2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Við getum ekki litið undan

Leiðari úr 40. tölublaði Mannlífs

Velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur sent ríkisstjórnum Norðurlanda tilmæli þess efnis að þær hafi með sér „samstarf um að fyrirbyggja og kveða niður heiðurstengda kúgun“, en það hugtak vísar til þess þegar fólk beitir ástvini sína þvingunum, kúgun eða jafnvel ofbeldi í þeim tilgangi að knýja það til að lúta vilja fjölskyldunnar og verja þannig æru hennar. Telur nefndin að meðal þess sem einna helst ógni einstaklingsfrelsi á Norðurlöndum sé „sá vandi að fólki er stundum meinað að taka sjálft ákvarðanir um líf sitt og framtíð“ svo vitnað sé beint í tilmælin.

Það er ekkert af ástæðulausu sem nefndin vekur athygli á þessu máli. Heiðurstengd átök eru þekkt á Norðurlöndum og birtingarmyndir þeirra margvíslegar. Nefna má þvinguð hjónabönd þar sem fólk, oftast konur, hefur ekkert val um hverjum það giftist eða hvort það gengur í hjónaband yfirleitt heldur er neytt til þess af fjölskyldunni til að halda uppi heiðri hennar. Ein útgáfa slíks ráðahags eru barnahjónabönd, sem eru m.a. til umfjöllunar í forsíðuviðtali Mannlífs. Þá eru börn, yfirleitt barnungar stúlkur, neydd í hjónaband og stúlkurnar oft með mönnum sem eru töluvert eldri en þær sjálfar og löngu áður en þær eru andlega og líkamlega reiðubúnar til þess. Í sumum tilfellum eru bæði brúðgumi og brúður á barnsaldri eða vart af honum. Í alþjóðlegum samanburði eru slík hjónabönd reyndar fátíð þegar um ræðir Norðurlandabúa, en rannsóknir sýna að árlega eru 12 milljónir stúlkna þvingaðar í slík hjónabönd víða um heim, samkvæmt tölum frá UN Women. Sem þýðir að um 23 barnungar stúlkur eru þvingaðar í hjónaband á hverri mínútu.

„MÁL AF ÞVÍ TAGI SEM HIN NORÐURLÖNDIN GLÍMA VIÐ ERU ÞEGAR BYRJUÐ AÐ DÚKKA UPP HÉRLENDIS.“

Fyrir tæplega ári stóð Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Kvennaathvarfið fyrir ráðstefnu þar sem athygli var vakin á því. Þar kom fram að sérfræðingar teldu að málum sem tengjast heiðurstengdum átökum væri farið að fjölga hérlendis. Það er því ekki hægt að telja sér trú um að þetta sé eitthvað sem ekki komi okkur við.

AUGLÝSING


Sérfræðingunum á fyrrnefndri ráðstefnu bar saman um mikilvægi þess að hér yrði komið á fót sérstöku fagteymi þvert á stofnanir, eins og lögregluna, Útlendingastofnun, félagsmálaráðaneytið og fleiri, til að taka á slíkum málum. Þolendur yrðu að fá upplýsingar og hjálp og að á móti þeim tækju aðilar sem búa yfir faglegri þekkingu. Það væri lífsspursmál. Skoðanir sérfræðingana ríma því vel við tilmælin fyrrefndu sem velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur sent ríkisstjórnum Norðurlanda. Formaður nefndarinnar, Bente Stein Mathiesen, segir mikilvægt „að stjórnvöld hefji snemma að beita árangursríkum fyrirbyggjandi aðgerðum og að besta hjálp sem hugsast getur sé tiltæk þegar á þarf að halda.“

Alþjóðasamfélagið hefur lofað að framfylgja markmiðum Sameinuðu þjóðanna um að útrýma snemmbúnum hjónaböndum og ýmsum öðrum birtingarmyndum heiðurstengdrar kúgunar fyrir árið 2030. Ísland þar á meðal. Enn bólar þó ekkert á fagteyminu sem kallað var eftir á ráðstefnu Kvennathvarfsins og velferðasviðs borgarinnar fyrir ári síðan. Áhugavert verður þó að sjá hvernig ríkisstjórnin, sem leggur áherslu á mannréttindamál í eigin stjórnarsáttmála, bregst við tilmælum nefndarinnar.

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum