Örn Karlsson tölvufræðingur seldi og gerðist bóndi: „Gunnar Smári keypti. Þá var hann kapítalisti“

top augl

„Ég kynntist Jóni Bernódussyni sem var frumkvöðull í því að reyna að byrja að rækta repjujurtina á Íslandi,“ segir Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli í Meðallandi, Skaftarhreppi, í viðtali við Guðna Ágústsson þar sem þeir koma víða við og bætir við að árið 2009 hafi hún verið fyrst ræktuð hér á landi. „Hann var þá hjá Siglingastofnun sem rann svo inn í Samgöngustofu og þá var pælingin hvort það væri hægt að búa til lífdíselolíu úr repjunni til að knýja fiskiskipaflotann. Hann fór á nokkra staði á landinu og prófaði og þetta gekk svona misvel. Ég talaði við Ólaf á Þorvaldseyri sem var einn af þeim sem prófaði þetta og við fórum síðan að prófa að rækta þetta og lentum í smábasli fyrst vegna þess að þetta var nýtt á Íslandi og það er mismunandi yrki; þú ert að prófa vetraryrki og sumaryrki og svo eru mismunandi tegundir og stundum voru mikil afföll. Og við héldum áfram. Nú erum við búin að ná mjög góðum tökum á þessu og erum að rækta repju. Við tökum fræin úr henni, pressum það og búum til repjuolíu sem við seljum í verslunum og seljum í sápugerð. Hestafólk er að kaupa olíuna okkar til að gefa hestunum sínum og svo það sem manni datt ekki í hug: Útgerðin kaupir töluvert magn af okkur; línubátar þurfa að smyrja línukrókana – ég kann ekki alveg að útskýra það – og þeir geta ekki notað jarðefnaolíu í það vegna þess að þá kemur það í fiskinn. Þeir kaupa töluvert af okkur.“

Örn segir að 40 hektarar séu notaðir undir repjuna. Svo ræktar hann meira.

„Já, svo erum við með bygg og byggið höfum við verið að selja í fyrirtæki sem heitir Eimverk sem er að búa til flókaviskí; búa til viskí úr íslensku hráefni.

Svo erum við með hafrana; þá erum við að búa til haframjöl og selja til manneldis. Svo höfum við verið með nautgripi sem við gefum bygg og hafra og höfum notað hálminn; við fáum gríðarlega mikinn hálm. Við erum að nota hann sjálf og Flúðasveppir hafa verið að kaupa svolítið af hálmi frá okkur.“

Við fengum styrk frá Matvælasjóði til þess að skoða að búa til haframjólk.

Þetta er mikið frumkvöðlastarf sem Örn vinnur.

„Já. Svo viljum við halda áfram með hafrana. Við fengum styrk frá Matvælasjóði til þess að skoða að búa til haframjólk og unnum það með Matís og það heppnaðist fullkomlega. Og það er alltaf að verða meiri og meiri neysla á jurtadrykkjum á Íslandi. Ég held að nýjustu tölurnar séu frá 2017 og þá var flutt inn 1,1 milljón lítrar af haframjólk. Þetta er hægt að gera. Það er náttúrlega töluverð fjárfesting að fara að búa til verksmiðju fyrir það; við fengum svakalega fína vöru í tilraunaeldhúsi. Þetta er mjög einföld vinnsla í raun og veru. Þetta er hafrar, vatn og svo þarf ensím til þess að brjóta niður sterkjuna í höfrunum.“

Örn hefur heimsótt mörg bú í Norður-Evrópu og skoðað hvað gert er á færustu búunum. Hann segist læra mikið af því. „Svo höfum við verið í töluverðu samstarfi við Landbúnaðarháskólann. Þeir eru til dæmis með hafratilraun hjá okkur. Og Matís sem er með mjög færa vísindamenn sem og Landbúnaðarháskólinn.“

Í tölvubransanum

Bóndinn á Sandhóli er einbirni. „Ég ólst upp hjá móður minni; hún var einstæð móðir. Við bjuggum á mörgum stöðum í Reykjavík; maður flutti oft í æsku og maður var alltaf að skipta um vini. Mamma var smá að hrekjast en ég var alltaf á sumrin frá sex ára aldri á Búrfelli í Miðfirði í Húnavatnssýslu hjá bróður mömmu. Hann er fallinn frá; hét Eiríkur Tryggvason.“

Það var skráð breskt fyrirtæki sem keypti ákveðinn hugbúnað af okkur.

Örn fór mörgum árum síðar í tölvunám í Svíþjóð þar sem  hann bjó í þrjú ár. „Ég kom svo heim og stofnaði þá fyrirtæki með Vilhjálmi Þorsteinssyni árið 1983 og seldum við það 1996; það hét Íslensk forritaþróun. Ég hef alltaf verið í frumkvöðlastarfsemi meira og minna; líka í þessu landbúnaðarbrasi sem ég er í núna.“ Hann segir að fyrirtækinu hafi eiginlega verið skipt í tvennt þegar þeir seldu. „Það var skráð breskt fyrirtæki sem keypti ákveðinn hugbúnað af okkur og við fórum að vinna fyrir það þangað til árið 2000 en þá stofnaði ég annað „start up“-fyrirtæki í hugbúnaði sem lifði reyndar ekki mjög lengi en alveg frá stofnun Kögunar var ég þar í stjórn og varð síðar formaður. Við seldum það svo 2006 til Dagsbrúnar; Gunnar Smári keypti. Þá var hann kapítalisti. Núna er hann sósíalisti.“

Örn segist hafa látið gamlan draum rætast. „Ég fór í landbúnaðarstörf,“ segir Örn sem er einnig menntaður búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri en þar var hann áður en hann fór í háskólanámið í Svíþjóð. „Við keyptum jörð austur í Skaftafellssýlu í Meðallandi, Sandhól. Og hófum þar búskap.“

Hann segir að heimalandið sé um 150 hektarar. „Svo erum við í óskiptri sameign með þremur öðrum jörðum sem eru 1900 hektarar en það er mikið sandar og fjörur.“

Örn er ekki einn í þessu. „Hörður Daði Björgvinsson er bústjórinn og hann er aðalmaðurinn á búinu; hann sér um þetta frá degi til dags. Björgvin, faðir hans, kemur og hjálpar okkur á álagstímum þegar þarf að þreskja og svona. Og Viðar, bróðir hans, hefur verið mikið við og Arndís, fyrrverandi konan hans, líka meðan hún bjó þarna.“

Örn er kvæntur maður. Konan hans heitir Ellen Gunnarsdóttir. Synirnir eru tveir. Báðir uppkomnir.

Bullandi tap

Aftur að nautgripunum.

„Nautabúið er í dag um 180 berandi kýr. Það er þrefalt það þegar það er flest. En við erum hins vegar að draga mikið saman þar. Það er bara bullandi tap. Það bara stendur ekki undir sér.“

Örn segir að þau hafi fengið einn Angus-tudda. „Svo er honum hleypt á einhverjar 30 kýr og svo koma kálfar árið eftir og svo þurfa þeir að verða kynþroska. Þetta tekur langan tíma. Það hefur verið svolítil hindrun í allri kjötrækt og nautakjötsrækt á Íslandi að við höfum verið með slakt hráefni en það stendur til bóta. En það tekur tíma.“

Örn segir að byggið sem notað er fyrir nautgripina sé valsað áður en það er sett ofan í nautgripina. „Þannig að það er ekki mikil vinnsla á því.“

Þetta er útihjörð sem gengur úti allt árið en hún kemst inn í skjól þegar veður er vont.

„Við stýrum þessu þannig að kýrnar bera á vorin og kálfarnir ganga bara með mæðrum sínum þangað til haginn er búinn einhvern tímann í október/nóvember og þá eru fráfærur; þá tökum við kálfana frá mæðrunum, kúnum, og setjum þá inn í fjós og þar fara þeir í sterkt eldi í um ár áður en þeir fara í sláturhús. Við erum að slátra gripunum þegar þeir eru svona 18-22 mánaða.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni