Miðvikudagur 6. desember, 2023
1.1 C
Reykjavik

Náttúruauðlindir við Mývatn – himneskt að njóta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jarðböðin við Mývatn eru einstök náttúruauðlind sem laða að og útsýnið er stórfenglegt. Jarðböðin eru staðsett í Jarðbaðshólum, um fjóra kílómetra frá Reykjahlíð. Þar hafa verið stunduð heit jarðböð til heilsubótar allt frá landnámsöld og æ fleiri sækja í þessa náttúruparadís. Við hjá Mannlífi fórum og heimsóttum Jarðböðin og hittum Heiðu Halldórsdóttur markaðstjóra og svöluðum forvitni okkar um það sem í boði er.

Heiða Halldórsdóttir.

Getur þú sagt okkur aðeins frá upphafi Jarðbaðanna og hvert markmið ykkar er með þeim? „Jarðböðin voru formlega opnuð 30. júní 2004 og eru opin allt árið. Útsýnið úr böðunum er einstakt og við leggjum mikla áherslu á að gestir okkar upplifi slökun og vellíðan þegar þeir koma til okkar í Jarðböðin. Við leggjum einnig mikla áherslu á gufuböðin okkar en þau eru byggð ofan á sprungu þar sem náttúruleg gufa stígur upp úr jörðinni. Hvergi annars staðar á Íslandi stígur hrein vatnsgufa, laus við brennistein og aðra mengun, upp úr jörðinni. Við stjórnum því ekki hitanum í gufubaðinu, náttúran sér alfarið um það.“

Hefur reksturinn tekið miklum breytingum á síðustu árum? „Jarðböðin hafa tekið miklum breytingum. Við höfum verið að stækka við okkur hægt og rólega þar sem gestum hefur fjölgað talsvert á síðustu árum. Við höfum einnig bætt veitingaaðstöðu okkar og stækkað salinn í takt við aukningu gesta.“

Aðstaðan hjá ykkur er hin glæsilegasta og margt í boði. Geturðu sagt okkur aðeins frá aðstöðunni og því sem í boði er? „Gestir okkar hafa aðgang að öllu baðsvæðinu en það samanstendur af heitu lóni, heitum potti og gufuböðum. Vatnið í lóninu og pottinum er jarðvarmavatn sem inniheldur mikið magn jarðefna, er basískt og hentar því vel til böðunar. Gufuböðin eru tvö og þar geta fjörutíu gestir verið í einu. Gestum er frjálst að dvelja eins lengi og þeir vilja hjá okkur og margir nýta sér það að fá sér léttar veitingar í Kaffi Kviku á milli þess sem það fer í bað eða gufu.“

Eru Íslendingar, jafnt og erlendir ferðamenn, duglegir að koma? „Við fáum bæði til okkar Íslendinga og erlenda ferðamenn en þeir erlendu eru í miklum meirihluta. Við fáum einnig margt heimafólk sem er okkur mjög mikilvægt og til dæmis eiga margir hér í sveitinni og nágrenni árskort í Jarðböðin.“

Lónið er einstaklega fagurt og dásamlegt að njóta þar. Er boðið upp á veitingar þar? „Við erum með lítið kaffihús hjá okkur sem heitir Kaffi Kvika. Þar er hægt að njóta léttra veitinga í fallegu umhverfi. Við bjóðum upp á súpu og salat, samlokur, boost og fleira. Við seljum einnig léttvín og bjór og er vinsælt að taka með sér drykk ofan í böðin.“

Bjóðið þið hópum, stórum sem smáum, að koma og njóta bæði í dekur og veitingar? „Það eru allir velkomnir til okkar og hafa hópar verið duglegir að koma jafnt sumar sem vetur. Næg gisting er í boði á svæðinu og það er vinsælt hjá starfsmannahópum að koma í sveitina og njóta Jarðbaðanna og alls þess sem þetta fallega svæði hefur upp á að bjóða.“

- Auglýsing -

Einnig er boðið upp á vinsæla viðburði í Jarðböðunum.  „Við höfum verið dugleg að bjóða upp á viðburði sem gestir geta notið á meðan þeir baða sig, en Emmsjé Gauti hefur komið tvisvar sinnum og spilað hjá okkur. Daði Freyr kom í sumar og fleiri listamenn hafa haldið tónleika hér í Jarðböðunum. Næsti viðburður er Jólasveinabaðið sem verður þann 8. desember en þá koma jólasveinarnir úr Dimmuborgum í heimsókn og fara í sitt árlega bað. Við hvetjum alla til að koma og sjá þá bræður fara á kostum í jólabaðinu,“ segir Heiða og brosir.

„Við höfum verið dugleg að bjóða upp á viðburði sem gestir geta notið á meðan þeir baða sig.“

Besti tíminn til að fara í Jarðböðin? „Á sumrin er magnað að upplifa miðnætursólina í böðunum en minn uppáhaldstími er á veturna. Það er einstakt að vera hér yfir hávetur þegar það er mikið frost, snjór allt um kring og sjá norðurljósin og stjörnurnar dansandi á himninum.“

Í samstarfi við Jarðböðin við Mývatn
Myndir / Úr safni Jarðbaðanna við Mývatn

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -