Tolli býður heim: „Mér þykir afar vænt um þetta verkefni og þakklátur að vinir mínir vilja koma með mér í þetta“

Deila

- Auglýsing -

Tolli Morthens myndlistarmaður hefur í mörg ár haft þá jólahefð að bjóða gestum og gangandi til sín á opið hús í tengslum við Fullveldisdag okkar íslendinga.

 

Í ár er engin breyting þar á og stillir Tolli nú upp einvalaliði til að skemmta gestum sínum. Tolli opnar vinnustofuna sína að Héðinsgötu 2 í Laugarnesi, klukkan 15 og standa hátíðarhöldin til klukkan 17.

Þar mun Einar Már Guðmundsson lesa upp úr verkum sínum, Bubbi Morthens bróðir Tolla, mun einnig lesa upp úr nýútkominni ljóðabók sinni og spila nokkur lög. Þessi landsþekktu herramenn eru fyrir löngu orðnir fastir gestir hjá Tolla enda hafa drengirnir úr Vogahverfinu haldið hópinn í gegnum marga áratugi.

„Þetta er áralöng hefð hjá mér og mér þykir afar vænt um þetta verkefni og þakklátur að vinir mínir vilja koma með mér í þetta. Ég nýti líka alltaf þetta tækifæri til að taka með mér ungt upprennandi og kraftmikið listafólk til að kynna fyrir gestunum mínum. Það er ábyrgðar hlutur að við sem eldri erum greiðum götu þeirra sem er að byrja á þessari vegferð sem við þekkjum svo vel. Í þessu tilfelli rennur mér blóðið til skyldunnar í orðsins fyllstu merkingu,“ segir Tolli.

En Bubbi og Einar Már eru ekki einu gestir Tolla í ár. Skáldkonan Ásdís Þula Þorláksdóttir mun lesa upp efni úr nýútkominni ljóðabók sinni Sólstafir. Ljóð Ásdísar eru í anda gömlu þulanna og kallast á við þulur og ljóð eins og við þekkjum úr Vísnabókinni okkar og við þulurnar hennar Theodóru Thoroddsen sem allir landsmenn þekkja. Svo skemmtilega vill til að Theodóra hún er langamma Ásdísar og þannig endurtekur sagan sig í þessu efni ef svo má segja.

Af myndlistinni sem verður til sýnis þá er vert að segja frá því að Kristín Morthens mun sýna verk sín. Hún hefur numið og starfað við myndlist í Kanada og sýnt þar og miklu víðar um allan heim. Kristín mun sýna olíumálverk en verk hennar eru litrík og kraftmikil og hafa vakið mikla athygli.

Þá mun enginn annar en Bubbi Morthens sýna málverk sem hann hefur unnið að undanförnu sem minni við lög sín og verður æði forvitnilegt að sjá þessi verk hans. Þá þarf vart að taka það fram að gestgjafinn Tolli sýnir verk sín.

Mynd af Bubba við sjálfsmynd anno 1985

„Ég hef verið með stóra bróðir að mála og átt geggjaðar stundir og ég fer í ræktina mjög snemma og kem svo til hans. Nokkrum sinnum í viku kemur til hans þjálfari í bardagaíþróttum þá mála ég meðan Tolli er frjáls í flæðinu,“ sagði Bubbi nýlega á Facebook þar sem hann birti mynd af stóra bróður að æfa box í stúdíóinu á Héðinsgötu.


Veitingar verða á boði meðan þær endast, en snillingur Jói í Múlakaffi sér um þær. Allir eru velkomnir.

- Advertisement -

Athugasemdir