2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Alvotech reisir nýja lyfjaverksmiðju í Kína

Hönnun og undirbúningur fyrir byggingu nýrrar lyfjaverksmiðju Alvotech í Changchun í Kína er á lokametrunum og standa vonir til að hún verði komin í gagnið á næsta ári. Verksmiðjan er byggð í samstarfi við Changchun High & New Technology Industries og opnar samningurinn við kínverska fyrirtækið dyrnar að öðrum stærsta lyfjamarkaði heims.

 

Sendinefnd frá Changchun High & New Technology Industries var stödd hér á landi í vikunni og fundaði meðal annars með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, ásamt forsvarsmönnum Alvotech. Samningurinn við kínverska fyrirtækið, sem metinn er á 22 milljarða króna, var undirritaður í september 2018 og felur í sér samstarf um þróun, sölu og framleiðslu líftæknilyfja Alvotech í Kína. Samstarfið tryggir Alvotech beinan aðgang að næststærsta lyfjamarkaði heims en Changchun High & New Technology Industries hefur áratuga reynslu á markaðnum og mun sjá um sölu og dreifingu lyfjanna.

„Með samstarfssamningum í Kína og Japan og eigin söluneti í Bandaríkjunum hefur Alvotech tryggt sér beint aðgengi að þremur stærstu lyfjamörkuðum heims.“

Þetta er þó ekki eini samstarfssamningurinn sem Alvotech hefur gert við fyrirtæki í Asíu. Nýlega gerði Alvotech stóran samning um þróun og framleiðslu sinna lyfja í Japan við Fuji Pharma sem er skráð i Kauphöllina í Tókýó. Auk þess keypti fyrirtækið um 4,2 prósenta hlut í Alvotech á rúmlega 6 milljarða króna.

Alvotech og Changchun High & New Technology Industry munu í sameiningu reisa nýja lyfjaverksmiðju í Changchun, sambærilega þeirri sem stendur í Vatnsmýri.

AUGLÝSING


Með samstarfssamningum í Kína og Japan og eigin söluneti í Bandaríkjunum (í gegnum Alvogen sem er systurfyrirtæki Alvotech) hefur Alvotech tryggt sér beint aðgengi að þremur stærstu lyfjamörkuðum heims.

400 vísindamenn á Íslandi í lok árs

Líftæknilyf Alvotech fara á markaði um allan heim á næstu árum þegar einkaleyfi renna út og er áætlað að fyrsta lyfið komi á markað strax á næsta ári. Fyrstu klínísku rannsóknirnar hófust nýverið en um ræðir líftæknilyfshliðstæðu lyfsins Humira sem er í dag söluhæsta lyf heims. Lyfið hefur reynst árangursríkt við meðferð á ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum, eins og liðagigt og psoriasis. Um 400 þátttakendur taka þátt í rannsókninni, sem á sér stað á 30 stöðum vítt og breitt um Evrópu.

Verk eftir Erró prýða höfuðstöðvar Alvotech í Vatnsmýri. Listamaðurinn hitti kínversku sendinefndina, skálaði við fulltrúa hennar og færði þeim bók að gjöf.

Alvotech hefur gert fjölmarga samstarfssamninga undanfarin misseri um sölu og markaðssetningu lyfja Alvotech og verða þau seld á öllum helstu lyfjamörkuðum heims á næstu árum. Til marks um vöxtinn hefur Alvotch ráðið um 40 háskólamenntaða starfsmenn til starfa á þessu ári. Starfsmenn í dag eru um 300 talsins en áætlað er að fyrir lok árs verði ráðnir um 100 háskólamenntaðir vísindamenn til viðbótar á Íslandi.

Ísland og Alvotech í leiðandi stöðu

Róbert Wessman stofnandi Alvotech segir ánægjulegt hversu vel gangi að fá erlenda samstarfsaðila til liðs við fyrirtækið.

„Að byggja nýtt líftæknifyrirtæki frá grunni tekur tíma og hugrekki. Við höfðum skýra sýn fyrir um 10 árum síðan hvernig lyfjamarkaðurinn myndi þróast og við vildum ekki aðeins vera þátttakendur í þeirri þróun. Við viljum vera leiðandi fyrirtæki í heiminum á þessu sviði og staða Alvotech sýnir að við erum á réttri leið. Samstarfssamningar við stór lyfjafyrirtæki í Asíu með áratuga langa sögu sýnir þá tiltrú sem þeir hafa á okkar þróunarstarfi og er okkur mikil hvatning.

Listamaðurinn Erró og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Fjárfesting Alvotech í dag í þróun lyfjasafns, byggingu hátækniseturs og þjálfun starfsfólks er um 70 milljarðar króna og áfram munum við fjárfesta á næstu árum. Þetta þarf því talsverða þolinmæði en nú styttist óðum í að fyrstu lyf okkar komi á markað eins og við var búist. Með tilkomu lyfja Alvotech mun aðgengi sjúklinga aukast að hágæða líftæknilyfjum og lyfjakostnaður mun lækka umtalsvert þegar einkaleyfi frumlyfja renna út.“

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni