• Orðrómur

Ása varðveitir barnið í sjálfri sér: „Það á ekki að taka sig of alvarlega heldur njóta og gleðjast“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Námskeiðin Viðey Friðey, sem haldin voru í júní og ágúst í Viðey, voru samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur og Borgarsögusafns og haldin með stuðningi Barnamenningarsjóðs. Kennarar á námskeiðunum voru Ása Helga Ragnarsdóttir leiklistarkennari, Guðrún Gísladóttir, myndmennta- og smíðakennari, og Sara Riel myndlistarmaður. Stefnt er að því að halda sams konar námskeið næsta sumar.

„Þetta eru vikulöng námskeið fyrir börn á aldrinum sex til níu ára með áherslu á frið og skapandi starf í þessari mögnuðu náttúru sem er í Viðey,“ segir Ása Helga. „Námskeiðin voru haldin í gamla skólahúsinu sem hefur verið gert upp í anda gamla hússins þar sem eru meðal annars krítartöflur á veggjum.“

Ása Helga segir að námskeiðin séu þannig byggð upp að börnin séu að nema land í Viðey. „Þau eru landnemar og alla vikuna eru þau að skapa sína eigin eyju en unnið er út frá hugmyndafræði sem kallast „staðartengd útimenntun“ þar sem börnin kynnast eyjunni, hvernig hún var, hvernig hún er og hvað verður hægt að gera í framtíðinni. Það má eiginlega segja að við höfum verið að skapa hópkennd innan hópsins og ekki síst friðarvitund barnanna í gegnum listir og sköpun og þar með er talið leiklist, myndlist, tónlist og alls konar listræn úrvinnsla.“

Þetta eru vikulöng námskeið fyrir börn á aldrinum sex til níu ára með áherslu á frið og skapandi starf í þessari mögnuðu náttúru sem er í Viðey.

Ása Helga Ragnarsdóttir

Ása Helga segir að þetta sé ævintýri fyrir börnin sem sigla að morgni út í Viðey og fara aftur til baka seinni hluta dags. Hún talar um verkefni hvers dags.

„Þegar börnin ganga í átt að skólahúsinu á mánudeginum tína þau fjaðrir af mávum sem eru að fella fjaðrirnar á þessum tíma og búa til fjaðurpenna þegar þau koma í skólahúsið. Því næst byrja þau á að búa til sína eigin bók og færa inn dagbókarskrif jafnt og þétt alla vikuna. Þau skrifa að sjálfsögðu með fjaðurpennanum og bleki í bókina. Eftir hádegi fara þau niður í fjöru og tína skeljar og kuðunga og alls konar fjársjóði og síðan búa þau til listaverk úr feng sínum og kynna það. Í lok dagsins hengja þau hugmyndir sínar um frið á tré sem búið er að koma upp fyrir utan skólahúsið.

- Auglýsing -

Fyrir hádegi á þriðjudeginum mála börnin kort af Viðey og merkja inn markverða staði. Þau merkja einnig inn á kortið staðinn þar sem þau ætla að fela fjársjóðinn sinn á eyjunni en þau koma með smádót að heiman til að fela utandyra. Þau fara síðan í ratleik eftir hádegi til að kynnast eyjunni betur. Það er farið á sögufræga staði svo sem að Friðarsúlu Yoko Ono og það er glens og gleði á leiðinni.

Á miðvikudeginum safna börnin plöntum á leiðinni í skólahúsið og læra nöfnin á þeim í leiðinni. Sumar eru síðan pressaðar til að setja þær í bækurnar en aðrar eru geymdar þar til þau skreyta merki sitt. Næst er farið ofan í fjöru og við kveikjum eld og þar baka börnin sitt eigið brauð. Þau tína kúmen og blóðberg og þegar í skólahúsið er komið er hitað kúmen- eða blóðbergste fyrir þau sem það vilja. Börnin fara síðan í fjársjóðsleit. Eftir hádegi hanna þau sitt eigið merki úr sjálfharðnandi leir og svo eru þurrkaðar plöntur settar á merkin. Þau skrifa síðan skilaboð sem þau setja í flöskur og varpa síðan flöskuskeytunum í sjóinn þegar þau eru á leiðinni í land. Í flöskunum er friðarboðskapur.

Börnin semja sinn eigin leikþátt á fimmtudeginum og tengja hann við eyjuna og svo eru leikritin sýnd. Þau þæfa egg og búa til hreiður úr grasi. Að því loknu semja þau sinn eigin Viðeyjarsöng og búa til hljóðfæri úr pappakössum, steinum og snæri og lita síðan hljóðfærin. Að lokum er Viðeyjarsöngurinn æfður með hljóðfærum.

- Auglýsing -

Ása Helga Ragnarsdóttir

Börnin safna saman kúmeni í bréfpoka síðasta daginn til að færa foreldrum sínum. Þau fara í vermannaleiki, kynnast leikjum vermanna sem voru í verum. Svo skreyta þau hálsmen sín og grilla pylsur úti í hádeginu. Þá er það hljómsveitaræfing og síðan fara þau að búa til sinn eigin fána úr lérefti og þrykkja blóm á hann. Mikilvægt er að þau taki friðarboðskapinn með sér heim þannig að þau búa til sinn eigin friðarsáttmála sem þau undirrita en í honum kemur fram hvernig þau vilja hafa heiminn sinn. Síðan halda þau af stað í skrúðgöngu niður að bryggju með hljóðfærin, fánana, bækurnar, pennana og eggin. Það er mikil framleiðsla eftir vikuna. Þegar komið er á land úr ferjunni spila þau og syngja sitt eigið Viðeyjarlag fyrir foreldra sína sem standa á bryggjunni. Þetta er byggt upp á brjálæðislegri sköpun alla vikuna ef maður getur sagt svo.“

Farið var í ýmsa leiki þessa daga og segir Ása Helga að lögð hafi verið áhersla á leiki sem kölluðu ekki á keppni. „Það fannst okkur vera mikilvægt.“

Ása Helga segir að börnin séu almennt ánægð með námskeiðin og hafa sum þeirra sagt að þau ætli að fara aftur á námskeið næsta sumar. Mörg gullkornin hafa verið sögð.

„Við skoðuðum til dæmis Skúlagarð þar sem er verið að rækta ýmislegt. Jurt var að koma upp úr moldinni og þá sagði einn drengurinn: „Hér er að fæðast barn hjá þeim.“ Annar drengur var oft að sjúga puttann sem gerist stundum hjá krökkum. Þegar þau áttu að setja friðarósk sína á tréð þá kom hann til mín og bað mig um að koma með sér út í horn. Hann rétti mér þar kortið sitt og spurði hvort ég héldi að það væri allt í lagi að skrifa það sem þar stóð: „Kæra Yoko Ono, viltu hjálpa mér að hætta að sjúga puttann?“ Þetta var auðvitað einlæg spurning og dásamleg.“ Sorgin og áhyggjurnar fylgja mörgum í Covid-heimsfaraldrinum en svona ung börn þekkja Covid á sinn hátt með því að heyra um hann og hættuna sem af veirunni stafar. „Við vorum einu sinni að segja frá Skúla fógeta sem dó í eyjunni þegar hann var orðinn gamall maður. Þá spurði einn strákur hvort hann hafi dáið úr Covid. Skiljanlega. Þau eru svo rosalega í nútímanum.“

Þetta er byggt upp á brjálæðislegri sköpun alla vikuna ef maður getur sagt svo.

Ása Helga Ragnarsdóttir

Falin perla

Ása Helga segir að gleði barnanna við að fá að skapa og uppgötva sé eftirminnilegust eftir þessi námskeið. „Einkunnarorð námskeiðsins voru: „Ég get, ég skal, ég vil“. Börnin skelltu sér í hvert verkefnið á fætur öðru og hjálpuðust að þegar því var að skipta. Það sem skapaðist eftir vikuna var þessi vinátta á meðal barnanna en flest þekktust ekki neitt fyrir námskeiðin og þau skiptust sum á símanúmerum í lok námskeiðs. Þau voru bara svo glöð og það fannst mér vera svo gott. Mér fannst gaman að vera með krökkunum; þetta var auðvitað krefjandi af því að þau voru að skapa allan daginn og við vorum alltaf að en hugmyndirnar þyrluðust upp varðandi næsta sumar.“

Ása Helga segir að eftir sumarið þyki sér óumræðinlega vænt um Viðey. „Mér finnst þessi eyja vera dásamleg og hún þyrfti að komast meira inn í hug fólks. Hún má ekki gleymast og þess vegna þarf að halda sögu hennar á lofti. Það þarf að gera meira fyrir þessa eyju. Fólk ætti helst að fara á hverju sumri út í Viðey. Eyjan er svo spennandi og hefur upp á svo margt að bjóða bæði hvað varðar náttúru og sögu. Það tekur bara um fimm mínútur að sigla út í Viðey frá Skarfabakka.“

Ása Helga svarar játandi þegar hún er spurð hvort henni finnist hún vera komin í annan heim þegar hún er komin út í Viðey. „Það hverfur allt annað á meðan maður er þar. Það er einhver friðsæld yfir eyjunni sem maður fær beint í æð þegar maður kemur að bryggju. Fuglalífið er fjölbreytt og það er gaman að rölta þarna um og upplifa söguna svo sem með því að lesa textann á skiltum sem búið er að koma þar upp með upplýsingum meðal annars um húsin sem voru þar.“ Hún talar um listaverkin í Viðey en þar eru tvö útilistaverk eftir heimsþekkta listamenn; Áfangar eftir Richard Serra og Friðarsúlan eftir Yoko Ono. „Mér finnst alltaf þegar ég kem út í Viðey að ég þurfi að labba einn hring. Það er bara eitthvað við Viðey; ég get eiginlega ekki lýst því. Hún er bara svo dásamleg. Viðey er falin perla.“

Það er einhver friðsæld yfir eyjunni sem maður fær beint í æð þegar maður kemur að bryggju.

Ása Helga Ragnarsdóttir

Það á að njóta gleði

Ása Helga er leikari að mennt og vann árum saman við kennslu á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Þá hefur hún skrifað nokkrar bækur um kennsluaðferðir leiklistar og hvernig hægt er að nota leiklist í tengslum við námsefni.

Margir muna án efa eftir Ásu Helgu sem öðrum umsjónarmanni Stundarinnar okkar á árunum 1982-1985. Hinn umsjónarmaðurinn var Þorsteinn Marelsson. „Á þessum árum báðum við börnin um að vera kynnar; við vorum ekki í aðalhlutverki heldur börnin. Okkur fannst það mikilvægt.“ Karakterinn Elías, sem Sigurður Sigurjónsson lék, var áberandi í Stundinni okkar og segir Ása Helga hann hafa verið „ógeðslega fyndinn“. Að auki voru það Smjattpattarnir og Þórður húsvörður sem létu reglulega sjá sig.

Elías. Ása Helga er spurð hvað hafi verið eftirminnilegast varðandi hann. „Það var þegar hann var að ræða um hvað hann hafði fengið í jólagjöf. Hann sagði að Magga móða hefði gefið honum ullarnærbol sem stakk svo mikið að hann þurfti að taka hann upp með töngum.“

Þetta minnir á Jón Odd og Jón Bjarna sem Guðrún Helgadóttir gerði ógleymanlega en þeir voru ekki hrifnir af mjúkum pökkum frá frænku sinni. Ása Helga er spurð hvort hún gefi barnabörnunum sínum mjúka eða harða pakka. „Ég gef hvoru tveggja svo ég haldist áfram á vinsældalistanum,“ segir hún og hlær.

Ömmuhlutverkið er mikilvægt í huga Ásu Helgu. Hún fer oft í leiki með barnabörnunum og segir að fólk eigi að leika sér út lífið. „Það á ekki að taka sig allt of alvarlega. Það á að njóta og gleðjast.“

Varðveita barnið í sjálfum sér.

Hún segist varðveita barnið í sjálfri sér. Alltaf.

Hún er spurð hvort barnabörnunum finnist hún ekki vera æðisleg amma.

„Það veit ég ekki, vonandi, ég reyni að gera mikið með þeim. Ég er nýbúin að fara með þeim í þrjúbíó þar sem við sáum Walt Disney-mynd. Það var gaman.“

Og þau fengu sér popp og kók.

Það á ekki að taka sig allt of alvarlega. Það á að njóta og gleðjast.

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -