Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Ása missti manninn í sjóslysi en á von á barni 49 ára: „Ég átti bara eftir að faðma þig og kveðja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hún er 49 ára og á von á barni snemma á næsta ári; hún „ættleiddi“ fósturvísi í Lettlandi. Ása Dóra Finnbogadóttir grætur nú stundum af gleði en áður grét hún af sorg en hún missti sambýlismann sinn árið 2015 þegar hann drukknaði í sjóslysi. Hún missti fóstur gengin sjö mánuði á leið fyrir 20 árum og hún hefur misst marga nátengda sér, bæði fjölskyldumeðlimi og vini. Hún gekk á vegg eftir fráfall sambýlismannsins, upplifði kulnun, fékk hjálp meðal annars á Heilsustofnuninni í Hveragerði og hjá VIRK og segist hafa getað sleppt takinu á sambýlismanninum þegar hún gekk Jakobsveginn sem er um 800 kílómetra ganga.

Ása Dóra Finnbogadóttir er 49 ára og er komin 19 vikur á leið. Hún missti fóstur gengin sjö mánuði á leið fyrir 20 árum síðan með þáverandi sambýlismanni sínum. Hana dreymir um að verða móðir og er búin að gera nokkrar tilraunir til að verða ófrísk og var jafnvel orðin opin fyrir því að ættleiða barn. Hún fór í gegnum ferli hjá Barnaverndarstofu upp á að taka að sér fósturbarn, fékk jákvæða umsögn þar en var í raun ekki komin á nógu góðan stað eftir áfallið og ekkert varð úr því.

Ósk hennar rættist svo í vor þegar hún hélt til Riga í Lettlandi til að fara í glasafrjóvgun þar sem hún valdi þá leið að „ættleiða fósturvísi” eins og hún orðar það. Hún var búin að vera í þó nokkurn tíma á lista hér heima í von um að fá gjafaegg og fara í glasafrjóvgun en segir að í fyrstu hafi hún fengið synjun þar sem hún var í ofþyngd, var með of háan BMI-stuðul. Hún fór í magaermisaðgerð í fyrrahaust og hefur lést um 30 kíló en segir að hún hafi verið orðin of sein til að fá gefins egg hér á landi. „Ég grenjaði í tvo daga en svo benti læknir sem hafði verið mér til halds og trausts á konu sem hafði farið í frjósemismeðferð í Lettlandi og stakk hann upp á að ég færi þangað. Hún hafði samband við Medical Travel sem býður meðal annars upp á frjósemismeðferðir í samstarfi við frjósemisklínikina IVF Riga.“

Ása Dóra fór svo í lok maí til Riga þar sem hún fékk settan upp fósturvísi og varð ófrísk eftir fyrstu tilraun. Hún segir að hún hafi í raun ættleitt fósturvísi. „Par eða einhleyp kona hafði valið úr fjölda sæðis- og eggjagjafa, eignast þau börn sem þau eða hún þráðu og ákveðið að gefa þá fósturvísa sem umfram voru. Á Íslandi býðst þetta því miður ekki en í slíkum tilvikum er fósturvísunum eytt.“ Ása Dóra ákvað svo að taka frá annan fósturvísi ef til þess kæmi að þessi tilraun heppnaðist ekki eða ef svo vel tækist til með þá fyrri að hún tæki þá ákvörðun að eignast annað barn. Þess má geta að kynfrumurnar í þeim fósturvísi eru úr sömu aðilum og þeim sem settur var upp og yrðu börnin því alsystkini.

Hún segir að hún hafi í raun ættleitt fósturvísi.

„Ég vissi strax að þetta væri stelpa af því að fósturvísirinn var skimaður fyrir helstu erfðagöllum en ég mátti samt ekki vita það fyrr en eftir uppsetninguna hvort kynið þetta væri því ekki er leyfilegt að velja kyn.“ Ása Dór veit að konan og maðurinn sem gáfu kynfrumurnar eru bæði ljóshærð og með græn augu. Hún er um 1.60 m og hann um 1.80 m; hún segir að möguleikarnir hafi verið fjórir – fósturvísar úr fjórum sæðis- og eggjagjafapörum. Hún segist ekki hafa lagt mikið upp úr vali á útlitseinkennum þar sem eingöngu er hægt er að sjá fimm atriði: Hæð, þyngd, augn- og háralit ásamt blóðflokki. Þar sem hún hafði lengi séð fyrir sér að eignast hávaxinn mann þá varð því sá sem er 1.80 m og hæstur sæðisgjafanna fyrir valinu. Hún veit að gjafararnir eru frá Lettlandi,en hún segir að klínikin sé nú farin að nota kynfrumur úr fólki frá fleiri löndum.

Ása Dóra segir að hér á landi sé uppsetning á fósturvísi ekki leyfileg nema til 49 ára aldurs en í Lettlandi er miðað við 55 ár og jafnvel meira ef konan er hraust.

- Auglýsing -

„Ég hvet konur til að gefa egg eða að skoða það að gefa egg. Listinn sem ég var á hér heima mjakaðist varla en ég var á honum í eitt og hálft ár og var ennþá númer 28 þegar ég varð loksins nógu létt til að mega fara í meðferð – en þá var það of seint þar sem ég hefði aldrei náð að fá egg fyrir afmælisdaginn minn, 18.júní í sumar.“

Hún segir að meðgangan hafi gengið vel. „Ég er búin að vera mjög hraust fyrir utan að ég svaf mikið í nokkrar vikur og er núna fyrst að hressast og ég hef varla fundið fyrir ógleði. Ég hef hins vegar lést út af magaermisaðgerðinni sem þykir ekki vera æskilegt á meðgöngu. Svo þarf ég að passa upp á blóðsykurinn en ég fékk meðgöngusykursýki síðast.“

Ása Dóra segir að hér á landi sé uppsetning á fósturvísi ekki leyfileg nema til 49 ára aldurs en í Lettlandi er miðað við 55 ár og jafnvel meira ef konan er hraust.

- Auglýsing -

Magnús Björnsson

Ása Dóra fæddist og ólst upp á Dalvík. Fósturfaðir hennar lést þegar hún var níu ára og lést móðuramma hennar daginn sem hann var jarðaður. Móðir hennar flutti ári síðar með dætur sínar tvær til höfuðborgarinnar þar sem hún fór í nám þar sem mæðgurnar bjuggu í þrjú ár. Þaðan fluttu þær norður og lauk Ása Dóra síðustu þremur grunnskólaárunum í Varmarhlíð. Hún kláraði stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri og lauk síðar BS-prófi í landslagsarkitektúr/umhverfisskipulagi árið 2010 frá Landbúnaðarháskóla Íslands. „Þetta var rétt eftir hrun og þá var enginn að skipuleggja neitt í kringum sig. Ég ákvað þess vegna að kíkja á ferðabansann og fékk sumarvinnu á Bíldudal við að reka Skrímslasetrið.“

Hún kynntist ástinni sinni á Bíldudal. Hún heyrði mikið talað um Magga Björns áður en hún hitti hann fyrst. „Hann var brottfluttur Bíldælingur en greinilega mikið tengdur staðnum ennþá.“ Svo var haldið þorrablót veturinn 2011 og hún dansaði við Magga Björns. Hún varð skotin. „Við héldum reyndar bæði að hitt hefði engan áhuga og létum þar við sitja.“ Þau fóru svo að hittast í tengslum við vinnu hennar en hann hafði aðgang að flutningabíl vegna vinnu sinnar og aðstoðaði hana við að ná í aðföng fyrir fjölskylduhátíðina Bíldudals grænar sem haldin var um sumarið. „Hann var að hjálpa mér og ég bauð honum í kaffi og upp úr því bauð hann mér á deit.“

Við héldum reyndar bæði að hitt hefði engan áhuga og létum þar við sitja.

Hún segir að Magnús Björnsson hafi verið frábær maður. „Allir sem þekktu hann vita það”. Hann var svo mikill karakter. Hann var einhvern veginn svo mikill hluti af Bíldudal og Bíldudalur hluti af honum. Hann var svolítið af gamla skólanum; en alltaf á skemmtilegan hátt. Hann borðaði til dæmis sel og mikið af hangikjöti. Hann var líka rosalega duglegur og vildi allt fyrir alla gera. Börnin hans fjögur – ríkidæmið hans – áttu stóran hluta í hjarta hans og lífi.“

Þau náðu fjórum árum saman, sem Ásu fannst þó frekar eins og tuttugu ár, svo mikið brölluðu þau saman á þessum tíma. Magnús bjó á Selfossi fyrstu þrjú árin en flutti svo vestur í tengslum við vinnu og ástina og bjuggu þau þá saman í eitt ár „Áður en hann flutti vestur hittumst við stundum á miðri leið ef tækifæri var til þess.“

Ása Dóra Finnbogadóttir

Síðasta kveðjan

Júlímánuður árið 2015 var eins og júlímánuðir eru oft: Stundum sól. Og stundum dregur ský fyrir sólu þótt blíðskaparveður sé. Öldur hafsins geta verið svo sterkar að bátar fara niður.

Magnús fór nokkra túra þetta sumar og Ása Dóra var ósátt við það.

„Hann lagði af stað í enn einn túrinn á sunnudegi í blíðskaparveðri og ég hafði allt á hornum mér og var rosalega reið inni í mér yfir að hann væri að fara. Það var ekki endilega út af því að ég væri hrædd um hann heldur var svo mikið í gangi hjá okkur í sambandi við alls kyns framkvæmdir sem við stóðum í varðandi gistiheimili sem hann aðstoðaði mig við að koma upp og svo vildi ég bara hafa hann hjá mér.

Ég var því í rosa fýlu þegar hann var að fara til að fara á sjóinn, stóð úti og var að sópa stéttina fyrir framan húsið þar sem við bjuggum. Allt í einu snéri hann svo bílnum við og ók upp að húsinu og varð ég mjög hissa og spurði hvað væri nú í gangi. Hann kom upp tröppurnar og sagði: „Elskan mín, ég átti bara eftir að faðma þig og kveðja.“ Hann tók utan um mig og kvaddi mig en bætti svo við að hann hefði reyndar gleymt símahleðslutækinu sínu og var að ná í það. Ef ég hefði ekki þessa minningu eða upplifun þá hefði ég örugglega átt erfiðara ef ég hefði skilið við hann í reiði.“

Elskan mín, ég átti bara eftir að faðma þig og kveðja.

Þetta var nefnilega í síðasta skipti sem Ása Dóra sá og talaði við Magnús. Fiskibáturinn sem hann var á, Jón Hákon, sökk undan Aðalvík tveimur dögum síðar.

„Við rákum gistiheimili í bænum og daginn sem sjóslysið varð var ég að ganga frá eftir morgunmatinn þegar ég sá prestinn og lögreglustjórann koma inn, ég hélt þau væru að villast.“ Og Ásu Dóru var tilkynnt að Magnús hefði drukknað. „Sem betur fer fannst hann og náðist með bátnum sem bjargaði skipsfélögum hans þannig að við gátum kvatt hann og jarðað”.

 

Reiði, pirringur og viðkvæmni

Við tóku erfið ár.

„Mér fannst vera erfitt að vera komin í þau spor að vera konan sem missti manninn sinn í þessu litla þorpi.“

Þögn.

„Það er svo skrýtið hvaða tilfinningar koma upp við svona áfall og hvað maður bítur í sig”. Hún fór suður fyrir jarðarförina og keypti bláan kjól og gular sokkabuxur en Magnús var jarðaður í bláum jakkafötum og með gult bindi.

„Mig langaði svo til að vera rosalega fín til að sýna hvað Maggi átti sæta konu.“ Hún kímir. „Hann var 18 árum eldri en ég og þetta var einhver tilfinning sem ég upplifði.“

Lagið fallega „Ég er kominn heim“ var sungið í jarðarförinni og segir Ása Dóra að síðan eigi hún það til að bresta í grát þegar hún heyrir það sem og önnur lög sem voru þá spiluð og sungin. „Seinna um sumarið var ég á Fiskideginum mikla á Dalvík og ég fór að hágráta þegar lagið var sungið á meðan aðrir voru voða glaðir að syngja með.“

Það var fagur júlídagur þegar Jón Hákon fórst og segir Ása Dóra að stundum þegar er sól og blíða þá hellist yfir sig óþægindatilfinning.

„Ég fann strax fyrir miklum einmanaleika eftir að ég missti Magga, jafnvel þó ég væri í kringum fólk; mér fannst ég einhvern veginn alltaf vera ein sama hver var hjá mér. Svo fannst mér fólk fælast mig eftir að hann dó. Ég er í samtökunum Ljónshjarta sem er fyrir ungt fólk sem hefur misst maka og fleiri þar hafa upplifað þetta; það er eins og fólk sem hefur ekki upplifað sorgina forðist að tala um dauðann og viti ekki hvernig það á að vera í kringum þá sem hafa misst. Það er eins og það eigi svo erfitt með að nálgast mann. Mér fannst þetta mjög erfitt.“

Ég fann strax fyrir miklum einmanaleika eftir að ég missti Magga, jafnvel þó ég væri í kringum fólk; mér fannst ég einhvern veginn alltaf vera ein sama hver var hjá mér.

Hún talar um að hafa upplifað reiði sem hún fann fyrir eftir að Magnús dó sem hún segir að sé hluti af sorgarferlinu. „Ég fann líka stundum fyrir pirringi og það þurfti svo lítið til að pirra mig. Ég varð stundum brjáluð yfir minnstu hlutum. Svo varð ég stundum mjög viðkvæm og brast í grát liggur við hvar sem var.“

Ása Dóra fór í febrúar 2016 á heilsustofnunina í Hveragerði þar sem henni var farið að líða svo illa og þá um haustið ákvað hún að ganga Jakobsveginn á Spáni sem er um 800 kílómetra ganga. Í byrjun göngunnar á erfiðum kafla upp í Pýrenafjöllunum gekk hún hágrátandi í vindi og rigningu. Þar í spænskri náttúru náði hún að sleppa tökunum á Magnúsi. Hún segist þó hafa fundið fyrir návist hans á göngunni. Og það gerir hún enn þann dag í dag.

Eftir að heim kom keypti hún ein 600 hektara jörð í Svarfaðardal og kom upp heimagistingu í húsinu á jörðinni. Hún sem hafði gengið meira í Spánarferðinni en margur getur fór að líða æ verr þrátt fyrir dásamlegt umhverfi í norðlenskri náttúru. Hún upplifði líka þunglyndi. Og kulnun. Segist hafa lent á vegg. „Ég var þá stundum heima í náttfötunum og gerði ekki neitt. Ég var algerlega vanvirk og lá og grét. Mér fannst ég vera rosalega vanmáttug. Mér fannst ég ekki geta gert neitt. Ég var einhvern veginn lömuð. Ég gat ekkert gert nema það sem þurfti að gera; taka á móti gestunum, þrífa herbergin og gefa gestunum morgunmat. Þó ég ætti pening til að borga reikningana þá hafði ég mig ekki í það og lenti jafnvel í vanskilum út af því.“

Mér fannst ég ekki geta gert neitt. Ég var einhvern veginn lömuð.

Hún seldi jörðina og fór að vinna í Menningarhúsinu á Dalvík. Fyrst í fullri vinnu en svo í hlutastarfi. Ása Dóra var í ofþyngd og fékk pláss á Kristnesi til að reyna að létta sig en henni var gert ljóst að hún yrði að leggjast inn í fimm vikur vegna þess prógrams og varð það til þess að hún sætti sig við að hún gæti ekki haldið svona áfram, hætti í vinnunni og fékk síðan tilvísun í VIRK. „Með aðstoð starfsmanns þar fundum við leiðir til þess að láta mér líða betur. Ég fór til dæmis til sálfræðings og í sjúkraþjálfun og nudd en aðallega fékk ég tíma til að jafna mig í næði. Þetta virkaði mjög vel og smátt og smátt fór ég að braggast.“

Lífið tók að brosa við henni á ný.

 

Lífið getur verið æðislegt

Ása Dóra segir að fyrir síðustu jól hafi sér allt í einu fundist hún vera tilbúin til þess að taka aftur á móti hamingjunni í lífi sínu. „Það tók mig fimm og hálft ár að ná mér eftir fráfalls Magga af því að þegar hann dó þá einhvern veginn valt allt upp á yfirborðið sem ég hafði gengið í gegnum í lífinu alveg frá því ég var krakki; missir fjölskyldumeðlima og ættingja.

Ég er að eðlisfari jákvæð og bjartsýn og það held ég að hafi bjargað mér í gegnum allar þessar hremmingar. Það má segja að árin 2020 og 2021 séu búin að vera bestu ár ævi minnar. Mér hefur aldrei liðið jafnvel með sjálfa mig. Ég barðist við vanlíðan og þunglyndi af og til frá því ég var barn og ég held að áfallastreituröskun, eins og þetta er kallað, sé vanmetinn áhrifavaldur á heilsu þeirra sem lent hafa í áföllum í lífinu. Maður fór einhvern veginn í gegnum lífið á hnúunum og beit á jaxlinn þegar eitthvað kom fyrir og hélt áfram. Svo safnaðist þetta upp og þegar Magnús dó þá sprakk þetta einhvern veginn.“

Hún segist vera ótrúlega hamingjusöm í dag. „Það er allt búið að ganga upp sem mig langaði til að gerðist; nema kannski að eignast nýjan mann. Ég er ennþá ein. En ég er líka slök gagnvart því og held að hann birtist þegar minnst varir. Mér líður miklu betur með sjálfri mér heldur en ég hef gert hingað til þegar ég hef verið einhleyp – er sannarlega hamingjusöm, enda hef ég mikils að hlakka til þegar ég fæ dóttur mína í fangið.“

Ása Dóra segist oft finna fyrir Magnúsi eins og þegar hefur komið fram og hann hafi verið nálægur í gegnum frjósemisferlið og það sem af er meðgöngunnar. „Honum fannst dýrmætt að upplifa að eignast börn og vildi að ég upplifði það líka.“ Hún talar um stórar og heitar hendur hans sem hún segist fundið fyrir í jarðarförinni á bakinu á sér eins og hann væri að hugga hana og hún segist enn stundum finna fyrir þeim. Hlýjunni. „Ég finn stundum þennan hita á bakinu á mér, eins og hann leggi hendurnar þar; maður er  stundum svo skrýtinn.“ Hún kímir. „Ef ég er ekki viss hvort ég sé að gera rétt eða ekki og ef ég finn þessa tilfinningu þá finnst mér ég vera að gera rétt. Þegar maður upplifir svona mikla sorg þá koma upp alls konar skrýtnar tilfinningar.“

Hún segir að það sé óyfirstíganlega erfitt þegar fólk missir ástvin en að það sé mikilvægt að fólk nái að verða heilt aftur. „Það er ömurlegt þegar fólk er fast í sorginni alla ævi, bæði fyrir það sjálft og fólk í kringum það. Það er eitthvað sem ég ætlaði aldrei að láta gerast. Það er búið að vera miserfitt að komast í gegnum þetta en það hafðist. Eftir allar þessar hremmingar er mikilvægt að muna að það er líka til fegurð og að lífið getur verið æðislegt. Maður þarf svolítið að ákveða að verða hamingjusamur og að hlutirnir gangi vel. Það skiptir máli hvernig maður kemur sér út úr áföllum og hvernig maður höndlar þau,“ segir verðandi móðirin sem hefur undanfarna mánuði oft grátið úr gleði. Nýtt líf er á leiðinni. Litla dóttirin sem verður sennilega ljóshærð og með græn augu.

Það er búið að vera miserfitt að komast í gegnum þetta en það hafðist.

Ása Dóra Finnbogadóttir

Smelltu hér til að lesa allt um málið í brakandi fesku helgarblaði eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -