,,Þú ferð til New Orleans til að læra blús en til Íslands til að læra á íslenska hestinn“

top augl

Herbert Óskar Ólafsson, gjarnan þekktur sem Kóki, er gestur Spjallvina Guðna Ágústssonar að þessu sinni. Kóki á og rekur hestabúgarðinn Hrafnsholt norður af Hannover í Þýskalandi, hefur flutt út þúsundir hrossa auk þess að hafa stofnað fyrirtækið Top Reiter árið 1989 sem framleiðir enn reiðtygi og fatnað fyrir hestafólk.

Spurður að því hvort Þjóðverjarnir séu ekki orðnir magnaðir í að rækta íslenskan hest segir hann: „Jú, en þetta er eins og með blúsinn, maður fer til New Orleans til að læra blús en þú ferð til Íslands til að læra um íslenska hestamennsku og ræktun.“

Kóki telur að það þurfi meira ungt hestafólk til Evrópu því það verður að selja íslenska hestinn með kennslu „Okkur vantar meira ungt fólk til Evrópu sem þorir að leggja land undir fót og koma út og taka þátt í gleðinni og þessari uppbyggingu. Á besta tímanum vorum við sautján eða átján Íslendingar en þeim hefur fækkað töluvert mikið og það er ekki gott því við þurfum að vera með boðbera þarna úti og það er nóg að gera fyrir alla. Við erum að ríða erfiðasta hesti í heimi vegna þess að þessar fimm gangtegundir geta verið ruglingslegar ef maður kann ekki á það. Þess vegna vantar okkur þetta unga fólk út. Það er nóg af stöðum til að fara á og það myndi lyfta þessu ennþá hærra. Þetta er að ske allsstaðar í kringum okkur, þessir frábæru menn sem eru í Danmörku og Svíþjóð; allt í kringum þessa Íslendinga er líf og fjör og það er annað mat á hestunum og ræktuninni.“

Kóki hefur átt magnað lífshlaup. Ólst upp í vesturbænum sem KR-ingur, stofnaði hljómsveit með Berta Möller í Gaggó Vest, var í sveit í Vatnsdalnum hvar hann kynntist hestamennsku, gerðist húsgagnasmiður og var síðasti forstjóri húsgagnaverkstæðisins Valbjargar á Akureyri áður en hann flutti svo til Þýskalands.

Þegar Kóki ferðaðist fyrst til Þýskalands sem 17 ára piltur flaug hann með Loftleiðum til Lúxemborgar en þaðan þurfti hann að taka lest til Kölnar. Minnstu munaði að hann hefði misst af skiptistöðinni og þá endað austan við járntjald og fyrir vikið ákvað hann að sitja sem fastast á brautarpallinum og fylgjast vel með lestarferðunum svo hann tæki ekki ranga lest.

„Það komu margar lestir en ég fer ekki í neinar lestir fyrr en að ég sé lest sem á stendur Köln. Ég sit þarna allan daginn með töskuna en svolítið í burtu frá mér situr maður sem sýnilega er fótalaus og blindur og er að betla. Ég er búinn að taka eftir honum allan daginn og hann er búinn að fá mikil í dolluna því margir stoppa. En svo fer að líða á kvöldið og ég er ekki búinn að sjá neina lest sem á stendur bara Köln. Svo erum við bara eiginlega orðnir tveir eftir en þá lítur hann svona snöggt í kringum sig, tekur af sér gleraugun og hleypur í burtu. Þá var hann hvorki blindur né lamaður!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni