Brasilíumaðurinn Fernando Costa hefur verið ráðinn forstjóri Alcoa Fjarðaáls. Hann hefur starfað innan Alcoa, bæði í Braselíu og í Bandaríkjunum í hátt í 20 ár.
Austurfrétt segir frá því að Fernando sé þegar tekinn til starfa og að hann hafi verið kynntur fyrir starfsfólki álversins á Reyðarfirði. Í tilkynningu frá Alcoa kemur fram að hann hafi sagt á starfsmannafundi að fjölskylda hans hlakki til að takast á við þær miklu breytingar og tækifæri sem flutningur til Íslands feli í sér. Þá kemur einnig fram að Fernando segist vilja vera hvetjandi leiðtogi sem geri öðrum mögulegt að gera sitt besta.
Tekur hann við af Smára Kristinssyni, sem tekur aftur við stöðu framkvæmdarstjóra framleiðslu en hann tók við forstjórastarfinu tímabundið er Einar Þorsteinsson lét af störfum snemma á árinu.
Það var árið 2002 sem Fernando hóf störf við Alumar álverið í Brasilíu en þar stýrði hann meðal annars ferlaþróun og rekstri kerskála. Árið 2015 flutti hann svo til Bandaríkjanna þar sem hann hefur gengt ýmstum störfum en síðast var hann svæðisstjóri viðskiptakerfis Alcoa í Norður-Ameríku, með aðsetur í Pittsburgh.
Fram kemur í frétt Austurfréttar að Fernando sé með MBA gráðu frá Fundacao Getulio Vargas í Brasilíu og Executive MBA gráðu frá Háskólanum í Pittsburgh.
Mun hann setjast að á Reyðarfirði ásamt eiginkonu sinni og tveimur sonum en dóttir þeirra verður áfram í Bandaríkjunum en þar stundar hún háskólanám.