„Mígreni stórlega vangreint sem er mikið áhyggjuefni“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Mígreni er eitt algengasta heilsufarsvandamál í heimi og ein helsta ástæða vinnutaps hjá fólki. Þeim sem þjást af mígreni er þó ekki alltaf sýndur skilningur fyrir þessu ástandi sem getur bæði haft áhrif á lífsgæði þeirra og árangur í starfi.

 

Ólöf Þórhallsdóttir, sem er lyfjafræðingur og að klára MBA-nám við Háskólann í Reykjavík, starfar sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Florealis. Hún hefur unnið hjá Florealis í eitt ár og ber ábyrgð á sölu- og markaðsmálum fyrirtækisins en það er með starfsemi á Íslandi og í Svíþjóð. „Áður hafði ég verið hjá Actavis og tengdum félögum í um sautján ár,“ segir Ólöf. „Ég starfaði þar sem framkvæmdastjóri bæði á Íslandi og á Norðurlöndunum og var til dæmis búsett í Stokkhólmi í fimm ár.

Að sögn Ólafar er talið að um einn af hverjum tíu einstaklingum þjáist af mígreni, misalvarlega þó. „Mígreni er flókinn taugasjúkdómur sem getur lagt mikla byrði á einstaklinginn sem og samfélagið í heild sinni. Það einkennist af slæmum höfuðverkjaköstum sem vara oft í nokkrar klukkustundir en í verstu tilvikunum geta þau staðið yfir í nokkra daga. Algeng einkenni eru til dæmis stingandi sársauki, oftast í öðrum helming höfuðsins, meltingaróþægindi á borð við ógleði og uppköst, og mikil ljós- og hljóðfælni. Sumir fá fyrirboðaeinkenni, svokallaða áru, við upphaf eða samhliða mígreniköstum. Þetta geta til dæmis verið sjóntruflanir, máltruflanir og doði í andliti eða höndum. Fjöldi og alvarleiki mígrenikasta er mjög mismunandi milli fólks en algengt er að fólk fái eitt til tvö köst á mánuði.“

Ættgengur sjúkdómur
Ólöf segir að enginn viti fyrir víst hvað valdi mígreni en að sjúkdómurinn stafi líklega af truflunum í tauga- og æðakerfinu þar sem boðefnið serotónín spilar lykilhlutverk. „Talið er að efnaójafnvægi í heilanum valdi taugaspennu sem breiðist yfir heilann, oft bara öðrum megin. Þessi taugaspenna virkjar sársaukanema í heilanum þannig að bólgumiðlar losna sem valda frekari sársauka. Við þetta myndast vítahringur sem viðheldur höfuðverkjakastinu.“

„Börn geta fengið mígreni en einkennin eru oft frábrugðnari hjá þeim en hjá fullorðnum.“

Hún segir mígreni vera ættgengan sjúkdóm. „Mikill meirihluti þeirra sem eru með mígreni hefur fjölskyldusögu um sjúkdóminn. Umhverfisþættir skipta miklu máli þar sem ýmis áreiti geta stuðlað að mígreniskasti og áreitin geta verið af ýmsum toga, til dæmis svefntruflanir, kvíði, vissar matartegundir, áfengi, skært ljós og hávaði. Mismunandi er hversu mikil áhrif þau hafa á fólk. Athyglisvert er að mígreniskast getur komið fram þegar fólk nær slökun eftir mikið stress og jafnvel geta breytingar í veðurfari haft áhrif. Vert er líka að nefna að konur tengja mígrenisköst oft við tíðablæðingar.“

Ólöf segir mígreni geta haft mikil áhrif á lífsgæði einstaklinga sem og fjölskyldur ‏þeirra. „Köstin eru oft það slæm að fólk þarf að vera rúmliggjandi meðan á mígrenikastinu stendur og getur því ekki sinnt daglegu lífi. Mígreni er ein helsta ástæða þess að fólk missir úr vinnu, skóla og félagslegum viðburðum og því fylgir þessu mikill kostnaður fyrir samfélagið í heild sinni. Því miður er mígreni stórlega vangreint sem er mikið áhyggjuefni, því mígreni eykur líkur á alvarlegum sjúkdómum eins og heilablóðfalli og hjartaáföllum. Auk þess eru mígrenissjúklingar líklegri en aðrir til að þjást af þunglyndi og kvíða.“

Mígreni ólæknanlegt en hægt að draga úr líkum á því
Aðspurð hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir mígreniskast eða draga úr líkum á því svarar Ólöf að mígreni sé því miður ólæknanlegt. Það sé þó hægt að draga úr líkum á mígrenisköstum með ýmsum ráðum. „Það er mjög gott ef fólk nær að finna út hvort einhver, og þá hvaða, áreiti valda mígrenisköstunum. Í kjölfarið þarf að sjálfsögðu að forðast þessi áreiti eftir fremsta megni. Fyrir flesta er til dæmis mikilvægt að sofa vel, forðast streitu og borða reglulega yfir daginn.“

„Mígreni er ein helsta ástæða þess að fólk missir úr vinnu, skóla og félagslegum viðburðum.“

Ólöf segir að jurtin glitbrá hafi verið notuð sem jurtalyf í yfir þrjátíu ár í ýmsum Evrópulöndum og Bandaríkjunum til að fyrirbyggja mígreni. „Margir hafa heyrt talað um hana undir enska heitinu feverfew og mæla Samtök amerískra taugalækna með notkun á henni. Rannsóknir á glitbrá benda til þess að reglubundin notkun geti fækkað mígrenisköstum og þannig lengt tímann á milli kasta. Auk þess benda niðurstöður til þess að köstin verði vægari og styttri. Nú nýverið tók Aftonbladet í Svíþjóð viðtal við sænskan taugalækni sem lagði áherslu á að jurtalyfið væri mikið notað í Bandaríkjunum og mælti með því að fólk prófaði að nota það til að fyrirbyggja mígreni þegar búið væri að útiloka að um annan sjúkdóm væri að ræða.“

Jurtalyf án lyfseðils
Að sögn Ólafar er glitbráin nú fáanleg sem jurtalyf og hún fæst því án lyfseðils. „Til þessa hefur fólk getað fengið lyfseðilsskyld lyf til að fyrirbyggja mígreni. Um er að ræða til dæmis blóðþrýstingslækkandi lyf og flogaveikilyf. Fyrir alvarleg tilfelli eru komin ný líftæknilyf en auk þess er bótox stundum notað fyrir þá sem eru með alvarlegt langvinnt mígreni.“

Hverjir eru það helst sem fá mígreni? Bæði karlar og konur?
„Konur og karlar á öllum aldri geta fengið mígreni en talið er að um 18% kvenna og 6% karla séu með mígreni. Það er mikilvægt að fólk leiti til heimilislæknis eða taugalæknis ef það fær oft höfuðverkjaköst eða telur sig vera með mígreni. Gott er að vera búin að skrá hjá sér hvar í höfðinu verkurinn kemur, hversu oft höfuðverkjaköstin koma og hvort eitthvað sérstakt komi þeim af stað. Mígreni er langalgengast hjá konum á aldrinum 18-45 ára, en talið er að 20-25% kvenna á þessum aldri séu með mígreni. Börn geta fengið mígreni en einkennin eru oft frábrugðnari hjá þeim en hjá fullorðnum, til dæmis taka köstin að meðaltali styttri tíma, auk þess sem kviðverkir, meltingarfæratruflanir og stoðkerfisverkir eru oft meira áberandi.“

Eru til einhver lyf sem slá á einkenni mígrenis?
„Já, fólk getur tekið ýmis lyf þegar það finnur að mígreniskast er að koma eða eftir að það er komið. Hægt er að taka svokölluð triptan-lyf en einnig bólgueyðandi lyf og verkjastillandi lyf. Við mígreniskast grípa margir til þess ráðs að taka þessi lyf og reyna síðan að sofna í myrkvuðu herbergi en gera þarf ráð fyrir að það taki talsverðan tíma að jafna sig eftir mígreniskast. Mígreni og köstin sem því fylgja eru mjög hvimleið og því tel ég mjög mikilvægt að fólk sé vel upplýst um þá valkosti sem standa til boða, til að auka líkurnar á því að fyrirbyggja mígreniköst.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira