2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Miðflokkurinn nær vopnum sínum aftur

Þjóðlegar áherslur virðast eiga upp á pallborðið.

Eitt þeirra mörgu umræðuefna sem sexmenningarnir ræddu á Klaustri í nóvember var hversu móttækilegir kjósendur í Suðurkjördæmi væru fyrir kynþáttahyggju og útlendingaandúð. Ólafur Ísleifsson sagði þar að það væri „augljós markaður fyrir þessi sjónarmið í Suðurkjördæmi“. Það sæist meðal annars á því að Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, hefði gengið vel í prófkjörum þar þrátt fyrir að hann hefði verið að skrifa það sem „andstæðingar hans kalla rasistagreinar“.

Í mars hafa þingmenn Miðflokksins prófað sig áfram á þessum markaði. Gunnar Bragi mærði til að mynda framgöngu lögreglunnar á mótmælum sem áttu sér stað á Austurvelli í mars þar sem hún sprautaði piparúða á mótmælandi hælisleitendur. Sú yfirlýsing féll í mjög góðan jarðveg í lokuðum hópum á Facebook þar sem útlendingaandúð er allsráðandi. Ólafur Ísleifsson gagnrýndi svo þjóðkirkjuna fyrir það að hinir mótmælandi hælisleitendur hefðu fengið að pissa í dómkirkju landsins. Sá málflutningur mæltist líka vel fyrir í áðurnefndum hópum en var gagnrýndur harkalega af þingmönnum annarra flokka.

„Miðflokkurinn vill standa vörð um menningu og arfleifð þjóðarinnar“

Sigmundur Davíð sjálfur hefur farið mikinn síðustu vikur. Hann sagði í viðtali við Útvarp Sögu fyrir rúmum mánuði að ýmislegt benti til þess að djúpríki stjórni á Íslandi bakvið tjöldin. Embættismannakerfið hefði tekið völdin af ráðherrum og nefndi aflandskrónufrumvarpið sem dæmi um það.

Á vetrarfundi Miðflokksins um síðustu helgi var svo samþykkt stjórnmálaályktun sem gaf mjög skýrt til kynna hvert flokkurinn ætlar að stefna í sinni pólitík. Þar kom fram að flokkurinn vilji þjóðlegar áherslur og að hann hafni með öllu þriðja orkupakkanum. Að horfið verði frá innflutningi á ófrosnu kjöti og eggjum, sem dómstólar hafa þegar sagt að sé brot á alþjóðasamningum. Að afnema eigi verðtryggingu húsnæðislána án þess að tilgreint sé hvernig eigi að gera það. „Miðflokkurinn vill standa vörð um menningu og arfleifð þjóðarinnar,“ stóð neðst í ályktuninni.

AUGLÝSING


Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni á fundinum að þriðji orkupakkinn væri „stórhættulegur“ og hann sé eitt „tannhjól kerfisins“ sem Miðflokkurinn vilji berjast gegn. Flokkurinn hafi þá stefnu að ráða eigin örlögum en ekki láta það í hendur andlitslausra stofnanna úti í heimi.

Fyrir liggur að þessi stefna á sér stuðningsmenn hérlendis. Þrátt fyrir Panamaskjölin, allar samsæriskenningarnar og Klausturmálið þá er Miðflokkurinn að ná vopnum sínum að nýju samkvæmt könnunum. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup mældist fylgi hans níu prósent, eða jafnmikið og fylgi Framsóknarflokksins.

Á vef Kjarnans er hægt að lesa ítarlegri fréttaskýringu um málið og einnig í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum