Ellý í Q4U: „Ég er ekki lengur að hlusta á gamla pönktónlist“

top augl

„Ég lenti á svo mörgum veggjum. Ég stend alltaf upp og geng á sama vegginn þangað til að maður velur á milli; ætlar þú að lifa eða deyja? Það var bara eiginlega svoleiðis hjá mér. Ég var ekkert viss hvort ég vildi. Ég var alveg í 40 daga inni á Vogi í afeitrun; yfirleitt ertu bara í 10 daga þar,“ segir Elín Halldórsdóttir, Ellý, fyrrverandi söngkona pönkhljómsveitarinnar Q4U.

Varstu í öllu sem gafst?

„Já, meira og minna.“

Hvenær varð þessi vakning?

„Hún var alltaf svo sem þegar manni leið ekki vel. En svo um leið og maður gat reddað einhverju þá var vakningin farin. Ég vissi að annaðhvort myndi ég hætta eða deyja. Ég var orðin svo veik. Ég fann það alveg sjálf. Ég reykti líka lengi og ég hætti ekki fyrr en ég var bókstaflega að kafna og þá hætti ég.“

40 dagar á Vogi. Og dugði það?

„Nei. Svo var ég í eftirmeðferð. Þetta var 15 mánaða meðferð.“

En það dugði?

„Já. En ég var búin að vera á Vífilsstöðum í átta mánuði áður og það dugði ekki daginn.“

Hún féll daginn sem hún kláraði meðferðina þar. Fór í partí.

Hún var tekin af mér.

„Ég var orðin 29 ára og búin að missa barnið mitt; ég hefði átt að hætta þegar Erna fæddist. Hún var tekin af mér og ég fékk mér lögfræðing og hann hafði enga trú á mér. Eðlilega svona eftir á að hyggja. Þá var allt öðruvísi. Það var enginn stuðningur. Ég hafði engan. Þetta var eins og að berjast við vindinn. Ég var ein, átti ekkert, vissi ekkert og kunni ekkert. Þetta var bara leiðinleg saga og ljót.“

Elín Halldórsdóttir

Ellý segir að fyrstu tvö árin eftir að hún hætti í neyslu hafi verið hræðileg. „Eftir svona tvö ár byrjaði smátt og smátt uppbygging. Það var eins og maður gæti ekkert. Maður var svo getulaus. Þú ert alltaf að gera það sem þér er sagt. Ég lærði að gera það sem mér var sagt, að vera ekkert að taka ákvarðanir sjálf. Ég var svoleiðis í mörg ár þangað til að ég fann allt í einu að ég gat tekið ákvarðanir sjálf en ég get það ekki alltaf. Stundum fæ ég svaka góðar hugmyndir sem eru ekki góðar og allir „nei, nei, nei“ og ég sé ekki það sem er verið að vara mig við. Það hefur reynst mér mjög illa.“

Er þetta hvatvísi?

„Já, við getum kallað það hvatvísi. Ég er mjög hvatvís. En ég veit af því.“

Hvað var síðasta flippið?

„Ég veit það ekki. Ég er samt miklu varkárari. En yfirleitt hlusta ég núna. Það eru svona 10 ár síðan síðasta flippið var. Þá keypti ég ónýtt hús.“

 

Fullt af fólki og mikið djamm

Hvers vegna pönk?

„Ég var þannig stödd andlega, held ég. Erfitt heima. Ólst þannig upp. Við erfiðar aðstæður. Þannig að það var ekkert skrýtið að maður færi þangað.“

Þannig að hún vildi öskra svolítið á samfélagið.

„Já.“

Hún segir að fyrstu tónleikarnir á ferlinum hafi verið í MH. Hún var þá í hljómsveit sem kallaði sig Nýnasistur. Seinna fór hún svo í Q4U.

„Ég fór að búa til texta og ég gat aldrei munað textana mína þannig að maður þurfti að hafa blað og lesa. Svo vissi maður ekkert hvaða lag var hvað þannig að ég vissi ekki hvers vegna ég var með þessa texta. En svo seinna lærði ég það. Ég gleymi textunum og bara bulla hvort eð er. Og var bara góð í að bulla.“

Hún bjó á tímabili ásamt fleirum í húsi við Fischersund. „Þar voru alltaf allir. Þetta var kommúna eiginlega. Fólk svaf þar ef það hafði ekki annan stað. Það var yfirleitt fullt af fólki þarna og mikið djamm.“

Ellý og Gunnþór Sigurðsson, sem var í hljómsveitinni, gengu í hjónaband. „Við giftum okkur ári áður en við byrjuðum saman. Svona sparimerkjagiftingu. Ég ætlaði að giftast öðrum, honum Þormari. Hann hætti við.“

Þau Gunnþór eignuðust svo dóttur. Og upp úr slitnaði.

Ég fæ bara klástrófóbíu.

„Ég þarf bara að vera ein. Ég get ekki átt mann. Ég hef bara rosalega gaman af að vera með sjálfri mér held ég. Ég er að vinna. Ég er að horfa á mitt sjónvarp. Ég á fjögur börn. Það hentar mér ekki að vera í sambúð. Ég fæ bara klástrófóbíu; þetta er eins og að vera lokuð inni í lyftu. Mér bara leiðist.“

Vill Ellý ekki lengur karla?

„Nei, alls ekki.“

Barnið þeirra Gunnþórs, Erna, er orðið læknir. Lærði í Slóvakíu og þar bjó Ellý í eitt og hálft ár með henni. „Pönkarabarnið mitt.“

Ellý segist halda að hún hafi aldrei fengið greitt fyrir að koma fram með Q4U. „Maður borgaði alltaf með sér; þess vegna er ég algjörlega hætt. Ég nenni þessu ekki. Það kostar bara pening. Og til hvers?“

Elín Halldórsdóttir

Hún segir að hljómsveitin hafi alltaf verið að hita upp fyrir aðra sem fengu peningana. „Það var bara saga Q4U. Svo gáfum við út plötu 1983; hún var gefin út í 500 eintökum. Hún seldist upp og er mjög dýr; hún er nefnilega ófáanleg. Það var ekki út af því að við værum svo vinsæl; við vissum það ekki fyrr en 30 árum seinna að þetta hafi komist á einhverja lista í Svíþjóð. Þetta var fyrir tölvutímann. Þannig að við erum költ einhvers staðar úti í heimi.“

þegar maður var orðinn svona fullur eins og ég var alltaf þá lyftist það eitthvað upp.

Ellý þótti oft vera heldur fáklædd. Hvað með það að hún gekk eitt sinn niður Laugaveginn? „Ég var alltaf að sauma föt. Ég saumaði mér pils úr veski mömmu. Það var svo hart leðrið í því og þegar maður var orðinn svona fullur eins og ég var alltaf þá lyftist það eitthvað upp; ég var í netasokkabuxum. Sagan var fyrst þannig að ég hafi verið nakin með veski. En ég var aldrei með veski. En veskið var komið upp í mitti þannig að ég hef sennilega verið á rassinum. Í netsokkabuxum. Svo skipti þetta engu máli fyrir mig og mér gat ekki verið meira sama.“

 

Missti allt í hruninu

Börnin eru fjögur og barnabörnin eru líka fjögur. Var aldrei erfitt að ala börnin upp ein? „Jú, það var ógeðslega erfitt og ég myndi aldrei segja neinum að þetta sé ekkert mál. Þetta var mjög erfitt.“

Fátækt?

„Nei, ég vann mikið,“ segir Ellý sem segist á tímabili hafa verið í fjórum störfum. Og svo byggði hún einbýlishús. Var það ekki bugandi með börnin? „Jú, þetta voru erfið börn. Þau voru öll erfið en ég á mjög flott börn. Þau vita nákvæmlega hvað þau vilja.“

Jú, hún er hvatvís og keypti sér lóð.

Börnin voru ung og öll á svipuðum aldri og hvert öðru svona ofvirk og alls konar. Þannig að þetta var geðveiki. En ég komst í gegnum þetta en þetta var ógeðslega erfitt.“

Var hún að naglhreinsa sjálf? „Jú, ég ætlaði að gera mikið meira sjálf en einfaldlega kunni það ekki en í dag er ég orðin ansi góð. Ég á allar græjur.“

Og húsið reis.

„Húsið reis en svo seldi ég það og keypti annað því miður 2007. Rétt fyrir hrun. Það fór hrikalega illa; við skulum ekki ræða það einu sinni. Ég hef aldrei verið mikil peningakona.“

Í gamla daga var maður bara á bísanum og ég átti stundum ekki fyrir mat og bara svalt.

Hún missti allt í hruninu. „Allt. Peningar og ég eigum ekki samleið og ég hef komist ágætlega af. Í gamla daga var maður bara á bísanum og ég átti stundum ekki fyrir mat og bara svalt; en ég hef alltaf getað gefið börnunum mínum allavega að éta en kannski ekki átt fyrir 66 gráður úlpu og var ekki alltaf sú vinsælasta að geta ekki keypt hjól þegar allir áttu hjól. En ég marði þetta einhvern veginn. Og þau höfðu það held ég fínt og eru bara vel sett í dag,“ segir fjögurra barna móðirin en yngsta barnið er 22 ára.“

Elín Halldórsdóttir

Lærir alltaf af mistökunum

Jú, lífið er alls konar – eins og málverk sem hægt er að breyta að vild á striganum. Dökkir litir. Ljósir litir. Litir í öllum regnbogans litum og meira en það. Striginn og litirnir heilluðu og segir Ellý að hún hafi verið 15 ára þegar hún byrjaði að mála. „Ég var að selja myndir í Austurstræti. Boli og alls konar. Lifði á því. Og svo var ég í Bæjarútgerðinni kannski í tvo daga og svo var ég að selja í Austurstræti. Í pönkinu.“

Lifði hún bara fyrir daginn í dag?

„Ég var svolítið svoleiðis og það hefur alltaf verið í mér að njóta dagsins og vera ekkert að pæla í morgundeginum. En það hefur smátt og smátt droppað inn í sambandi við eins og að eiga pening á morgun.“

Ellý hefur líka hæfileika á myndlistarsviðinu. Það er augljóst.

Ég þarf að fara að halda sýningu.

„Ég er svolítið ósýnileg. Ég er svolítið mikið að mála. Ég þarf að fara að halda sýningu og einhvern veginn kem ég mér ekki í það að gera það. Mér finnst mjög erfitt allt svona publicity.“

Hún segir að hún þyrfti umboðsmann.

Hvað segir Ellý um framtíðina?

„Hún er bara björt. Við eigum 20 ár eftir; ég er byrjuð að telja. Ef maður er heppinn. Þetta er að verða búið þannig að maður verður að lifa og njóta.“

Er listakonan trúuð?

„Nei. Inni í mér myndi ég vilja óska þess að ég væri trúuð af því að það er dálítið gott. Þá hefði lífið svolítinn tilgang og þá myndi ég hlakka svo til næsta lífs af því að það yrði svo frábært út af því að ég er búin að gera svo mikið af leiðinlegum hlutum; þannig að í næsta lífi væri ég hætt að drekka, hætt að reykja og hætt þessu og hætt hinu.“

Hverju sér pönkdrottningin mest eftir? Eða sér hún ekki eftir neinu?

„Það er ekki hægt að segja svona. Þetta er bara svona. Það er ekki hægt að sjá eftir af því að maður lærir alltaf af mistökunum. Þá værir þú ekki þar sem þú ert akkúrat núna; hefði þetta ekki skeð þá hefði ég ekki lært það. Þannig að ég get ekki séð eftir neinu en auðvitað sé ég eftir fullt af hlutum. Ég er allavega ánægð með hvar ég er í dag. Ég er glöð í vinnunni minni og mér finnst ég eiga bara nokkuð gott líf. Ég er glöð með börnin mín. Þau eru mitt líf og yndi, börnin og barnabörnin og hin börnin mín sem ég á í vinnunni minni. Mér finnst ég rík. Ég á æðislegt samstarfsfólk alls staðar. Ég á bara rosalega gott fólk í kringum mig. Góða fjölskyldu. Mér finnst það vera númer eitt, tvö og þrjú.“

Elín Halldórsdóttir

Hverjir eru stærstu sigrarnir?

„Ég á lag sem heitir Sigurinn. Ég get ekki svarað þessu. Er þetta ekki allt einn stór sigur bara að vera komin hingað? Ég er orðin sextíu ára. Veistu hvernig merki við vorum með? „Don’t trust anyone over 30.“ Ég ætlaði ekkert að verða svona gömul. 30 ára. Mér fannst þetta eldgamalt fólk sem var á leiðinni í gröfina. Ég verð 60 ára eftir nokkra daga. Það er í apríl. Edrúafmælið og sextugsafmælið.

Þegar ég var orðin þrítug þá breyttist ég.

Mér fannst ég vera á leiðinni í gröfina á þessum árum, 25-27 ára. Þegar ég var orðin þrítug þá breyttist ég. Og þá fór ég að njóta þess að vera orðin eldri. Svo sá ég að það var hundleiðinlegt að vera svona ungur. Ekkert nema vandamál. Maður er alltaf að læra það meira og meira hvað það er gott að eldast og nenna ekki þessu. Hlutir sem skiptu máli skipta ekki máli.“

Svo varð Ellý dómari í sjónvarpsþáttunum X-Factor á Stöð 2. Hvað kom til að hún fór í það?

„Það var hringt í mig og svo fékk ég þetta.“

Hvað hefði pönkarinn Ellý sagt um þessa ósköp?

„Þér er rosa stýrt í svona þætti þannig að ég fékk ekki alveg að vera ég. En ég var þá miklu grimmari. Ég er miklu meira líbó í dag. Ég er ekki lengur að hlusta á gamla pönktónlist. Ég hlusta á main stream.“

Sextug. Ellý í Q4U sextug. Hún á án efa eftir að gera skemmtilega hluti á næstu 20 árum.

„10. Svo er ég hætt. Þá er maður bara farinn á sólarströnd. Á maður ekki að kaupa sér hús á Spáni?“

Þetta á að vera skemmtilegt.

„Þetta er skemmtilegt. Ég skemmti mér alltaf manna best og ég get alltaf sagt öllum hvernig skemmtunin var út af því að það eru ekki allir sem muna eftir því. Ég þarf ekkert vín til að verða klikkuð. Ég er það bara.“

Elín Halldórsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni