Margrét og Villimey vinna í neyslurýminu Ylja: „Eruð þið að meina þetta? Má ég nota þetta?“

top augl

Nýjustu gestir bræðranna Gunnars og Davíðs Wííum eru þær Villimey Líf Friðriksdóttir og Margrét Dís Yeoman. Villimey Líf sem er þroskaþjálfi og Margrét Dís sem er hjúkrunarfræðingur, starfa að tilraunaverkefni á vegum Rauða krossins sem ber heitið Ylja. 

Neyslurýmið Ylja er úrræði þar sem þau sem nota vímuefni geta komið og notað efnin í öruggu rými undir leiðsögn heilbrigðismenntaðra aðila. Með þessu er reynt að koma í veg fyrir hættu á ofskömmtun sem og sýkingum sem algengar eru meðal neytenda. 

Ylja er færanlegt neyslurými og er fyrsta neyslurýmið sem opnar á Íslandi. Rýmið er í gamla bíl Frú Ragnheiðar sem fengið hefur nýja bifreið til afnota. Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem notendur 18. ára og eldri geta sprautað ávana- og fíkniefnum í æð undir eftirliti sérhæfðs starfsfólks og gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Neyslurými eru starfrækt víða um heim og hafa mikinn samfélagslegan ávinning í för með sér.

Koma í veg fyrir neyslu á almannafæri

Ylja vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar, sem felur í sér að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hljótast af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa. Villimey Líf og Margrét Dís segja að með því að veita öruggan og hreinan stað til að neyta vímuefna sé hægt að tryggja bætt öryggi til notenda sem og samfélagsins. „Markmið okkar er að koma í veg fyrir afturkræfanlegan skaða, vera til staðar fyrir einstaklinga, að þau hafi stað til að nota efni og bara að vera,“ sagði Villimey Líf og Margrét Dís bætti við: „Staðan er sú að þetta fólk sérstaklega sem hefur ekki heimili á daginn er að nota efni inni á klósettum á veitingastöðum og inni á bókasafni, í bílakjallara og fleiri stöðum.“ 

Markmið Ylju eru því að lágmarka þörf einstaklinga til að neyta vímuefna á almannafæri og þannig koma í veg fyrir þann skaða sem vímuefnaneysla í óöruggum aðstæðum getur haft í för með sér. Má þar nefna sýkingar, blóðborna smitsjúkdóma og ofskammtanir. Ylja leggur einnig áherslu á að mynda traust, veita stuðning og viðhalda mannlegri reisn hjá notendum úrræðisins. „Já, þau koma þarna inn og þurfa að byggja upp traust, sumir ná því ekki strax, sumir þurfa bara að sitja og horfa á okkur og spyrja „eruð þið að meina þetta? Má ég nota þetta?“,“ sagði Villimey Líf.

Hvetja notendur til að nota Frú Ragnheiði á kvöldin

Ylja býður upp á hreinan búnað fyrir notkun vímuefna í æð og tekið er á móti notuðum búnaði. Ylja er þó ekki með búnað í sama magni og Frú Ragnheiður og því hvetja þær Villimey Líf og Margrét Dís notendur að nýta sér þjónustu þeirra á kvöldin. Ylja er opin alla virka daga frá klukkan 10:00 til 16:00.

Staðsetningar Ylju eru breytilegar og er stöðugt unnið að því að finna staðsetningu sem hentar notendum sem allra best. Á daginn getur notandi haft samband í síma 774-2957 og fengið upplýsingar um staðsetningu bílsins.

Kostar 50. milljónir á ári

Lagabreytingar sem gerðar voru 5. júní 2020 eru grundvöllur þess að hægt er að reka neyslurými en þær fólu í sér heimild til sveitarfélaga um að koma á fót slíku rými. Eftir samþykkt lagabreytinganna hófust viðræður velferðarsviðs við Sjúkratryggingar Íslands og í kjölfar þess við Rauða krossinn um reksturinn, að fengnu starfsleyfi frá Embætti landlæknis.

Eftir að Embætti landlæknis gaf út starfsleyfi vegna rekstursins, og skal það tekið fram að  það er í fyrsta skipti sem slíkt leyfi hefur verið veitt, tók neyslurýmið til starfa, nánar tiltekið 10 mars á þessu ári. Neysluýmið er tilraunaverkefni til 1 árs og er ætlaður rekstrarkostnaður neyslurýmisins um 50. milljónir króna yfir árið sem greiðist af Sjúkratryggingum Íslands.

Þakklátar fyrir traustið

Í lok þáttarins tóku þær stöllur fram plastkassa sem innihélt hinn ýmsan búnað til neyslu á vímuefnum í æð. Mortel og hárnákvæma vog til að mæla magn þeirra efna sem notandinn dælir í sig. Svokallaða kúkkera og filtera til að blanda og gera efnin tilbúin til notkunar og svo síðast en ekki síst dælur sem fólk þekkir undir heitinu sprautur og nálar í mismunandi stærðum og gerðum allt eftir æðum og húð notandans.

Villimey Líf og Margrét Dís sem byrjuðu báðar sem sjálfboðaliðar hjá Frú Ragnheiði segjast finna fyrir þakklæti fyrir að fá að vinna við að þjónusta þennan hóp sem svo oft er litin hornauga af bæði öðru fólki og stofnunum. Þær segja að með kærleik og virðingu nái þær að mynda tengsl við notendur sem þeir annars finna ekki útí samfélagi sem framkallar enn meiri aðskilnað og þjáningu og að það sé alls ekki neinum til góðs. Lokaorð þeirra Villimeyjar og Margrétar voru þau að þær væru afar þakklátar fyrir það starf sem þær vinna: „Við værum ekki hér ef ekki væri fyrir notenduna, traustið sem við erum búnar að vinna okkur inn og við erum bara ótrúlega þakklátar fyrir það, af öllu hjarta. Það er kannski það eina sem við getum sagt,“ sagði Villimey Líf og Margrét Dís tók fullshugar undir.

Þetta upplýsandi og kraftmikla viðtal má hlusta á og horfa á spilaranum hér fyrir neðan ásamt að Þvottahúsið má finna á öllum helstu streymisveitum.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni