Hjalti Úrsus segir sorgarsögu látins sonar síns: Árni Gils sat saklaus í varðhaldi í 277 daga

top augl

Hjalti Úrsus talar við Hildi Maríu Sævarsdóttur um mál sonar síns, Árna Gils Hjaltasonar, sem sat saklaus í fangelsi á sínum tíma í 277 daga, en hann hafði verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir tilraun til manndráps árið 2017. Landsréttur sýknaði svo Árni Gils í fyrra. Árni Gils lést daginn eftir að viðtalið var tekið.

 

„Í byrjun var hann dæmdur fyrir morðtilræði og settur í einangrun á Litla-Hrauni. Hann var búinn að vera í neyslu og alls konar rugli, þannig að ég hugsaði með mér að þarna væri kominn endapunkturinn; nú gætum við kannski farið að byggja upp aftur,“ segir Hjalti Úrsus í viðtali við Hildi Maríu Sævarsdóttur um son sinn, Árna Gils, sem var dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir tilraun til manndráps árið 2017.

Það var ekkert blóð á vettvangi og það var ekkert að manninum.

„Hann sagði mér strax í byrjun að hann hefði ekki komið með neinn hníf. Það var ekkert blóð á vettvangi,“ segir Hjalti Úrsus og bætir við að sonur hans hefði sagt að hann hefði afvopnað mann sem réðst á hann, mann sem hann hafi ekkert vitað að hafi ætlað að hitta hann og hann hefði svo hent hnífnum í burtu. „Maðurinn stökk í burtu, hljóp í burtu, og tók hnífinn með sér. Það var ekkert blóð á vettvangi og það var ekkert að manninum. Og hann sagðist hafa verið edrú. Þeir sem eru búnir að vera í neyslu eru ekkert alltaf að segja satt,“ segir Hjalti Úrsus sem ákvað að skoða málið sjálfur.

 

Ansi ótrúverðugt

Árni hitti vinkonu sína og var þá maður með henni. Í frétt Vísis segir: „Árni var sakfelldur fyrir að hafa stungið annan mann með hnífi í höfuðið í átökum á milli þeirra við Leifasjoppu í Breiðholti í mars 2017. Fékk maðurinn gat í höfuðkúpuna. Árni hefur neitað sök í málinu frá upphafi og haldið því fram að hann hafi aðeins varist árás mannsins sem hlaut stungusárið í höfuðið. Til átakanna kom þegar Árni kom að sjoppunni til að skila þáverandi vinkonu sinni bíl hennar og hundi sem hann var með. Maðurinn sem varð fyrir höfuðáverkanum hafði verið með konunni í samkvæmi í íbúð nærri sjoppunni og fór með henni til móts við Árna.“ (https://www.visir.is/g/20191474817d) Fréttablaðið er á meðal þeirra fjölmiðla sem fjölluðu um málið og í frétt þar segir meðal annars um atvikið: „Hún hafi lýst at­vikum þannig að brota­þoli hafi farið með henni út á bíla­planið þarna til að hitta Árna, því hún væri hrædd við hann þegar hann væri í svona annar­legu á­standi. Þegar þau hefðu komið til fundarins hafi Árni verið inni í bíl og þeir tveir eitt­hvað farið að ræða saman. Árni hefði svo skyndi­lega komið út úr bílnum, dregið fram hníf og stungið Aron í höfuðið.“ (https://www.frettabladid.is/frettir/olikar-frasagnir-eg-thurfti-ad-verja-lif-mitt/) „Öll átökin voru samkvæmt vitninu farþega megin við bílinn,“ segir Hjalti Úrsus. „Það var ekki einn blóðdropi. Ekkert. Miðað við að hann kom á sjúkrahúsið og það flæddi niður augabrýnnar. Blóð storknar á um 15 mínútum og þá voru um 40 mínútur síðan þetta gerðist. Engu að síður flæddi niður. Hann var svo vitlaus að taka sjálfur myndir af því. Ég fór að rannsaka þetta. Það var ekkert blóð. Það var rétt hjá honum. Maðurinn sagði fyrst þegar Árni var settur í varðhald og einangrun, að Árni hefði komið með hníf og stungið hann. Síðan þegar hann kom síðar í Héraðsdóm þá vissi hann að lögreglan var búin að tala við öll vitnin sem sáu hann labba út með hnífinn og þá breyttist sagan í það að hann hafi verið undir svo miklum áhrifum áfengis og eiturlyfja að hann hefði gleymt því að hann tók með sér hnífinn. Það er rétt. Líklega hefur hnífurinn dottið í hendurnar á Árna eða eitthvað.“ Og Árni var dæmdur.

Og hann féllst á það og sagði að þetta væri ansi ótrúverðugt.

„Svo var hann búinn að vera þessa 277 daga í varðhaldi og þá kom líka annað upp. Ég talaði þá við Leif rannsóknarlögreglumann og ég sagði: „Leifur, þú sérð hvað þetta er mikil vitleysa: Hinn kom með hnífinn og það er ekkert blóð“ og ég fór að segja honum hvað þetta væri arfavitlaust. Og hann féllst á það og sagði að þetta væri ansi ótrúverðugt. Það eru hans eigin orð. En þá sagði hann að Árni hefði verið á kafi í eiturlyfjum. Kókaíni. Ég sagði: ókei. Ég fór þá líka að rannsaka það eins og hitt allt,“ segir Hjalti Úrsus og bætir við að það hafi ekki verið neitt blóðtökuvottorð. Hann segir jafnframt að eitthvað hafi vantað upp á að fullnægjandi gögn fylgdu málinu. „Þau hafa líklega glatast eða týnst. Þannig að þeir týndu öllu.“

Passar ekkert saman

Hjalti Úrsus segir að tæknideild lögreglunnar hafi aldrei farið á vettvang glæpsins eða meints glæps. „Hefðu þeir bara tekið þessa þrjá blóðdropa og séð að þeir voru úr Árna sjálfum, þá hefði verið ólíklegt að hinn hefði orðið fyrir miklum skaða þarna. Hann er stór, hann er 2,05 metrar og sennilega 190 kíló. Rosalega stór og sterkur.“ Þegar Oddgeir lögmaður [innsk. blm. Oddgeir Einarsson var verjandi Árna] sagði að það væru engar blóðprufur, þá sagði ákæruvaldið að það skipti ekki máli úr hverjum blóðið væri. Ég bara: ha? Skiptir ekki máli? Ákæruvaldið fór í allt of mikinn ham einhvern veginn.“ Tæknideildin var ekki kölluð til að sögn Hjalta Úrsus og engar ljósmyndir teknar af áverkunum. „Það var ekkert blóð, ekkert DNA, það var ekkert vopn. Þeir náðu að fela það allt. Öll rannsóknin var í þvílíkum molum. Og svo líka spítalinn. Ég var að djöflast í spítalanum og kona þar, sem sá um samskipti, sagði að í kjölfar þessa máls myndu þau breyta starfsreglum og ef um væri að ræða ofbeldismál þá yrðu teknar myndir. En þarna voru ekki teknar myndir og þau segja að það verði að taka mynd af svona áverka með kvarða; þá hefðu þeir kannski séð að sárið var eftir skósóla eða ekki hníf. Áverkinn sem hann kom með á spítalann var um fjögurra sentímetra breiður en dýptin á sárinu var 0,8 millimetrar, ef hann hefði stungið hann hefði dýptin verið um þrír millimetrar. Eða fimm millimetrar. Þetta er svo einfalt; dýptin á sárinu – þetta passar ekkert saman.

Við áfrýjuðum til Hæstaréttar og Hæstiréttur sagði að í fyrsta lagi væri einn dómari og að það þyrfti að hafa fjölskipaðan dóm. Svo tóku þeir út smátexta úr dómnum; þar stendur að ákærða hefði mátt vera ljóst með því að slást við brotaþola með svo hættulegu vopni að þá gæti illa farið, hvort sem hann héldi sjálfur á hnífnum eða hann héldi um hníf brotaþola, sem var með hnífinn, og þarna segir bara Hæstiréttur að maðurinn sé ekki að fara í fangelsi ef þið vitið ekki einu sinni hvort það var hann sem hélt á hnífnum eða hinn. Svo segja þeir: Hver er staða brotaþola annars vegar og ákærða hins vegar?

Og svo átti Árni að hafa stungið hann með vinstri. Bíddu; er Árni rétthentur eða örvhentur?“

Kærði brotaþola

Hjalti Úrsus segist hafa gert svolítið klókt. „Árni fór niður á lögreglustöð af því að Aron [innsk. blm. maðurinn sem Árni á að hafa ráðist á] var búinn að játa að hann hefði komið með hnífinn; hann hefði bara verið undir svo miklum áhrifum áfengis og eiturlyfja að hann hefði ekki vitað það. Þá kærðum við Aron fyrir ólöglegan vopnaburð. Við kærðum hann líka fyrir rangar sakargiftir af því að hann sagði að Árni hefði komið með hnífinn. Við kærðum hann fyrir yfirhylmingu sönnunargagna, því þrjú vitni sáu hann fara með hnífinn í burtu. Þannig að þá var hitt málið náttúrlega í gangi og hann var búinn að játa þetta allt fyrir rétti. Þannig að það þurfti ekki að rannsaka þetta. Og þeir rannsökuðu aldrei þetta mál á móti honum, því þeir vissu að ef þeir myndu gera það þá myndi hitt málið eyðileggjast. Þannig að lögreglan bara mat það sem svo að ákæruvaldið: Heyrðu, hérna er komin kæra, við skulum aldrei yfirheyra. En það stendur í lögunum að ef þú átt að ákæra mann þá er möguleiki á að kostnaðurinn sé svo mikill og ákæran svo kostnaðarsöm og sé mikill vafi á hvort hann verði sakfelldur, þá getir þú sleppt því að ákæra; ef það er mikill vafi.

En þegar það liggur fyrir játning þá er enginn vafi lengur. Engu að síður var þessu hent út um gluggann. Og þeir dæmdu hann aftur. Og fengu Sebastian Kunz réttarmeinafræðing, sem er þýskumælandi, og málið var flutt og svo var verið að þýða þetta yfir á ensku og íslensku. Það komu þarna kaflar sem engin skildi. Þetta er flókin enska. Það vissi enginn hvað var að gerast.“

Ég fékk prófessora í íslensku til að lesa þetta og þeir sögðu að þessi texti hafi enga merkingu í íslensku og að þetta væri bara þýðingarklúður.

Hjalti Úrsus segir að í áliti Kunz hafi sagt að ef Árni hefði staðið fyrir aftan manninn, þá hefði hann staðið eitthvað til hliðar, „eða vinstra megin eða hægra megin til hliðar ef hann stóð fyrir aftan hann. Ég fékk prófessora í íslensku til að lesa þetta og þeir sögðu að textinn hefði enga merkingu í íslensku, þetta væri bara þýðingarklúður. Og þetta fór inn í réttinn. Þrír íslenskufræðingar sögðu: „Þetta gengur ekki; annaðhvort er hann fyrir aftan hann eða fyrir framan hann og það þarf að segja frá hvaða horni hann var vinstra megin“.“

Í frétt Vísis kemur fram að þjarmað hafi verið að réttarmeinafræðingnum við aðalmeðferð í máli Árna Gils og þar segir meðal annars: „Kunz lagði mat á áverka brotaþola en tvær matsgerðir réttarmeinafræðingsins eru á meðal þess sem mest er deilt um í málinu. Sú fyrri var ekki talin í samræmi við sakamálalög að mati Landsréttar þar sem réttarmeinafræðingnum hafði láðst að boða matsfund og fá þar með gögn og sjónarmið fram frá ákærða og verjanda hans, Oddgeir Einarssyni“. (https://www.visir.is/g/202028351d)

„Sebastian talaði í um fimm mínútur, en var svo sagt: „ég er ekki að spyrja að því“ (sagði Oddgeir): Ef hann var beint fyrir aftan hann eins og brotaþoli segir hvernig gat hann gert þetta? Svo sagði hann „it’s impossible“. Það er útilokað! Þar með held ég að björninn hafi verið unninn.“

Hjalti Úrsus telur vera mikilvægt að lærdómur verði dreginn af svona mistökum.

 

Látinn

Árni losnaði úr fangelsinu og segir Hjalti Úrsus að hann hafi verið alltaf svo skrýtinn eftir það. „Ég hélt þetta væri andlegt. Hann losnaði í desember og í mars/apríl fór ég með hann upp á geðdeild Landspítalans. Þá hringdi geðlæknir í mig sem sagðist hafa mælt súrefnisupptökuna í Árna og að það væri eitthvað óeðlilegt í honum eftir fangelsisvistina. Þetta var á laugardegi, en ég fór með hann á föstudegi. Á sunnudeginum var hringt í mig og mér sagt að sonur minn væri kominn á gjörgæsludeild og að ekki væri vitað hvort hann myndi lifa af. Það var búið að tengja í hann alla hugsanlega víra; nýrnavél og öndunarvél og búið að setja gat í barkann á honum.“ Hjalti Úrsus segir að það hafi tekið sjö mánuði fyrir son hans að komast á fætur aftur og að Árni hefði verið í 21 dag á gjörgæsludeild.

Hjalti Úrsus er spurður hver sé staðan á Árna.

„Hún er bara mjög góð. Hann er að fara í bílprófið núna og við erum að kanna hvort hann geti farið í létta vinnu. Og hann er kominn með eigin íbúð og þetta er allt á réttri leið. Hann er búinn að vera á Reykjalundi í endurhæfingu, þannig að þetta er allt á réttri leið finnst manni.“

Eigum við ekki að segja að það sé bjart fram undan?

Fær Árni sálfræðiþjónustu?

„Hann mun örugglega þurfa hana. Meðan á þessu öllu stóð var hann meira og minna inni á geðdeild Landspítalans. Þau unnu kraftaverk. Hann var stundum í mjög langan tíma þar. Þau sáu hve veikur hann var. En núna, sérstaklega eftir sýknudóminn, er engin innlögn. Eigum við ekki að segja að það sé bjart fram undan?“

Árni Gils Hjaltason lést tveimur dögum eftir að viðtalið var tekið.

Minning hans lifir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni