Fimmtudagur 25. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Ber ábyrgð á einu stærsta tískuslysi Íslandssögunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Björn Guðmundsson, leikstjóri og handritshöfundur, hefur vakið athygli fyrir skemmtilegar myndir á borð við Ömmu Hófí og Astrópíu og fetar óhikað nýjar brautir í vali á verkefnum. Enda segist hann sjálfur vera óhræddur við að taka áhættur og standist sjaldnast góðar áskoranir þótt það hafi stundum komið honum í vandræði. Gunnar Björn er undir smásjánni að þessu sinni.

Fullt nafn: Gunnar Björn Guðmundsson
Aldur: 48 ára. Fæddur 22. janúar 1972
Starfsheiti: Leikstjóri og handritshöfundur

Hvað hefurðu verið að bralla fram til þessa: „Við frumsýndum Kvikmyndina Ömmu Hófí 10. júli. Í kjölfarið fór ég með fjölskylduninni í sumarfrí. Við fórum út og suður, tókum svona hátíðarútgáfu af hringnum. Ferðuðumst fyrst vestur, fórum síðan suðurleiðina til Akureyrar og þaðan heim í Hafnarfjörðinn.“

Áhugamál: „Vinnan mín er það sem ég hef mest gaman af. Ég nýt þess að horfa á kvikmyndir og fara í leikhús. Ég hef einstaklega gaman af því að stúdera kvikmyndir og skoða hvernig þær eru settar saman. Af svona hefðbundnum áhugamálum þá eiga sennilega líkamsrækt, golf, hlaup og ferðalög vinninginn.“

Á döfinni: „Ég hef vanalega leikstýrt svona tveimur til þremur leikritum á ári en nú er allt í óvissu út af COVID-19. Ég er því að einbeita mér að klára handrit sem ég er búinn að vinna að í nokkur ár og byggir á bók Þórarins Leifssonar „Maðurinn sem hataði börn“. Ég var að enda við að fá þriðja handritsstyrk frá Kvikmyndamiðstöð og við erum gagna frá nýjustu útgáfu að handritinu og undirbúa okkur fyrir framleiðslu.“

„Ég hef alltaf verið fljótur að stökkva á tækifæri. Læt bara vaða og er sjaldan með varaplan.“

Hver var mesta áskorunin við gerð Ömmu Hófí? „Tímaskortur og litlir peningar. Það er vandamál sem einkennir reyndar alla kvikmyndagerð, sama hvað myndin kostar, en við gerð Ömmu Hófíar höfðum við sérstaklega lítinn tíma og úr einstaklega litlum peningum að spila. Þess vegna skipulögum við okkur gríðalega vel og nýttum hverja mínútu og hverja krónu einstaklega vel og það er rétt að taka fram að vinnan sem fór í gerð Ömmu Hófíar var mjög ánægjuleg og skemmtileg því allir voru svo samstilltir.“

- Auglýsing -

Talandi um það, hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið sem leikstjóri og í lífinu yfirleitt? „Ég er yfirleitt óhræddur við að taka áhættur. Ég tók til dæmis heilmikinn sjens þegar ég hætti í Listaháskólanum til að gera kvikmyndina Astrópíu. Ég var búinn með hálft ár í námi sem hét Fræði og framkvæmd en kallast núna Sviðslistabraut, alveg frábært nám en við fengum styrk til að gera Astrópíu og það var nokkuð sem ég gat ekki hafnað. Ég hef alltaf verið fljótur að stökkva á tækifæri. Læt bara vaða og er sjaldan með varaplan.“

Hvað óttastu mest? „Að valda vonbrigðum, sérstaklega fólkinu mínu. Verst þætti mér ef fjölskyldan þyrfti að sammast sín fyrir mig. Já og svo er ég skíthræddur við allar köngulær, alveg niður í minnstu tegundir.“

Býrðu yfir leyndum hæfileika? „Já! Ég get lengt á mér hendina. Kannski flokkast þetta ekki beint sem leyndur hæfileiki þar sem allir sem ég þekki og ömmur þeirra hafa séð þetta trix. En þetta er samt mjög fyndið!“

- Auglýsing -

Hver væri titillinn á ævisögunni þinni? „Ég hugsa að hann yrði „Ég sé ekki hvað ætti að klikka!“ eða jafn vel „Hey á ég að lengja á mér hendina?“

Hver myndi leika þig í bíómyndinni? „Ég hef heyrt að ég sé líkur Ryan Gossling þótt ég sjái nú sjálfur ekki líkindin. Sennilega væri best að fá Hjálmar Hjálmarsson til að leika mig. Hann getur breytt sér í hvern sem er. Ég talaði nú ekki um ef Ragna Fossberg sæi um gervið. Þá myndu allir halda að ég væri að leika sjálfan mig!“

Hvaða kvikmynd hefðirðu viljað leikstýra? „Það eru svo margar myndir sem ég hefði stoltur viljað leikstýra. Underground eftir Emir Kusturica og Amelie og Delicatessen, tvær síðarnefndu eru í mjög miklu uppáhaldi. Svo held ég mikið upp á allt sem kemur úr smiðju Wes Anderson og Terry Gilliam.“

Gunnar leikstýrir Ömmu Hófí sem nú er sýnd í bío.

Hvaða kvikmynd eða leikverk dreymir þig um að leikstýra? „Það er ótrúlegt að segja frá því en Amma Hófi eru búin að vera minn draumur í ansi mörg ár. Ég fékk hugmyndina sennilega einhvern tímann í kringum 1990 og mig hefur dreymt um að gera hana síðan þá. Árið 2012 skrifaði ég fyrsta handritið og hef verið að vinna í því síðan þá. Grunnhugmyndin hefur þó alltaf verið sú sama; sagan hverfist um eldra fólk sem rænir banka. Nú er draumurinn að gera kvikmynd upp úr bókinni Maðurinn sem hataði börn. Planið er að gera skemmtilega mynd fyrir unglinga og bara alla sem hafa gaman af góðum ævintýra-myndum með spennuívafi.“

Hvaða þættir eru í uppáhaldi hjá þér þessa stundina? „Ég var að klára Ozark og Marcella á Netflix. Síðan var ég að enda við að horfa á Borgarstjórann eftir Jón Gnarr. Ég missti af þeim þegar þeir voru sýndir hér um árið, en þeir eru frábærir og ég Pétur Jóhann brillerar í þeim. Mæli heilshugar með þessum þáttum.“

Bestu og verstu íslensku kvikmyndir allra tíma? „Þetta er svolítið snúin spurning. Sódóma Reykjavík er í miklu uppáhaldi hjá mér og mér finnst Hrútar frábær en þær myndir sem ég hef horft oftast á fyrir utan Sódómu eru Með allt á hreinu, Nýtt líf og Stella í orlofi. Annars er ekki hægt að segja að einhver mynd sé verst eða lélegust. Það er ótrúlegt afrek að framleiða kvikmynd og koma henni í bíó, þannig að ég segi pass við þessari spurningu.“

En hvaða kvikmynd þótt þér skemmtilegast að gera? „Ömmu Hófí, það var ótrúlega skemmtilegt, enda er þetta kvikmynd sem er búin að vera í pípunum svo lengi og henni hefur verið beðið eftir með mikilli eftirvæntingu. Það skemmtilegasta í því ferli var svo að fá að forsýna hana í Bæjarbíói, kvikmyndahúsi sem stendur nærri hjarta mínu. Frábært að heyra fullan sal af fólki grenja úr hlátri og skemmta sér konunglega, það rifjaðist upp fyrir manni þegar maður var lítill gutti að horfa á myndir þarna í bíóinu.“

Hvað geturðu sjaldnast staðist? „Góða áskorun! Ég elska áskoranir. Ég er mikill keppnismaður og til í allskyns rugl. Það hefur oft komið mér í vandræði.“ Hlær.

Hvaða fræga einstakling, lífs eða liðinn, í mannkynssögunni myndirðu vilja bjóða í kaffi, af hverju og um hvað myndirðu vilja tala við viðkomandi? „Elvis Presley, ekki spurning. Elvis er stórmerkilegur listamaður sem átti alveg ótrúlegt líf og magnaðan feril. Ég myndi vilja hitta hann á Graceland og láta elda ofan í okkur uppáhalds matinn hans. Svo myndi ég vilja ræða við hann um umboðsmanninn hans og bara almennt um lífið og reyna að átta mig á því hvað kveikti í honum og dreif hann áfram í lífinu.“

„Verst þætti mér ef fjölskyldan þyrfti að sammast sín fyrir mig.“

Instagram eða Snapchat? „Ég er mjög „tæknihræddur“ maður, en ég „skil“ betur út á hvað Instagram gengur.“

Hvaða tjámerki (emoji) notarðu oftast? „Karl með sólgleraug. Svo splæsi ég gjarnan í „klesstan“ hnefa. 😎 👊

Áttu einhverja skemmtilega sögu úr bransanum svona í lokin? „Ó já.“ Hlær. „Einu sinni var ég fenginn til að leikstýra tónlistarmyndbandi fyrir Júróvísíon, við lag Eiríks Haukssonar, Valentine Lost og það varð hreinlega allt brjálað yfir því að hinn rauðhærði Eiríkur skyldi vera með dökkt hár. Engin vissi hver bæri ábyrgð á því en nokkrum árum seinna rann upp fyrir mér að sennilega væri ég sökudólgurinn.

Upphaflega var nefnilega hugmyndin sú að hafa myndbandið í svona svart hvítum Sin City stíl og láta rauða hárið á Eiríki skera sig úr. Þetta var auðvitað frábær hugmynd. Eina sem þurfti að gera var að lita hárið á Eiríki í einhverjum skærum lit svo það væri hægt að einangra það frá öðrum litum í eftirvinnslunni. Náuningi sem útbjó fyrir gátlista fyrir tökurnar á myndbandinu nóteraði þá hugmynd niður. Þegar nær dró tökum var hins vegar ákveðið að hætta við þetta en það gleymdist að láta alla vita. Einn úr tökuliðinu fór því með Eirík í litun á hárgreiðslustofu þar sem brugðið var á það ráð að „hressa aðeins“ upp á kappann og útkoman var þetta dökkrauða hár sem fór svona fyrir brjóstið á hálfri þjóðinni.
Hér með er það sem sagt upplýst að það var ég sem ber ábyrgð á hárinu á Eiríki í Valentine Lost videóinu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -