Gestur Guðna er Baldvin Jónsson: Íslenska fegurðin, lambakjötið og skyrið

top augl

Baldvin Jónsson kemur víða við í viðtali við Guðna Ágústsson, en hann talar meðal annars um ýmis verkefni sem hann hefur komið að í gegnum tíðina en hann var einungis 18 ára gamall árið 1969 þegar hann flutti inn hljómsveitina Kinks sem hélt hljómleika í Austurbæjarbíói.

Hann flutti síðar til Kanada þar sem hann kynnti sér auglýsingatækni og blaðaútgáfu – offsetprentun – og þar vestra vann hann hjá nokkrum fyrirtækjum.

„Ég held að allir Íslendingar hefðu gott af því að búa erlendis í svona tvö ár til að kynnast því í raun og veru hvað Ísland er frábært land til að búa í. Maður lærir það ekki nema að kynnast hinni hliðinni. Og Kanada er samt með betri þjóðríkjum held ég. Þeim hefur tekist að taka allt það besta frá Bandaríkjunum og frá Evrópu og búa sér til sitt eigið samfélag. Þegar ég var þar voru um 50% íbúa í Toronto innflytjendur af fyrstu kynslóð.“

Baldvin bjó þar í rúm tvö ár. Hann hafði starfað hjá Morgunblaðinu áður en hann flutti út og fór að vinna þar aftur eftir að heim kom. „Það var tengt því sem ég var að læra úti; við vorum að fara að taka upp offsetprentun og þessa nýju prenttækni.“

 

Í framtíðarnefnd

Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði Baldvin, Sjálfstæðismann, í nefnd.

Ég held að obbinn af þessum hugmyndum sem þá voru lagðar fram 1980 standist tímans tönn og ætti kannski að skoðast frekar.

„Hann skipaði mig sem formann framtíðarnefndar sem er sú eina sem hefur verið stofnuð af því tagi í sögu þjóðarinnar. Það vakti athygli bæði meðal Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna að Steingrímur var gagnrýndur fyrir að velja mig og ég var gagnrýndur fyrir að hafa þegið þetta. Við vorum góðir vinir, við Steingrímur, og mér þótti afskaplega vænt um hann. Við skiluðum af okkur sex mánuðum, þessi hópur, og þá skipaði hann mig aftur í framhaldsnefnd þar sem við útfærðum þessar hugmyndir og ég held að obbinn af þessum hugmyndum sem þá voru lagðar fram 1980 standist tímans tönn og ætti kannski að skoðast frekar. Nú skilst mér að Alþingi sé búið að skipa framtíðarnefnd sem er skipuð þingmönnum. Ég er ekkert viss um að það sé rétt. Hin nefndin var skipuð fólki úr atvinnulífinu og frá hinu opinbera. Það var góð blanda. Og við settum okkur bara mjög skýr markmið. Ég veit ekki til þess að neitt hafi komið út úr framtíðarnefnd þingsins og á ekkert von á að það komi neitt þar. En auðvitað þurfa menn að fara að hugsa um þetta land og tækifærin næstu 50 ár.“

 

Miss World

Baldvin vann á auglýsingadeild Morgunblaðsins í 24 ár eða til ársins 1990.

„Þá fannst mér vera ákveðin tímamót. Mér fannst spennandi tímar fram undan í ljósvakanum. Síðan hafði ég tekið að mér Fegurðarsamkeppni Íslands sem var í sambandi við breska fyrirtækið Miss World og síðan í Evrópu Ungfrú Evrópa. Ungfrú heimur. Ég reyndi að standa mig og fá stúlkur í keppnina sem myndu sannarlega standa undir merkjum að vera góðir fulltrúar Íslands og mér fannst það líka áhugavert að Ísland gæti kannski unnið fegurðarsamkeppni.“

Baldvin segist síðar hafa verið kjörinn fulltrúi Evrópuþjóðanna og var síðan starfsmaður hjá Ungfrú heimur, Miss World, þegar Hólmfríður Karlsdóttir vann titilinn. Hann ferðaðist með henni víða um heim og svo síðar með Lindu Pétursdóttur þegar hún vann titilinn.

Við vorum að boða um hreinleika og náttúrufegurð.

Baldvin segir að forsvarsmönnum Miss World hafi þótt boðskapur Íslendinganna vera svo fallegur. „Við vorum að boða um hreinleika og náttúrufegurð, heilbrigðismál og lífsgæði og Ísland hefur upp á svo margt að bjóða í tengslum við það. Þá höfðum við Grímur Sæmundsen stofnað fyrirtæki sem hét Íslenska heilsufélagið; við fórum að skoða alls konar náttúruafurðir sem væru góð fæðubótarefni. Upp úr því kom svo Bláa lónið og öll þau lífsgæði sem það hefur boðið upp á.“

 

 

Whole Foods

Guðni segist fyrst hafa orðið var við Baldvin sem hugsjónaríkan baráttumann þegar hann kom úr þessum ferðum með fegurðardrottningunum um heiminn; eins og hann hafi öðlast nýja sýn 1990. Hann fór að tala fyrir íslenska landbúnaðinum með undraverðum hætti sem náttúruauðlind og ferskum og einstökum í veröldinni. Jafnvel íslensku kúnni. Sauðkindinni. Hestinum.

„Þetta er alveg rétt. Ég varð fyrir miklum hughrifum af þessum ferðum og fann alltaf að það voru allir að leita til dæmis að tækifærum í lífrænni ræktun. 1995 héldum við fund í Vík í Mýrdal með lífrænum bændum sem voru ekki orðnir nokkuð skipulagðir í Mýrdalnum. Við fengum fyrir algjöra tilviljun framkvæmdastjóra og formann alþjóðasamtaka lífrænna bænda. Þeir voru að fara til Bandaríkjanna og flugu í gegnum Reykjavík og buðust til að koma og hitta fólk á Íslandi. Svo ég ákvað að slá bara upp fundi og halda hann í Mýrdalnum. Þangað mættu yfir 100 manns og sýndu þessari lífrænu hugsun mikinn áhuga en síðan hefur ekkert gerst.“

Þú opnaðir Whole Foods-búðirnar í Bandaríkjunum í gegnum lambið. Það voru áform.

Það voru alltaf einhver átök og alltaf einhver leiðindi sem brutust út.

„Jú, það var stofnað í tilefni af því að menn voru að setja styrk til styrktar íslenskri tungu og síðan íslenskri menningu og þá fannst mönnum eðlilegt að kanna það hvort það væri raunverulegur möguleiki að selja íslensk matvæli sem sælkeramatvæli á sælkeramarkaði. Það var upphafssýnin. Og það tókst. Þá var verið að selja fryst kjöt til New York. Það fékkst ekkert fyrir það. Þetta var selt í góðum búðum. En verðið var langt frá því að vera ásættanlegt. Þannig að mér tókst að komast í samband við þessar Whole Foods-búðir sem eru sannkallaðar sælkerabúðir og leggja mikla áherslu á upprunavottun og þeir urðu strax hrifnir af þessari hugmynd með íslenska lambið; enda féll það vel að þeirra búðum af því að nýsjálenskt lambakjöt er svo erfitt að fá á tímabilinu september fram í októberlok. Þannig að íslenska kjötið passaði akkúrat inn í þennan tíma. Og þá sáum við fyrir okkur að menn ættu að setja sér það markmið að selja 1.000 til 1.200 tonn af fersku kjöti í sláturtíð sem ferskt kjöt og heimamarkaðurinn væri þá að taka 6000 tonn. Þannig að þeta væri 7.500 tonna framleiðsla á ári og þar af 1.500 tonn í útflutning. Það væri raunhæft markmið að setja sér. En það var afskaplega lítill áhugi og mikil slagsmál á milli sláturhúsanna. Við fengum kjöt frá Húsavík og sláturfélaginu á Hvammstanga og það voru alltaf einhver átök og alltaf einhver leiðindi sem brutust út í stað þess að búa til það sem við lögðum til í áformi sem var að landbúnaðurinn myndi stofna félag sem myndi heita Sölumiðstöð landbúnaðarins og sæi um allan útflutning þannig að menn væru ekki að rekast á. Þetta lærði maður af Nýsjálendingum; það er bara ein stofnun sem selur allt kjöt frá Nýja-Sjálandi og þeir framleiða 900.000 tonn á ári. Þá fóru menn eitthvað að velta fyrir sér samkeppnislögum eins og það skipti þetta einhverju máli. Síðan leiddi þetta af sér að við fórum að selja þeim osta, skyr og smjör og það gekk mjög vel.“

 

Risavaxið slys

Baldvin vann dálítið með Bændasamtökunum og landbúnaðarráðuneytinu.

„Öll vonbrigðin snerust að því sem voru samskipti mín við Íslendingana og íslensku fyrirtækin. Það voru menn í ráðuneytinu sem hlógu að því að það ætti að fara að selja skyr til Ameríku; þetta væri gæluverkefni sem aldrei myndi ganga upp.“

Talað var um fornan íslenskan mat og hlegið.

Menn stukku ekki á þann vagn heldur stofnuðu annað fyrirtæki.

„Mjólkuriðnaðurinn vildi ekki fá skrásett vörumerkið skyr. Og gerði ekki tilraun til þess. Ég var búinn að fá það staðfest að það væri hægt að skrá vörumerkið skyr á þeim forsendum að mjólkin kæmi úr kúakyni sem væri hvergi annars staðar til í heiminum nema á Íslandi og þess vegna gæti skyrið heitið skyr. Menn stukku ekki á þann vagn heldur stofnuðu annað fyrirtæki. En það versta af því öllu, er að við lögðum til að þetta ekta, íslenska skyr yrði framleitt úr mjólkurdufti sem yrði flutt í gámum til Bandaríkjanna og þar með myndum við losna við alla tolla sem voru um 10% en að þetta væri iðnaðarskyr og við vorum búin að finna þrjú fyrirtæki í Bandaríkjunum sem gátu framleitt þetta úr íslenska mjólkurduftinu og þá gastu keypt umbúðirnar þar, lokið og bragðefnin. Og þá hefði þetta verið fyrirtæki í eigu Mjólkursamsölunnar. En í stað þess velur mjólkuriðnaðurinn að fara í samstarf við bandarískt fyrirtæki þar sem íslensku aðilarnir eiga kannski 15-20% í félaginu og þar af kúabændur 5%. Þetta var risavaxið slys í mínum huga.“

Svo kom Siggi’s skyr.

„Þeir komu tveimur til þremur árum seinna. Það var auðvitað mjög snjallt hjá Sigga að stökkva á þennan vagn, enda græddi hann milljarða á þessu. Mjólkursamsalan og mjólkuriðnaðurinn á Íslandi væru núna í þeim sporum að allir gætu framleitt eins mikið og hver og einn getur og væru í algjörum blóma. Og það væri enginn kvóti og engar niðurgreiðslur og ekki neitt. Á þessu 20 ára tímabili væri þetta ein sterkasta útflutningsgrein á landinu. Núna eru menn að tengjast þessu ameríska fyrirtæki og fá bara sáralítinn hlut af því sem þeir hefðu ella fengið. Þetta olli manni líka miklum vonbrigðum.“

Guðni spyr Baldvin, sem stóð meðal annars fyrir Food & Fun-hátíðunum sem voru árlega í 19 ár og gerðu það að verkum að hingað til lands flykktust meistarakokkar og elduðu sælkeramat úr íslensku hráefni, hvað hann sé að fást við í dag.

„Ég er enn þá með áhuga fyrir mörgu, sérstaklega þessum lífræna geira. Mér finnst hann vera feikilega spennandi og ég held að það eigi að leggja meiri áherslu á það. Og þar liggja tækifærin núna þegar fiskeldið er að fara upp á land.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni