Gríðarlegt tjón varð hjá garðyrkjustöðinni Jarðarberjalandi í Reykholti í Biskupstungum í aftakaveðrinu í fyrrakvöld. Gróðurhúsið er ónýtt og uppskera ársins einnig.

Sunnlenska.is sagði frá þessu en þar kemur fram að stórt gróðurhús fyrirtækisins hafi gefið sig í illviðrinu um klukkan 21 í gærkvöldi. Ljóst er að tjónið er mjög mikið enda gróðurhúsið algjörlega ónýtt og öll uppskeran með.

Í samtali við Mannlíf, sagði Hólmfríður Geirsdóttir, eigandi Jarðarberjalands, er ekki búið að meta tjónið í aurum talið. „Það er ekki búið að meta þetta þannig lagað í aurum talið en allt starfsfólkið missir vinnuna.“

Hólmfríður ætlar ekki að gefast upp heldur byggja allt upp aftur. En hvenær mun starfsemin halda áfram? „Hér verða engin ber tínd fyrr en í fyrsta lagi í apríl á næsta ári, mundi ég segja.“
Mannlíf fékk góðfúslegt leyfi frá Sigurjóni Sæland, nágranna Hólmfríðar, til að birta ljósmyndirnar sem hann tók af tjóninu.