2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Manninum mínum fannst ég löt

Lífsreynslusaga úr Vikunni.

Í tuttugu og tvö ár var ég í hjónabandi með manni sem fannst ég lítið leggja til sameiginlegs heimilis okkar á öllum sviðum. Hann lét mig finna þetta leynt og ljóst. Mér leið því stöðugt illa. Að lokum gafst ég upp og nýlega hitti ég mann sem hefur sýnt mér hve rangt mat míns fyrrverandi var.

Við Kalli hittumst þegar ég var nítján ára og ófrísk eftir fyrsta kærasta minn. Sá lét sig hverfa um leið og hann komst að því að hann ætti von á barni en Kalli sagðist vilja bæði mig og barnið. Ég var honum óskaplega þakklát. Foreldrar mínir eru gott fólk en höfðu alla tíð úr litlu að spila svo ég vissi að ég yrði að standa á eigin fótum. Kalli var töluvert eldri en ég og átti litla íbúð. Ég flutti þangað mjög fljótlega og reyndi að taka eins marga kúrsa í skólanum og ég mögulega gat til að klára stúdentsprófið um vorið. Ég hafði líka unnið við að skúra skrifstofuhúsnæði og hélt því áfram.

Ég notaði launin mín til að kaupa í matinn handa okkur og reyndi einnig að spara eins og ég gat fyrir því sem ég vissi að ég yrði að kaupa þegar barnið fæddist. Ég missti fóstrið eftir rúmlega fjögurra mánaða meðgöngu og þá var Kalli mér óskaplega góður. Hann sat með mér þegar ég gat ekki sofið og huggaði mig þegar ég fékk grátköst upp úr þurru. Ég var lengi að komast yfir sorgina því ég hafði virkilega hlakkað til að eignast þetta barn. Mér tókst samt að klára stúdentsprófið um vorið og var virkilega hreykin af sjálfri mér.

Aftur í nám

AUGLÝSING


Skömmu síðar fékk ég vinnu á skrifstofu. Kalli var iðnmenntaður og hafði mun hærri tekjur en ég. Fljótlega fórum við að ræða um að kaupa stærri íbúð saman og þá vildi Kalli gera kaupmála. Hann benti á að ég ætti ekki neitt en hann stóran hlut í þessari litlu íbúð og að hans laun myndu einnig að stórum hluta fjármagna kaupin. Ég samþykkti að við gerðum kaupmála og þar var samið um að hann ætti 65% í íbúðinni. Ég skrifaði undir og fannst það bara reglulega sanngjarnt.

Eftir að við fluttum fann ég oft fyrir því að Kalla fannst ég ekki gera nóg inni á heimilinu. Ég var byrjuð aftur í skóla og ætlaði að ná mér í framhaldsmenntun en vann áfram á mínum gamla vinnustað með náminu. Ef hann sá einhvers staðar drasl og rusl þegar hann kom heim kvartaði hann. Eitt sinn gekk hann meira að segja svo langt að halda því fram að ég þrifi aldrei í kringum mig heldur biði eftir að hann kæmi og ætlaðist til að hann þrifi. Ég benti honum á að ég væri í fullu námi og vinnu og gæti þess vegna ekki alltaf sinnt öllu. Hann gaf ekkert út á það og hætti ekki að tuða.

Þegar kom að prófum um vorið var ég mjög kvíðin, enda hafði ég ekki getað sinnt náminu eins vel og ég hefði viljað um veturinn. Ég sat því löngum stundum á bókasafninu og kom heim seint á kvöldin. Það þoldi Kalli alls ekki og var rosalega fúll yfir að ég væri ekki búin að kaupa inn og elda þegar hann kæmi þreyttur úr vinnu. Ég bað hann að sýna þessu þolinmæði þar til prófum lyki. Þá myndi ég koma til baka fílelfd og sinna matseld og öðru eins og áður. Hann hreytti þá í mig að ef allt ætti að vera eins og áður væri ekki við miklu að búast.

Grét ein inni í geymslu

Mér brá illa þegar hann sagði þetta og snerist á hæli og gekk út úr íbúðinni. Ég vissi svo sem ekki hvert ég ætti að fara og endaði á að fara inn í geymslu í kjallaranum og leyfði mér að gráta þar. Um miðnætti skreiddist ég aftur inn og bjó um mig á sófanum í stofunni. Næstu daga forðaðist ég Kalla og hann leit varla á mig ef við mættumst á morgnana. Til allrar lukku gekk mér vel í prófunum og strax og þeim lauk byrjaði ég að vinna fulla vinnu. Svona gekk þetta öll árin þrjú sem ég var í skólanum og mér fannst ég alltaf þurfa að verja þá ákvörðun að fara í nám. Kalli kvartaði undan að það væri dýrt, tæki allan minn tíma og hann þyrfti alltaf að sjá um allt. Samt fannst honum hann styðja mig með ráðum og dáð. Einhverju sinni sagði mamma hans í veislu að sér fyndist ég óskaplega dugleg að vera í námi og vinna svona mikið með. Þá sagði Kalli: „Já, hún fær líka góðan stuðning.“ Mamma hans sagðist glöð að heyra að hann stæði með sinni konu.

Eftir útskrift fékk ég góða vinnu í mínu fagi og var alsæl. Nú hafði ég betri laun en áður þótt Kalli væri vissulega með hærri tekjur gat ég lagt meira til heimilisins. Það varð þó ekki til að draga úr athugasemdum Kalla. Í hvert sinn sem ég keypti einhvern hlut til heimilisins spurði hann hvaðan peningarnir kæmu. Þegar ég svaraði að ég hefði lagt fyrir af laununum mínum spurði hann hvort ekki hefði verið skynsamlegra að verja sparnaðnum í eitthvað annað en þessa vitleysu. Í hvert sinn sem ég keypti mér flík eða fylgihlut kostaði það rifrildi. Honum fannst allt dýrt og margspurði hvort ég væri með hærri laun en ég segði honum fyrst ég gæti alltaf verið að eyða í vitleysu. Eitt sinn tilkynnti hann mér upp úr þurru að honum fyndist ég líta svo á að ég ætti mín laun og gæti gert við þau það sem ég vildi en öll hans laun færu í rekstur heimilisins og hann ætti aldrei neitt eftir.

Ég benti honum á að hann stundaði laxveiði, golf og líkamsrækt og í þessi áhugamál færu peningar. Hann taldi þær upphæðir smávægilegar miðað við allt sem ég eyddi í tóman hégóma. Svona liðu árin og við Kalli eignuðumst tvær dætur. Ég sá ævinlega um að kaupa föt á þær, borga fyrir tómstundir og sjá til þess að þær mættu með gjafir í afmælisveislur. Við keyptum okkur raðhús og fluttum þangað og um tíma gekk allt vel. Ég var farin að venjast tuði og nuddi Kalla yfir leti minni við hússtörfin og eyðslusemi og lét það oft eins og vind um eyru þjóta.

Svo kom hrunið og Kalli missti vinnuna en ég ekki. Um tíma lifðum við af mínum launum og atvinnuleysisbótum hans og ég vonaði að það myndi breyta viðhorfum hans til mín og hann myndi meta meira það sem ég lagði til. Kvöld nokkurt kom ég seint heim, hafði unnið yfirvinnu og var mjög þreytt. Kalli lá í sófanum og horfði á sjónvarpið og ég spurði hvort eitthvað væri eftir af kvöldmatnum. Hann leit upp og sagðist ekki hafa eldað. Stelpurnar væru ekki heima og hann hefði bara tínt eitthvað til úr ísskápnum. Ég sagðist þá ætla að gera það sama. Ég hafði varla sleppt orðinu þegar maðurinn minn leit upp og hreytti út úr sér: „Ætli þú sért ekki búin að éta fyrir fleiri þúsundir í dag. Alltaf úti að borða í hádeginu.“ Ég gersamlega missti alla stjórn á mér og öll reiðin og sárindin vegna allra hans auðmýkjandi athugasemda kom vellandi út og ég heimtaði skilnað.

Ég stóð við þá ákvörðun þótt hún hafi verið tekin í reiði og við tók löng og leiðinleg barátta. Kalli dró fram gamla kaupmálann og ætlaði að halda fram að hann ætti 65% í húsinu okkar. Ég gaf ekkert eftir og að lokum var úrskurðað í því máli mér í vil. Dómarinn tók meira að segja fram að vinnuframlag mitt til heimilisins hefði verið mun meira en Kalla þótt hann hefði hærri tekjur. Ég fór því út úr hjónabandinu með helmingaskipti á eignum.

Nokkrum árum seinna kynntist ég svo Guðjóni, yndislegum manni sem ber mikla virðingu fyrir mér. Hann metur allt sem ég geri en hefur einnig skilning á að ég geti verið þreytt og illa fyrirkölluð. Þá tekur hann meira á sig og segir hlæjandi að ég geri það sama þegar hann þurfi á að halda. Kalli hefur hins vegar aldrei getað skilið hvers vegna ég vildi skilja. Hann talar enn um það við sameiginlega kunningja að hann hafi lagt allt í okkar samband og stutt mig með ráðum og dáð og ég hefði líklega aldrei lokið námi ef hann hefði ekki verið til staðar fyrir mig. Mér er sama um allt hans raus og bara glöð yfir að ég skyldi hafa hugrekki til að fara.

 

 

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum