Fimmtudagur 11. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Alvotech reisir nýja lyfjaverksmiðju í Kína

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hönnun og undirbúningur fyrir byggingu nýrrar lyfjaverksmiðju Alvotech í Changchun í Kína er á lokametrunum og standa vonir til að hún verði komin í gagnið á næsta ári. Verksmiðjan er byggð í samstarfi við Changchun High & New Technology Industries og opnar samningurinn við kínverska fyrirtækið dyrnar að öðrum stærsta lyfjamarkaði heims.

 

Sendinefnd frá Changchun High & New Technology Industries var stödd hér á landi í vikunni og fundaði meðal annars með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, ásamt forsvarsmönnum Alvotech. Samningurinn við kínverska fyrirtækið, sem metinn er á 22 milljarða króna, var undirritaður í september 2018 og felur í sér samstarf um þróun, sölu og framleiðslu líftæknilyfja Alvotech í Kína. Samstarfið tryggir Alvotech beinan aðgang að næststærsta lyfjamarkaði heims en Changchun High & New Technology Industries hefur áratuga reynslu á markaðnum og mun sjá um sölu og dreifingu lyfjanna.

„Með samstarfssamningum í Kína og Japan og eigin söluneti í Bandaríkjunum hefur Alvotech tryggt sér beint aðgengi að þremur stærstu lyfjamörkuðum heims.“

Þetta er þó ekki eini samstarfssamningurinn sem Alvotech hefur gert við fyrirtæki í Asíu. Nýlega gerði Alvotech stóran samning um þróun og framleiðslu sinna lyfja í Japan við Fuji Pharma sem er skráð i Kauphöllina í Tókýó. Auk þess keypti fyrirtækið um 4,2 prósenta hlut í Alvotech á rúmlega 6 milljarða króna.

Alvotech og Changchun High & New Technology Industry munu í sameiningu reisa nýja lyfjaverksmiðju í Changchun, sambærilega þeirri sem stendur í Vatnsmýri.

Með samstarfssamningum í Kína og Japan og eigin söluneti í Bandaríkjunum (í gegnum Alvogen sem er systurfyrirtæki Alvotech) hefur Alvotech tryggt sér beint aðgengi að þremur stærstu lyfjamörkuðum heims.

400 vísindamenn á Íslandi í lok árs

Líftæknilyf Alvotech fara á markaði um allan heim á næstu árum þegar einkaleyfi renna út og er áætlað að fyrsta lyfið komi á markað strax á næsta ári. Fyrstu klínísku rannsóknirnar hófust nýverið en um ræðir líftæknilyfshliðstæðu lyfsins Humira sem er í dag söluhæsta lyf heims. Lyfið hefur reynst árangursríkt við meðferð á ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum, eins og liðagigt og psoriasis. Um 400 þátttakendur taka þátt í rannsókninni, sem á sér stað á 30 stöðum vítt og breitt um Evrópu.

Verk eftir Erró prýða höfuðstöðvar Alvotech í Vatnsmýri. Listamaðurinn hitti kínversku sendinefndina, skálaði við fulltrúa hennar og færði þeim bók að gjöf.
- Auglýsing -

Alvotech hefur gert fjölmarga samstarfssamninga undanfarin misseri um sölu og markaðssetningu lyfja Alvotech og verða þau seld á öllum helstu lyfjamörkuðum heims á næstu árum. Til marks um vöxtinn hefur Alvotch ráðið um 40 háskólamenntaða starfsmenn til starfa á þessu ári. Starfsmenn í dag eru um 300 talsins en áætlað er að fyrir lok árs verði ráðnir um 100 háskólamenntaðir vísindamenn til viðbótar á Íslandi.

Ísland og Alvotech í leiðandi stöðu

Róbert Wessman stofnandi Alvotech segir ánægjulegt hversu vel gangi að fá erlenda samstarfsaðila til liðs við fyrirtækið.

- Auglýsing -

„Að byggja nýtt líftæknifyrirtæki frá grunni tekur tíma og hugrekki. Við höfðum skýra sýn fyrir um 10 árum síðan hvernig lyfjamarkaðurinn myndi þróast og við vildum ekki aðeins vera þátttakendur í þeirri þróun. Við viljum vera leiðandi fyrirtæki í heiminum á þessu sviði og staða Alvotech sýnir að við erum á réttri leið. Samstarfssamningar við stór lyfjafyrirtæki í Asíu með áratuga langa sögu sýnir þá tiltrú sem þeir hafa á okkar þróunarstarfi og er okkur mikil hvatning.

Listamaðurinn Erró og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Fjárfesting Alvotech í dag í þróun lyfjasafns, byggingu hátækniseturs og þjálfun starfsfólks er um 70 milljarðar króna og áfram munum við fjárfesta á næstu árum. Þetta þarf því talsverða þolinmæði en nú styttist óðum í að fyrstu lyf okkar komi á markað eins og við var búist. Með tilkomu lyfja Alvotech mun aðgengi sjúklinga aukast að hágæða líftæknilyfjum og lyfjakostnaður mun lækka umtalsvert þegar einkaleyfi frumlyfja renna út.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -