Daði Freyr og Gagnamagnið héldu upp á árs afmæli í gær á Valentínusardaginn sjálfan, en þá var komið ár frá því að myndband við lag Daða, Think About Things, var frumsýnt.
„Við fögnuðum því með því að fara í tökur á nýju tónlistarmyndbandi fyrir nýja Eurolag EuroDaða og EuroGagnamagnsins. Damn hvað við hlökkum til að sýna ykkkuuuuuurrrrrrrrrr!,“ segja meðlimir hópsins í færslu á Facebook.
Lagið Think About Things er komið með rúmlega 24 milljón áhorf á YouTube, en eins og alþjóð veit vann lagið Söngvakeppnina 2020 og átti lagið að vera framlag Íslands í Eurovision það ár, en keppnin var blásin af. Þegar kom að því hjá RÚV að ákveða fyrirkomulag Söngvakeppninnar í ár var Daða boðið að vera fulltrúi Íslands sem hann þáði.
Búningarnir eru klárir, hannaðir af Lovísu Tómasdóttur, og birtu hjónin Daði Freyr og Árný Fjóla mynd af sér í þeim fyrir helgina. Ekki er vitað hvort að um er að ræða búninga bara fyrir myndbandið, eða hvort hópurinn muni klæðast þeim líka í Eurovision keppninni.
View this post on Instagram
Upptökur á myndbandinu hófust í gær eins og áður segir, en lagið verður frumflutt 13. mars í nýjum skemmtiþætti á RÚV, Straumar. Myndband lagsins verður frumsýnt í lok mars og einnig stendur til að gefa út tölvuleik þar sem Daði og Gagnamagnið verða í lykilhlutverki.
Hópurinn stígur á svið í Rotterdam í Hollandi 20. maí á seinna undanúrslitakvöldi Eurovision, og úrslitakvöldið er síðan tveimur dögum seinna, 22. maí.