hljóðfæraleikara sem ráðnir eru sem verktakar til hljómsveitarinnar og verða af tekjum sem þau hefðu annars getað reitt sig á,“ segir Þorvaldur en bætir við að þegar einar dyr lokast opnast stundum aðrar eins og gerst hefur varðandi sprotaverkefni hljómsveitarinnar sem kallað er SinfoniaNord og snýst um upptökur á sinfónískri tónlist í Hofi.

Sony, Netflix og BBC á meðal viðskiptavina

„Frá því að heimurinn fór í hægagang í febrúar 2020 hefur Menningarfélag Akureyrar, sem rekur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, lagt allt kapp á að efla SinfoniaNord verkefnið og árangurinn hefur verið vonum framar.“

Frá páskum hafi þannig verið teknir upp tólf alþjóðlegir titlar fyrir norðan og verkefnið velt hátt í 40 milljónum króna en á meðal viðskiptavina má nefna Sony, Netflix, Ilan Eshkeri, BBC, Atla Örvarsson, Volker Bertelman og Lionsgate.

Upptökur fylla í tómið

„Það er um tvöföld sú upphæð sem hljómsveitin fær frá opinberum aðilum til að halda úti hefðbundinni tónleikadagskrá sinni. Það er vissulega gleðiefni að tekist hefur að fylla að einhverju leyti það tóm sem COVID-19 faraldurinn hefur skilið eftir í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands en sýnir um leið mikilvægi þess að stjórnvöld taki þátt í starfsemi SN með myndarlegri hætti en nú er.“

Upptökur fara fram í Hofi
Mynd / Auðunn Níelsson

Ný atvinnusinfóníuhljómsveit

Þorvaldur segir árangur SinfoniaNord verkefnisins í COVID-19 faraldrinum sýna að á Íslandi hefur í raun orðið til ný atvinnusinfóníuhljómsveit. „Það færi vel á því að hið opinbera nýti nú tækifærið og gefi hljómsveitinni færi á að skila til samfélagsins því sem hún svo vel gæti gert ef stutt væri við starfsemina með bara örlítið myndarlegri hætti en gert er. Þó stuðningur við starfsemina næmi ekki nema tíunda hluta þess sem varið er til sambærilegra verkefna á höfuðborgarsvæðinu yrðu sennilega til á vegum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands allt að 30 ný störf utan höfuðborgarsvæðisins og þeim mun meira í menningarverðmætum. Það mun einnig gera hljómsveitinni kleyft að þróa sprotaverkefnið SinfoniaNord enn frekar og skapa þannig enn fleiri nýjar gjaldeyristekjur til framtíðar fyrir Ísland allt.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -