Binni, 17 ára, var um borð í Svani ÍS sem fórst: ,,Það er betra að ég fari einn en við förum allir“

top augl

Gestur Sjóarans að þessu sinni er þaulvanur sjómaður og togarajaxl Brynjólfur Bjarnason frá Ísafirði.

Eftirminnilegasta sjómennska Brynjólfs var án efa árið 1969 þegar Svanur ÍS sem gerður var út frá Súðavík fórst með honum um borð. Hann gegndi þá hlutverki stýrimanns aðeins 17 ára gamall en skipið var 101 tonna stálskip, smíðað í Austur-Þýskalandi.

Hann man þetta eins og það hefði gerst í gær en hann var ekki fastráðinn á Svaninum. Hann var á Guðbjörgu ÍS sem hafði verið á síld um sumarið og þeir voru að útbúa hana á troll. Stýrimaðurinn á Svaninum veiktist og Örnólfur Grétar Hálfdansson skipstjóri hringdi í hann og spurði hvort hann gæti tekið túrinn sem hann samþykkti að því gefnu að Geiri, Ásgeir Guðbjartsson, samþykkti það líka. Úr varð að hann hljóp í skarðið. Í fyrstu var um að ræða tvo dagróðra en að þeim loknum kom útgerðarstjórinn til hans og spurði hvort hann gæti farið einn túr til viðbótar þar sem stýrimaðurinn var lengur að jafna sig á veikindunum. Þannig atvikaðist það að hann endaði í þessum örlagaríka túr.

Brynjólfur Bjarnason. Mynd Reynir Traustason

Inntur eftir því hvort þessi tegund skipa hafi talist hættuleg þá fannst honum það ekki á þeim tíma bendir hann á að annað skip sömu gerðar, Sæfari frá Bíldudal, hefði farist nokkrum mánuðum síðar og einhverjir menn telji að þetta hafi ekki verið góðir bátar.

Aðdragandinn að slysinu var sá að þeir voru búnir að draga og voru að leggja af stað í land þegar vélstjórinn tók við stýrinu þar sem Brynjólfur var í raun alveg óvanur. Hann var staddur í stýrishúsinu, skorðaður við borðið en þá er kallað að það sé að koma brot. Þeir stýra upp í brotið en þegar það skellur á fer báturinn á hliðina með þeim afleiðingum að vélin drepur á sér.

Skipstjórinn gefur þá skipun að menn skuli fara upp í brú og setja út bátinn. Þeir átta sig á að einn áhafnarinnar er enn niðri í káetu og vélstjórinn fer í það að sækja hann. Við það fer Brynjólfur við annan mann að ná lokinu af kistunni sem innihélt börgunarbátinn og koma honum svo á flot en þegar þeir eru við það að blása hann upp stakst hluti af ljósabúnaði brúarinnar í bátinn, sprengdi hann og eyðilagði þakið.

Þeir safnast svo saman og komast um borð í sökkvandi gúmmibátinn, gegndrepa. Þeir náðu taki og drógu sig eftir loftnetinu sem gekk á milli mastranna, en þegar þeir voru miðskips ákvað Grétar að ná í hinn bátinn með orðunum:

„það er betra að ég fari einn en að við förum allir!“

Áhöfnin hafði enga sjógalla í sprungnum björgunarbátnum á meðan skipstjórinn synti í prjónafötunum einum saman eftir varabátnum. Hann hafði það og lét bæði sig og bátinn reka til áhafnarinnar og þegar bátarnir voru hver upp við annan ákváðu þeir að láta sig reka framfyrir og út í vindinn til að bera sig frá skipsflakinu. Þegar þeir voru í öruggri fjarlægt blésu þeir hinn bátinn upp, fluttu sig á milli og losuðu sig við sprungna bátinn.

Til að loka bátnum þurfti að þræða ílangan hnapp í gegnum þröngt gat og snúa. Brynjólfur var orðinn svo kaldur og hrakinn að þegar hann var að erfiða við að ná hnöppunum í gegnum götin grét hann af sársauka en hann var að loka þessu svo þeir gætu lifað þetta af.

Hann segir að það hafi orðið þeim til lífs að kvenfélagið í Súðavík hafði prjónað ullarfatnað, set í vatnshelda poka og sett niður með öllum björgunarbátunum. Þetta þýddi að þeir gátu skipt um föt og komist í ull og þannig stuðlað að því að þeir kólu minna.

Um borð í bátnum sat áhöfnin hver á móti öðrum og þeir brugðu á það ráð að nudda hita í fætur hvers annars og fyrir vikið hitnaði þeim á höndunum í leiðinni. Þeir voru fimm tíma í bátnum og menn urðu að finna leiðir til að halda á sér hita í 12 stiga frosti.

Brynjólfur hélt þegar þarna var komið við sögu að þeir myndu ekki lifa þetta af

Spurður að því hvað menn ræddu sín á milli í svona aðstæðum minnist hann þess helst að hafa spurt skipstjórann að því hvort þá ræki ekki örugglega að landi og hversu langan tíma það tæki, hann var hreinlega ekki betri að sér þegar það kom að því að lesa af áttavitanum, en skipstjórinn svaraði ,,jú, jú, vinur minn, auðvitað, það veit enginn en við förum ansi hratt“ – hann vissi auðvitað betur, það var norð-austanátt þannig að þá rak suður með fjörðunum og alls ekki í átt að landi.

 

Hann man svo líka að einhver spurði hvort enginn þeirra væri með sígarettur. Hann játti því en þær voru allar gegndrepa. Einn þeirra hafði með sér pípu en tóbakið var allt ónýtt. Hann veltir því fyrir sér hvort það hafi ekki verið blessun að þeir hafi ekki farið að fikta með eld í ofánálag.

Þegar líða tók á fór að síga í hann og hann tók að syfja af kuldanum. Hann tilkynnti skipstjóranum að hann ætlaði aðeins að leggja sig en hann þvertók fyrir það og kallaði reglulega til manna til að koma í veg fyrir að menn sofnuðu. Eins neitaði hann að opna nestispakka þar sem þeir vissu ekkert hversu lengi þeir myndu þurfa að dvelja í bátnum. Þeir höfðu þó eitthvert smáræði af vatni sem þeir gátu notað til að skola mesta saltvatnið úr munninum.

Þeir gátu áttað sig á því hvar vindurinn kom á bátinn og þeir gátu heyrt hvissið þegar brotin voru að nálgast. Þegar brotin komu svo á bátinn hentu þeir sér út með hliðinni en báturinn hentist um eins og skopparakringla en fyrir einhverja mildi hvolfdi bátnum aldrei.

Þeir heyra svo í talstöðinni að Sólrún ÍS var búin að finna þá. Loftnetið hafði brotnað að megninu til af talstöðinni með þeim afleiðingum að þeir gátu bara hlustað en ekki sent. Skipstjóri Sólrúnarinnar hafði samráð við skipstjóra varðskipsins sem var á leiðinni að sækja þá og það var ákveðið að þeir færu beint um borð í varpskipið.

Spurður að því hvernig mönnum leið þegar þeir voru komnir um borð í varðskipið lýsir hann því að auðvitað hafi honum liðið ofboðslega vel, nýbúnir að fá að fara í sturtu, en þá hafði kalið á höndum og fótum og einn þeirra hafði viðbeinsbrotnað. Skipstjórinn lumaði á viskíflösku og gaf þeim eitt skot á mann, svona rétt til að ylja þeim aðeins.

Brynjólfur var aftur kominn á sjó tveim vikum seinna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni