2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Lækningamáttur garða

Gróður hefur lækningamátt. Nýjar vísindarannsóknir sýna fram á að vera innan um jurtir, ræktun og annað nostur í kringum blóm hefur örvandi og líknandi áhrif á bæði andlega og líkamlega veikt fólk.

Margir ferðalangar kjósa að heimsækja almenningsgarða hvar sem þeir eru staddir í heiminum því bæði veita þeir kærkomna hvíld frá ysi og þys borganna og endurspegla menningu hvers lands. Úrval blóma, skipulag beða og þau listaverk sem valin eru í garðinn segja mjög mikið um sögu þjóðarinnar og tengsl hennar við umheiminn. Í Bretlandi má víða sjá í almenningsgörðum þróun breska heimsveldisins og jafnframt hnignun þess. Garðar Versala segja mikilvæga sögu franska konungdæmisins og aðdraganda byltingarinnar og í Bandaríkjunum sést ný og framsækin þjóð skapa sér hvíldarstað í stórum og vel unnum görðum.

Víða notfæra læknar sér þá kyrrð og gleði sem gróðurinn veitir. Breski taugalæknirinn Oliver Sacks var þekktur fyrir frumlegar hugmyndir í vinnu með langt leidda heilabilaða. Hann er fyrirmyndin að lækninum í kvikmyndinni Awakenings sem margir þekkja. Hann nefndi oft í skrifum sínum hvernig hann nýtti sér garða bæði fyrir sjálfan sig þegar hann fann fyrir ritstíflu en einnig fyrir sjúklinga sína. Hann sagði að upplifunin bæði róaði og endurnærði og færði fólki aukna orku og kraft. Sacks hefur notað garða til að draga úr einkennum Parkinsons-, Tourette- og Alzheimers-sjúkdóma. Sænskar rannsóknir styðja þessa tilfinningu hans því þar í landi er víða farið að bjóða andlega veiku fólki og heilabiluðu að vinna í gróðurhúsum. Að gróðursetja og hlúa að jurtum er gefandi vegna þess að árangur sést almennt fljótt. Það hefur mjög örvandi og hvetjandi áhrif á manneskjur og getur haft jákvæð áhrif þegar lyfta þarf þeim upp úr geðlægð eða örva minni og meðvitund um umhverfið. Ein merkilegasta niðurstaða þessara rannsókna er að þótt fólk sé langt leitt af Alzheimers-sjúkdómnum plantar það jurtum rétt, enginn sjúklingur reyndi nokkru sinni að stinga jurtinni á hvolf í pottinn. Þetta segir margt um tengsl fólks við gróður og tilfinningu þess fyrir honum.

Hér gengu andans menn

AUGLÝSING


Að ganga um fræga garða er auk þess gefandi því hægt er að ímynda sér að verið sé að feta í fótspor andans manna er uppi voru á undan; landkönnuða er færðu Bretlandi m.a. ótal tegundir burkna í Kew-garðinum, orkideur úr regnskóginum og hina risastóru Amazon-vatnalilju. Í Oxford Botanic Garden er líklegt að Lewis Carroll hafi örvað ímyndunaraflið áður en hann skrifaði bækurnar um Lísu í Undralandi. Hortus Botanicus í Amsterdam var gerður á sautjándu öld og endurspeglar hugsunarhátt manna í þá daga og hefur kannski átt þátt í efla sköpunargáfu Rembrandts. Grasagarður Padúa-borgar er enn eldri eða frá því um 1540. Í honum fengu Evrópubúar fyrst að líta austurlenskar jurtir en þær bar Marco Polo með sér til Ítalíu og síðar amerískar plöntur sem sporgöngumenn Kólumbusar komu með heim eftir siglingar til Ameríku.

Það er eitthvað við skipulögð beð, beinar raðir runna og fallega trjálundi sem gefur þá tilfinningu að hægt sé að koma böndum á óreiðuna. Ná að hemja náttúruna og laga hana að fegurðarskyni okkar án þess að eyðileggja hana eða tortíma. Náttúran er hluti af okkur og enginn maður getur slitið sig gersamlega úr tengslum við hana. Þetta sést ekki hvað síst á því hversu lengi heilabilaðir geta notið þess sem hún hefur upp á að bjóða. Nú er vor í lofti og garðeigendur teknir til við að klippa runna og hreinsa beð. Þeir sem ekki eiga garða geta notið þess að heimsækja og dvelja í nokkrum af mörgum almenningsgörðum Íslands og gott markmið fyrir sumarið er að heimsækja þá sem flesta.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum