Ragga kallar ekki allt ömmu sína: „Þá kemur óhjákvæmilega á einhverjum tímapunkti herra Fokkit“

top augl

Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsið er engin annar en sálfræðingurinn, pistlahöfundurinn, einkaþjálfarinn og hlaðvarparinn Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli. 

Ragga nagli er kona sem hefur alltaf haft nóg fyrir stafni, mörg járn í eldinum á sama tíma. Hún talar um sig sem manneskju sem er full af krafti en með athyglisbrest sem lýsir sér þannig að hún á erfitt með að einbeita sér að einum hlut í einu. Hún kann best við sig í aðstæðum þar sem hún multitaskar með marga glugga opna á browsernum eins og hún orðar það.

Ragga Nagli
Ljósmynd: Aðsend

Með „urlandi“ athyglisbrest

„Ég er með urlandi athyglisbrest, ég loka aldrei skápum á eftir mér, ég loka engum hurðum, loka engu, ég fer bara úr fötum og þau eru bara á gólfinu, ég er bara draslari, ég er með 17 glugga opna í tölvunni minni, 18 word skjöl og það má ekki loka neinu því ég er að vinna í þessu öllu, svo já ég er með athyglisbrest,“ segir Ragga á fyrstu mínutu viðtalsins. 

„Ég meina, við komum inn á biðstofu hjá lækni og hvað gerum við, síminn. Sitjum í strætó, síminn. Heilinn er aldrei í pásu.Það er ekkert sem róar hjá okkur streitukerfið jafn hratt og þessi rólega útöndun.“

Ragga talaði um það hvernig var að alast upp á níunda áratugnum.

„Nú ólumst við upp í áttunni, þar var engin farsími, það var engin tölva. Pabbi minn kom bara heim úr vinnunni hjá Landsvirkjun kl. fimm og þá var ekkert hægt að ná í hann.“ Segir Ragga og bætir svo við, „Þá var hann bara búin að stimpla sig út og þá fór hann bara að leika við stelpurnar sínar, borða og svo bara tala við mömmu og svo eitthvað horft á sjónvarp og svo bara farið að sofa, hann var með ró eftir kl. fjögur, fimm á daginn.“

Fitness fór illa í hana

Ragga á sér langan feril innan heilsu og hreyfingar fór yfir með bræðrunum hvernig maður getur nálgast hinar ýmsu stefnur innan bæði næringar og hreyfingar.

Ragga vildi meina að þunn lína væri oft á milli þess að lifa heilbrigðum lífstíl og að detta í algjöra þráhyggju í þessum efnum. Í því samhengi minntist hún þess að þegar hún tók þátt í fitness hefði hún í raun dansað á jaðrinum hvað varðar átröskun. Hún sagði bræðrunum sögu af því þegar hún missti skífu á fótinn á sér rétt eftir fitness mót og braut á sér stórutá. Hún þurfti í kjölfarið að bíða heila átta tíma á bráðamótöku áður en hún komst að og fékk sína meðhöndlun. Hún fór að finna til hungurs og spurði í afgreiðslunni hvort ekki væri hægt að fá einhvern mat. Afgreiðslukonan bauð henni banana sem Ragga afþakkaði því í niðurskurðinum fyrir mót eru bananar skilgreindir fitandi. Hún sagðist hafa verið svo veik í rauninni að tábrotinn upp á spítala hefði hún frekar sleppt því að borða en að láta ofan í sig banana.

Ragga við æfingar
Ljósmynd: Aðsend

„2006/7 keppti ég í Fitness og það var ekki gott fyrir hausinn á mér. Það var ein svona öfga stefna, það var teljandi á fingrum annarar hvað maður mátti borða.“

„Hvað gerist þegar við erum í streytu, blóðþrystingurinn fer upp, blóðsykurinn fer upp. Lifrin losar glúkósa, allt blóðið fer úr maganum út í vöðvana því við erum að fara berjast. Þannig að ef við erum stöðugt í þessu kerfi þá getum við ímyndað okkur, það kemur háþrýstingur, allt of há blóðfita, alltof hár blóðsykur, við förum að fá sykursýki tvö, við fáum langvinna sjúkdóma,“ segir hún ennfremur.

Hinar og þessar matarvenjur

Talið barst að hinum og þessum matarvenjum, ketó, vegan og carnivore svo eitthvað sé nefnt. Ragga sagðist oft heyra af fólki sem snýst til þessarar öfgakenndu matarvenja í hálfgerðri örvæntingu og þá yfirleitt sem hluti af einskonar breytingar á útliti líkamans. Fólk snýst í einhverja átt þar sem einhver annar leggur reglurnar um hvað má og hvað má ekki, fólk helst við í einhvern tíma en svo bankar herra fokk it upp á og allt fer í fokk. Fólk springur á limminu og er allt í einu farið að borða út fyrir tiltekna matarvenju og þá í skömm og sekt yfir að hafa svikið málstaðinn eða þessa ákvörðun. Allar ákvarðanir hvað varðar hinar og þessar matarvenjur verða að vera á heiðarlegan hátt teknar eigin forsendum og rúmt til veggja verður að vera í þeim efnum vil Ragga meina. 

„Um leið og við sleppum kolvetnunum sem binda vökva í líkamanum pissum við út mikilli þyngd og við höldum að við erum að grennast en í rauninni erum við að missa mikla vatnsþyngd. Svo bætum við þessu á okkur aftur þegar kolvetnin koma aftur inn,“ segir Ragga varðandi Ketó og bætir við að karlmönnum gangi vel á Ketó. „En karlar til dæmis, þeir fúnkera rosa vel á Ketó, þetta er bara steik og bernese og eru bara ógeðslega sáttir.“

Ragga vill meina að það skipti máli hver ásetningurinn sé þegar fólk er að breyta matarræðinu.

„Hver er ásetningurinn? Er hann útlitsmiðaður, er hann frammistöðumiðaður, þetta skiptir máli. Flestir, örugglega 90% af þeim sem tileinka sér einhverskonar matvælastefnu eru að gera það í leit af einhverju öðru útliti.“

„Það sem að gerist óhjákvæmilega er að það kemur alltaf einhver rebelismi eða resistance í okkur, ég er ekki sjálf að taka ákvarðanir, mér finnst þessi matur ekki góður, þessi matur er ekki að næra sálina í mér og það er einhver annar sem stýrir mér og þá kemur óhjákvæmilega á einhverjum tímapunkti herra Fokkit,“ segir Ragga og er þá að tala um hinar og þessar matarvenjur sem kannski gætu flokkast sem öfgar í einhverja átt.

Manneskja í yfirþyngd getur verið heilbrigð

Sama gildir með hennar reynslu af hreyfingu, hún hafi oft í gegnum tíðina ofþjálfað sig en náð að pönkast í gegnum það á þrjóskunni en sé farin að eiga mun erfiðaðra með það í dag, hún segist einfaldlega ekki komst upp með það í dag. Þetta jafnvægi sem hún segir að sé nauðsynlegt að finna hvað varðar hreyfingar og næringu sé oft erfitt. Vegurinn sé mjór og það stutt á milli öfga að það sé nánast eins og að báðir heimar skarist oft á tíðum. Hver og einn verði að hlusta á líkamann og verði að gefa efninu rými til að hvíla í. Það að æfa mikið og reglulega segir hún að sé ekkert endilega neikvætt og þráhyggjutengt, allt fari þetta eftir ásetning og forsendum og því mikilvægt að hver og einn sé algjörlega heiðarleg/ur við sjálfan sig í þessum efnum.

Gunnar spurði hana hvort feit manneskja, og á þá við manneskju sem skilgreind er manneskja í yfirþyngd út frá einhverjum stöðlum, geti verið í heilbrigðri heilsuhegðun. Ragga sagði svo 100% vera, þessir staðlar séu alls ekki til að taka mikið mark á hvað það varðar. Greip þá Davíð inn og benti á að fólk geti verið allskonar og misþungt í þeim pundið, og sagðist vera nálægt 100 kg og einmitt einn af þeim sem myndi flokast sem þungur miðað við hæð. 

„Ef að manneskja sem er í yfirþyngd getur labbað upp stigann án þess að standa á öndinni, hún tekur kannski 3 poka og krakkann og labbar upp stigann og bara ekkert mál, þá er hún jafnvel í betra formi en sá sem er búin að koma sér í oft mjög mikla undirþyngd til þess að geta litið út á einhvern ákveðinn hátt„ sagði Ragna.

Djammið orðin mikil vinna fyrir konur

Gunnar hafði áhuga á að fara aðeins í mál sem snúa að meetoo með henni Röggu. Ragga skrifaði fyrir um ári síðan pistil vegna morðsins á Söru Everard þar sem hún varaði konur við hinu og þessu og skrifaði um hvernig konur virðast eiga það sameiginlegt að grípa til allskonar aðferða sem snúa að mögulegri sjálfsvörn gegn mögulegri árás sem þær geta átt í hættu að verða fyrir. Nefndi hún í því samhengi að ganga með lykil sem hálfgert hnúajárn, ekki vera með báða headphonana á sér á göngu, ferðast aðeins um undir ljósastaurum, þykjast vera í símanum og svo framvegis. Hún talaði einnig um nauðsyn þess að konur ættu að forðast hinar og þessar aðstæður sem og hina og þessa staði. Í því samhengi vildi Gunnar vita hvað henni fyndist um þær aðstæður sem skapast innan um fólk sem er að sljóvga dómgreind og færa mörk hað varðar hvatir og langanir með áfengi og eiturlyjum. Hann vildi vita hvort djammið myndi þá ekki flokkast sem einn af þessum hættulegu stöðum sem konur ættu að forðast. Ekki vildi nú Ragga meina það og sagði það vera mannréttindi að konur ættu að getað ferðast hvert sem er og gert hvað sem er án þess að eiga það í hættu að lenda í áras.

„Passaðu glasið þitt, haltu yfir, vertu með naglalakk sem breytir um lit er þú dýfir í glasið, drekktu úr flösku, passaðu að enginn komist nálægt drykknum þínum. Þetta er orðin svo mikil vinna fyrir okkur,“ segir Ragga. Davíð spyr hana hvað við getum gert og hún svarar að við getum byrjað á strákunum. „Þeir eru náttúrulega 99% gerendurnir en sem betur fer er 99% af strákum sem að haga sér vel gagnvart konum, bara kunna mörk og eru ekki að berja, nauðga og byrla.“ Hún bætir svo við: „Við þurfum kannski bara að koma með fræðslu inn í skólana, byrja miklu, miklu fyrr, förum inn á leikskólana, förum í meiri forvörn.”

Talið barst því næst að úræðum sem snúa að heilun fórnarlamba þeirra sem verða fyrir þessum brotum. Hvort það að gerandinn sé einfaldlega bara „outaður” eða „slaufaður” sé nóg. Gunnar spyr hvaða máli það skipti ef gerandi bara segi upp vinnunni sinni og hverfi af sjónarsviðinu. Er það bara nóg spyr hann Röggu eða þarf að eiga sér stað einhverskonar sáttamiðlun milli gerandans og þolandans og þá alltaf á forsendum þolandans? Ragga samsinnir því og segir að nauðsynlegt sé að hennar mati að gerandinn raunverulega sýni iðrun og gangist við sínu broti ef það hafi átt sér stað. Hún segir einnig að brotið sé aldrei hægt að réttlæta með neinum hætti en hleðslunni í grunninn sé hægt að breyta því í raun snúist allt um einhverskonar fyrirgefningu, standi hún til boða. Einnig að valdefling eigi sér stað í rústum þess ofbeldis sem hefur átt sér stað og skömminni skilað þangað sem hún í raun á heima.

„En þetta er erfitt og við viljum auðvitað ekki taka þessa drengi sem eru 99% af hópnum og einhvernveginn að blammera þá heldur frekar bara að valdefla þá og segja bara að svona gerum við. Það þarf að að útskýra fyrir þeim hverjar afleiðingarnar fyrir konu ef þú nauðgar henni eða ræðst á hana, áreitir hana kynferðislega. Hverjar afleiðingarnar eru fyrir hana. Ég sé bara þessar konur sem eru að stíga fram, sem eru ungar og gerendurnir oft bara mun eldri menn eins og nýleg dæmi sýna. En þessar konur og við snúum okkar aftur að snjallsímanum, þær alast upp með þennan plattform aðgengilegan og þær þekkja hann og kunna á hann. Segja hlutina upphátt og þetta, ég hef minn eigin miðil til að koma því á framfæri. Áður fyrr þurfti maður að hringja í útvarp eða dagblað og biðja um að eitthvað yrði birt, við höfðum ekki þennan aðgang.”

Hún bætir svo við. „Og þær vita, ok hver eru mörkin? Og hvenær ferðu yfir þau? Og hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi?”

Í þessari umræðu fór Gunnar á smá flug og sagðist halda að mikilvægt væri að hver og einn axli ábyrgð, sama hvort karlmaður myndi skilgreinast sem gerandi eða ekki verður að hann að axla ábyrgð. Hann nefndi í því samhengi ábyrgðina sem hvílir á þeim sem lifir heilbrigða karlmennsku og myndi kannski líta á sig sem út fyrir þessa geranda – þolanda jöfnu. Ábyrgðin sem hvílir á hinum heilbrigða snúi að upplýsingu, fræðslu og stuðning. Svo þar af leiðandi sé mikilvægt að taka sér skýra afstöðu gegn hverskonar ofbeldi, kynbundnu eða ekki og með árvökulu auga vaka yfir sínu nánasta umhverfi og vera tilbúinn að bregðast við ef þörf er á. Þessu samsinnti Ragga Nagli enda kallar hún ekki allt ömmu sína.

„Þeir segja, „má ekkert lengur? Það hefur aldrei mátt, við erum bara að láta vita af því núna! Þetta er búið að vera mikið hitamál í mörgum matarboðum, þar sem strákarnir eru bara, „ég meina hvað eigum við eiginlega að gera? Og það er bara að taka fulla ábyrgð. Það þýðir ekkert að koma með ef-afsökunarbeiðni. „Ég er rosa sorry EF ég hef sært einhvern.” Það er þolandans að fyrirgefa en það réttlætir ekki brotið, ég er ekki að segja að ég samþykki brotið eða segi að þetta sé í lagi en ég ákveð að fyrirgefa þér fyrir mig, ekki fyrir þig sem geranda heldur fyrir mig af því að þá líður mér betra, af því að þá er ég í meiri hugarró,” segir Ragga og það heyrist á henni að þetta er henni mjög hugleikið.

„Við viljum sjá að strákar séu hugrakkari inn í hópnum og segja , HEI GAUR, ÞETTA ER EKKI Í LAGI SKILIRÐU!”

 

Ekki má gleyma teygjunum
Ljósmynd: Aðsend


Andlegur þroski snýst um fólki í kringum mann

Í lokin spyr Gunnar hana Röggu hvort hafi einhver lokaorð sem gætu lýst því hvernig hún ræktar sinn andlega þroska.

„Mér finnst minn andlega þroski alltaf snúast um hvaða fólk ég er með í kringum mig, að umkringja mig fólki sem að nærir mig, fólki sem búa yfir einhverjum eiginleikum sem mér finnst vera ákjósanlegir og ég vil tileinka mér þá og reyna þannig einhvernveginn að vaxa í samskiptum og búa til meira bil á milli áreytis og viðbragðs. Þú veist að velja viðbrögð mín, í staðin fyrir að vera alltaf í þessu reaction þá frekar að vera response.”

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni