Fimmtudagur 25. maí, 2023
9.1 C
Reykjavik

Pólar Hestar -draumur og dýrðlegheit í hreinu sveitalofti

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Pólar Hestar er fjölskyldufyrirtæki á Grýtubakka við Eyjafjörð, rekið af hjónunum Stebba, Júllu og syni þeirra Símoni. Þar er boðið upp á bæði stuttar og langar hestaferðir sem henta allri fjölskyldunni.
Á Grýtubakka er ekki einungis að finna hesta, heldur einnig kindur, hænur, hunda, ketti og kanínur. Þar má líka finna kaffihús, en kaffið rennur ljúft niður í fallegri náttúrunni. Dásamlegt útsýnið lætur mann finna fyrir smæð sinni þar sem fjallgarðurinn umlykur og minnir helst á ævintýramynd úr sjónvarpi.

Hér má sjá Símon gefa Binna góð ráð varðandi reiðmennsku.

Símon mun hér eftir vera kallaður ljúflingurinn, því ljúfari manneskju hef ég ekki hitt. Hann er þolinmóður þegar hann kennir fólki hvernig skuli sitja hest og svo skín samkenndin úr öllu hans fasi þegar hann verður var við ótta hjá einhverju okkar. Þá má heyra hann segja með sinni blíðu rödd „engar áhyggjur“ og „ég er hérna ef þig vantar eitthvað“.
Símon býr í Reykjavík og lærir rússnesku. Hann segist vera heppinn að fá það besta af báðum stöðum; skemmtunina af því að búa í höfuðborginni og gleðina við vinnuna að taka á móti ferðafólki í ferðaþjónustunni heima hjá Pólar Hestum

Það er greinileg nánd sem finnst vel í öllu sem fjölskyldan gerir. Þau eru fyrst og fremst þau sjálf og elska að njóta þeirra forréttinda að fá að leyfa okkur að taka þátt í þeirra ástríðu.
Sjálf fékk ég á dögunum að njóta þess í eigin persónu að fara með þeim í reiðtúr og í kjölfarið bókaði ég þriggja daga ferð fyrir stórfjölskylduna eftir þessa mögnuðu upplifun.

Hjá Pólar Hestum er passað vel upp á alla.

Vill hvergi annarsstaðar vera

Stebbi flutti með foreldrum sínum þegar hann var sex ára pjakkur að Grýtubakka 2, þar sem hann býr enn og lýsir því sem algjöru ævintýri. Hann segist hvergi annarstaðar vilja vera. Hér ól hann upp son sinn, hann þekkir hverja þúfu og hvern hól. „Hér er heima og hvergi annarstaðar.“
Hann og Júlla sýna þess merki að ástin minnkar ekki með árunum, heldur bara eykst. Þau eru stolt af því sem þau hafa byggt upp saman og það glyttir í stríðni á milli þeirra eins og þau séu nýbyrjuð saman og með fiðrildin í maganum.

Þau hjónin taka vel á móti þeim sem heimsækja þau og þau eru svo sannarlega höfðingjar heim að sækja. Eftir skemmtilega reiðtúrinn okkar komum við inn í hús og þar beið okkar rjúkandi kaffi og heimagerðar kökur. Hér er metnaður lagður í allt og allt gert af natni og nákvæmni.

- Auglýsing -

Pólarhestar er staður sem allir verða að heimsækja allavega einu sinni á ári, því hér er eitthvað fyrir alla og vinalegt viðmótið lætur manni líða eins og maður sé í sinni heimasveit.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -