Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Baráttukonan Sólveig Anna Jónsdóttir: „Skólaganga gerði ekkert nema valda mér kvíða“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist hafa verið sérlundað barn. Skólinn heillaði hana ekki sem barn og ungling. Hún vildi fara sínar eigin leiðir og segist hafa verið jaðartípa og sýndi það með útliti sínu og atferli. Hún flosnaði úr námi eftir að hafa farið í þrjá framhaldsskóla, fór út á vinnumarkaðinn, varð móðir 21 árs og flutti örfárum árum síðar með ástinni í lífi sínu og tveimur börnum til Bandaríkjanna þar sem þau bjuggu í átta ár. Þau komu heim rétt fyrir hrun og tók Sólveig Anna virkan þátt í búsáhaldabyltingunni. Hjónin upplifðu miklar fjárhagsáhyggjur í nokkur ár og aktívístinn, sem vann á leikskóla í um áratug, bauð sig fram árið 2018 til formanns Eflingar og sigraði. Sólveig Anna vill láta laga kjör láglaunafólks og verkafólks og er í 4. sæti fyrir Sósíalista fyrir alþingiskosninganrar í haust.

 

Sólveig Anna Jónsdóttir er dóttir Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur og Jóns Múla Árnasonar sem bæði eru látin en stór hluti Íslendinga man eftir röddum þeirra í útvarpi landsmanna. Hún er eina barnið sem þau eignuðust saman en á hálfsystkini og segist því aldrei hafa upplifað sig sem einkabarn. „Ég er alltaf partur af mjög stórri fjölskyldu og ég upplifði hálfsystkini mín aldrei sem hálfsystkini heldur sem systkini mín.“

Hún segist hafa verið sérlundað barn. „Mamma mín sagði oft að ég væri mjög óráðþægin; það var hennar góða og blíða leið til að segja að ég væri óhlýðin. Þegar ég var búin að læra að lesa þá vildi ég nú helst bara fá að gera það í friði en mér fannst líka vera gaman að fara út að leika mér og ærslast. Ég hafði aldrei neinn áhuga á að vera í skipulögðu starfi svo sem skipulögðum íþróttum. Foreldrar mínir voru ekki hrifnir af fyrirbærum eins og skátunum svo dæmi sé tekið af því að þau voru náttúrlega kommúnistar og litu á skátana með mikilli tortryggni; að þar væri verið að kenna börnum borgaraleg gildi eins og hlýða og hugsa um guð og Jesú. Þannig að það var ekki mjög vinsælt; ekki þó að ég hafi sóst sérstaklega eftir því. Bernska mín var ánægjuleg en þegar ég varð unglingur þá tók við nýr kafli í lífi mínu. Mér fannst ekki vera gaman í skólanum og ég fúnkeraði ekki vel inni í skólakerfinu sem var svolítið einsleitt á þessum tíma og ekki mikið pláss fyrir einhverja sköpun eða einhverja „alternatíva“ sýn á lífið og tilveruna sem ég var þá orðin dálítið upptekin af. Sem unglingur upplifði ég mig dálitla jaðartípu en mér fannst það vera mjög töff og eftirsóknarvert og ég vildi með útliti mínu og atferli sýna það og sanna fyrir öllum að ég væri sannarlega jaðartípan sem mig dreymdi um að vera. Þessu fylgdu engir hræðilegir erfiðleikar eða mjög mikið uppnám. Ég bar mikla virðingu fyrir foreldrum mínum þannig að ég reyndi alltaf að láta vita af mér og koma heim og vera að einhverju leyti góð stúlka. En auðvitað hélt ég leyndu fyrir þeim mjög stórum parti af minni frekar hömlulausu unglingatilveru.“

 

Sem unglingur upplifði ég mig dálitla jaðartípu

 

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir

 

„Gothy look“

- Auglýsing -

Sólveig Anna fór í þrjá framhaldsskóla á þremur árum og flosnaði upp úr námi áður en að stúdentsprófi kom.

„Þegar kom að því að fara í framhaldsskóla var ég orðin svo rosalega afhuga skólagöngu og skólakerfinu svo að tilhugsunin um að fara í nám var ekki lengur raunverulegur valkostur fyrir mér. Ég var samt ekki með neitt annað plan í staðinn. Ég var eiginlega búin að lesa of mikið af skáldsögum þannig að ég var með mjög ríkulegar hugmyndir um eitthvað rosalega innihaldsríkt ævintýralíf sem hlyti að vera einhvers staðar í boði. Og mér fannst allir skólarnir vera jafn ógeðslega leiðinlegir. Skólaganga gerði ekkert nema valda mér kvíða og leiðindum. Ég reyndi ekki einu sinni að leggja mig fram. Ég gat ekki fúnkerað inni í framhaldsskólakerfinu.“

Hún fór að sækjast í partí og að skemmta sér.

„Mér fannst bara allt fólk sem var eitthvað öðruvísi og ekki partur af einhverri smáborgarlegri tilveru vera mest töff fólkið. Og ég vildi einhvern veginn „signalera“ til samfélagsins að ég sannarlega ætlaði að vera ein af þeim þannig að það var markvisst verkefni hjá mér að klæða mig og líta svoleiðis út. Það mátti enginn vafi leika á því að ég væri ekki einhver hversdagsleg stelpa úr Fossvoginum heldur svakalega töff.“

Hún segist hafa litað hárið á sér svart og lagt áherslu á að vera með mjög hvíta húð.

„Ég var bara mjög „experimental“ í útliti. Þegar ég var unglingur þá var hugtakið „goth“ ekki komið til Íslands eða allavega náði það ekki til mín en auðvitað var þetta mjög „gothy look“ án þess þó að ég hafi nokkurn tímann skilgreint mig sem „goth“ af því að ég vissi einfaldlega ekki hvað það var.“

Hvernig var fatastíllinn?

„Blanda af pönk-uppreisnartilraunamennsku með goth-ívafi með það mjög einbeitta markmið að vera eins einstök í útliti og hægt var að hugsa sér. Þessi þörf fyrir að skera mig úr sem jaðartípa var væntanlega sökum bæði persónuleika míns og fjölskylduaðstæðna. Ég átti pabba sem var miklu eldri en mamma mín, ég átti foreldra sem voru eldri en foreldrar vina minna, foreldra sem voru yfirlýstir kommúnistar og fólk vissi hverjir þau voru þannig að þetta var allt saman svolítið öðruvísi. Ég hef kannski tekið þá ákvörðun að þá væri bara alveg jafngott að vera bara alls ekki á neinn hátt að reyna að samlagast, heldur þvert á móti taka þetta bara skrefinu lengra.

Ég var mjög sólgin í að lenda í því sem ég upplifði sem ævintýri. Og unglingur sem er sólginn í að lenda í ævintýrum hefur náttúrlega eina mjög auðvelda leið til þess. Og það er að komast í partí og gera svoleiðis spennandi hluti. Mér fannst það vera mjög skemmtilegt og það var stór partur af unglingalífi mínu.“

Var drukkið of mikið?

„Ég djammaði mjög markvisst. Ég var mjög upptekin af því. Þar upplifði ég vissa útrás fyrir ýmsa hegðun sem mig langaði til þess að ástunda. Og eins og þau sem hafa djammað vita þá leyfist ýmis hegðun og ýmsir hlutir sem leyfast ekki í hversdagslegri tilveru.“

 

Ég djammaði mjög markvisst.

 

Rasisminn og stéttaskiptingin

16 ára gömul byrjaði Sólveig Anna með stráki, Magnúsi Sveini Helgasyni.

„Hann var líka áhugamaður um öðruvísi útlit. Mér fannst hann bara vera ógeðslega töff og sætur. Það var mjög einfalt. Mér fannst hann vera rosalega smart, í ógeðslega flottum fötum og með geggjað töff hár. Þetta er mjög yfirborðskennt og útlitsmiðað.“

Hún hlær.

„Þetta var stormasamt unglingasamband. Við hættum að vera saman þegar ég var 18 eða 19 ára og svo byrjuðum við aftur saman þegar ég var búin að eignast son minn, Jón Múla, þegar ég var 21 árs. Hann var þá alveg nýfæddur. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa eignast son minn svona ung vegna þess að það gaf mér þetta „stabílitet“ og jarðtengingu sem ég sannarlega þurfti mjög mikið á að halda. Og það að hafa svona stórt verkefni sem var bara mitt og sem ég gat ekki dömpað á einhvern annan og hafði engan áhuga á að losa mig undan gerði mér á endanum fært að stíga inn í raunverulega fullorðinstilveru sem var mjög gott og tímabært.“

 

Sólveig Anna Jónsdóttir

Sólveig Anna fór út á vinnumarkaðinn þegar hún hætti í þriðja framhaldsskólanum 19 ára og fór að vinna á skrifstofu. Hún og Magnús eignuðst svo dóttur, Guðnýju Margréti, þegar Jón Múli var þriggja ára og fluttu þau svo til Bandaríkjanna árið 2000 og bjuggu þar í átta ár en þar var Magnús í námi.

„Það var mjög áhugaverður tími og ótrúlega mikið mótandi. Við bjuggum í Minnesota sem er fylki sem er mjög upptekið af sínum skandinavíska arfi þannig að við sem Íslendingar upplifðum í raun það besta sem þetta samfélag getur boðið upp á. Við vorum með tvö lítil börn og tími minn fór fyrstu árin mikið í að sinna þeim og eftir nokkur ár fór ég í hlutastarf í verslun. Bandaríkin eru samfélag sem er oft mjög upptekið af hefðbundnum gildum og ég prófaði að gera það sem mæður barna á skólaaldri eiga helst að gera sem er að stunda sjálfboðaliðastörf innan skólakerfisins. Þetta var mjög góður tími persónulega fyrir mig. Ég hafði mikla unun af að vera með börnunum mínum og það var líka mjög gott fyrir mig að fá mikinn tíma til þess að kynnast sjálfri mér. Þannig að persónulega var þetta að mörgu leyti mjög jákvæður og mótandi tími.“

Hún segir að þetta hafi líka verið mótandi tími út frá pólitísku sjónarhorni.

„Ég sá með eigin augum rasismann, stéttaskiptinguna og blóðþorstann í stríðsæsingafólkinu en Bandaríkin stóðu í sínum glæpsamlegu innrásarstríðum í Afganistan og Írak. Ég heyrði Bandaríkjamenn tala um að Bandaríkin væru einhvern veginn æðsta yfirvald allrar veraldarinnar; ég lærði mikið um þetta rasíska og kapítalíska samfélag. Ég sá hvað kerfislægur sadismi er innbyggður í þennan brútal kapítalisma og hversu þetta kerfi þarf algjörlega á kúgun og ofbeldi að halda til að virka. Hversu mikið þetta kerfi byggir á lygum, markvissum lygum, algjörlega hömlulausum. Og svo sá ég algert skeytingarleysi gagnvart hagsmunum vinnandi fólks þar sem fátækt verkafólk virtist vera bókstaklega einskis virði og sem hægt var að koma fram við eins og eitthvað rusl. Manneskja sem hefur farið inn í þetta kerfi, séð það og upplifað og lagt sig fram um að skilja það kemur ekki óbreytt út úr því. Mér fannst ég líka bera ríka siðferðislega skyldu til að reyna að skilja þetta samfélag, fræðast um það og vera ekki bara þarna sem einhver hvít afætukona á þessu brútal, rasíska arðránskerfi bara komin til að njóta alls þess besta. Ég tók þetta verkefni mjög alvarlega, eyddi tíma og orku í að fræðast og fylgjast með fréttum og smám saman sá ég hvernig alþýða fólks átti bókstaklega engan séns og hvernig allt var gert til að halda henni niðri. Og á sama tíma voru óendanlega miklir fjármunir settir í að myrða með sprengjum saklaust fólk í fjarlægum löndum. Þetta lét mig held ég endanlega fullorðnast.“

 

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa eignast son minn svona ung .

 

Ógeðslega ömurlegt ástand

Allt var á suðupunkti árið 2008 og flutti fjölskyldan heim nokkrum mánuðum áður en Geir H. Haarde bað Guð um að blessa Ísland.

Hrunið var staðreynd.

Magnús fékk vinnu sem blaðamaður og Sólveig Anna hóf störf í leikskóla. Svo missti Magnús vinnuna og miklir fjárhagserfiðleikar tóku við eins og hjá svo mörgum á þessum tíma. Sólveig Anna tók virkan þátt í búsáhaldabyltingunni þar sem fólk sló á potta og pönnur.

„Ég lifði mig mikið inn í og tók þátt í þessari alþýðuuppreisn sem hefur verið kölluð búsáhaldabyltingin. Það hafði að sjálfsögðu mikil áhrif. Og þar hófst næsti partur lífs míns þar sem ég fékk annars vegar á eigin skinni að reyna alveg rosalega fjárhagserfiðleika og hins vegar lærði ég að vera aktívisti. Ég var að upplifa þá sorg sem fylgir því að reyna að sjá fyrir tveimur börnum undir mjög miklu fjárhagslegu álagi. Það er mikil þrekraun eins og þau vita sem það hafa reynt. Maður vill veita börnunum það sem manni finnst þau eiga rétt á en þarf svo einhvern veginn að lifa hverja einustu stund með þennan skugga fjárhagsáhyggjanna hangandi yfir. Það grefur auðvitað undan geðheilsu og lífshamingju fólks sem er sett í þá stöðu. Og á sama tíma var ég svo að upplifa ótrúlega skemmtilega, merkilega, ævintýralega og magnaða hluti með því að taka þátt í búsáhaldabyltingunni; með því að taka þátt í alls konar aðgerðum, með því að kynnast fólki og með því að sjá að fólk var fært um alls konar merkilega hluti, fólk sem var hugrakkt, róttækt og djarft. Þetta var mjög skrýtinn tími, bæði mjög erfiður og sorglegur en jafnframt sjúklega skemmtilegur og spennandi.

Ég leitaði kannski svolítið skjóls í aktívismanum en það skipti mig svo miklu máli að komast burt frá þessu erfiða amstri hversdagsleikans þar sem ég var að vinna vinnu sem mér sannarlega þótti vænt um en sem var líka andlega og líkamlega lýjandi og erfið. Og svo var ég bara undir þessum skugga fjárhagserfiðleikanna og þess vegna sótti ég mjög markvisst í aktívismann. Hann varð kannski mín núvitundartilraun. Inni í aktívismanum getur maður komist inn í raunverulegt núvitundarmóment. Á svoleiðis tímapunkti skilur maður einhvern veginn allt hitt eftir og fær að lifa um stund frjáls undan því sem annars hefur öll tök á tilverunni. Ég er allavega mjög ánægð með að ég hafði þennan stað til þess að fara á og ég gat fengið útrás og umbun fyrir að vera eitthvað meira en bara manneskja sem átti ekki krónu með gati og var alltaf með áhyggjur.“

 

Og svo var ég bara undir þessum skugga fjárhagserfiðleikanna .

 

Og ég var ofsalega reið

Árin liðu. Lífið gekk sinn vanagang. Sólveig Anna sinnti starfi sínu á leikskólanum, vann um tíma jafnframt í verslun til að auka tekjurnar og sinnti ýmsum aktívisma meðal annars með Attac á Íslandi, No Borders og Róttæka sumarháskólanum. „Það var í gegnum aktívisma sem þekking byggðist upp hjá mér, reynsla og auðvitað alltaf meiri og meiri löngun til þess að breyta þessu samfélagi sem ég upplifði og upplifi sem kúgunarsamfélag byggt á ógeðslega brútal stigveldi.

Ég varð fyrir vissri hugljómun þegar ég var búin að vinna í nokkur ár á leikskólanum. Ég vona að þetta hljómi ekki ótrúverðugt af því að þetta er sannleikurinn en ég áttaði mig á því að ég væri raunverulega viðfang rosalega ógeðslegs kvenfyrirlitningarkerfis sem samt var algjör grundvöllur þessa mikla kvenfrelsis sem Íslendingar eru mjög stoltir af; þessarar miklu atvinnuþátttöku kvenna til jafns við karla. Ég sá að leikskólarnir voru undirstaðan en engu að síður voru þar lægst launuðustu hópar samfélagsins að störfum. Ég fór mikið að pæla í stöðu láglaunakvenna í kapítalísku samfélagi sem byggir markvisst á gildum kvennakúgunarinnar; hefðbundin kvennastörf við umönnun barna og gamals fólks eru svo lítils virði að ekki aðeins eru þau svo illa launuð að það getur verið þrekraun að komast af á þeim heldur erum við jafnframt með öllu ósýnilegar þrátt fyrir að halda öllu gangandi. Það er enginn sem virðir okkur viðlits, við erum aldrei ávarpaðar og það er enginn sem spyr okkur hvernig við höfum það. Við augljóslega fáum aldrei neitt þakklæti. Við erum bara algerlega á botninum. Og ég fylltist alveg rosalega miklu ógeði og andúð á þessari tryllingslegu samfélagslegu hræsni sem ég upplifði þarna mjög sterkt. Ég vann með konum alls staðar að úr heiminum, frábærum manneskjum sem stóðu sína plikt með alla sína reynslu, kunnáttu og þekkingu. Þær voru algerlega ómissandi í þessu gangverki og ég sá sjálfa mig sem algerlega ómissandi en ég sá líka að enginn hafði áhuga á okkur. Og ég varð alveg ofsalega reið. Þessi sjálfsupphafning um Ísland sem einhverja bestu kvennaparadísina í öllum heiminum fyllti mig andúð og ég hugsaði um að þessu þyrfti að breyta. Ég var samt ekki með markvissar hugmyndir um hvernig ætti að gera það en ég fór að velta þessu mikið fyrir mér og fór að reyna að greina þetta ástand og skilja. Þetta ofurarðrán á vinnuaflinu sem endurframleiðir samfélagið varð miðpunkturinn í analísu minni á kapítalísku samfélagi. Ég fór að skoða marxískar kenningar um félagslega endurframleiðslu. Ég sá þennan sannleika með svo ótrúlega skýrum hætti. Og ég upplifði að samfélag sem lætur ofurarðrán viðgangast á þessu ómissandi vinnuafli er samfélag sem verður sjálfu sér til háborinnar skammar.“

Og Sólveig Anna Jónsdóttir ákvað að bjóða sig fram til formanns Eflingar árið 2018. Og hún sigraði.

 

Og ég fylltist alveg rosalega miklu ógeði og andúð á þessari tryllingslegu samfélagslegu hræsni.

 

Íslendingar um helmingur félagsmanna

Sólveig Anna segist vera stolt af því sem hún og stjórn Eflingar hafa áorkað.

„Við höfum ekki aðeins sýnt og sannað að verkafólk er tilbúið til þess að beita verkfallsvopninu með mjög árangursríkum hætti heldur höfum við gert þetta öflugasta vopn vinnuaflsins að einhverju sem allir skilja núna að raunverulega virkar. Verkföll félagsfólks Eflingar skiluðu lífskjarasamningnum. Og ef Eflingakonur í umönnuarstörfum hefðu ekki sýnt þetta ótrúlega hugrekki og þessa dirfsku í verkföllunum hjá Reykjavíkurborg og hjá sveitarfélögum þá hefðum við aldrei náð þar í gegn leiðréttingunni á sögulega vanmetnum kvennastörfum. Og með því að gera allt þetta lærðum við og kenndum okkur sjálfum svo ótrúlega margt sem hafði verið látið gleymast í íslenskri verkalýðsbaráttu. En við höfum líka breytt því hvernig Efling þjónustar sitt félagsfólk. Á skrifstofum félagsins eru nú töluð sex tungumál. Heimasíðan og „mínar síður“ eru á íslensku, ensku og pólsku. Ég fyllyrði að við erum komin algjörlega í fremstu röð á Íslandi í að veita þeim sem eiga rétt á þjónustu félagsins aðgang að henni á þeirra forsendum. Við túlkum einnig alla fundi sem við höldum, ýmist á ensku eða íslensku, eftir þörfum. Og við höfum unnið magnað frumkvöðlastarf í íslenskri verkalýðshreyfingu með því að sýna og sanna að verkafólk sem er fætt á Íslandi og aðflutt verkafólk getur og á að starfa saman hlið við hlið í baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti.“

Sólveig Anna segir að nú séu um 26.000 félagsmenn í Eflingu en þeim fækkaði vegna heimsfaraldursins. Kynjaskiptingin er nokkuð jöfn og eru Íslendingar um helmingur félagsmanna. Pólverjar eru fjölmennasti hópur útlendinga í félaginu. Sólveig Anna segir að grunnlaun fyrir verkafólk sé um það bil 362.000 krónur. „Almennt starfsfólk á hótelum er með 1939 krónur á tímann í dagvinnu. Manneskja sem vinnur í eldhúsi er með 331.735  á mánuði. Það sama gildir um iðnverkafólk.“

 

Kynjaskiptingin er nokkuð jöfn og eru Íslendingar um helmingur félagsmanna.

 

Í 4. sæti

Sólveig Anna er í 4. sæti á lista Sósíalista í Reykjavík Norður fyrir alþingiskosningarnar í haust.

„Ég hef verið í Sósíalistaflokknum frá upphafi. Og þegar félagar mínir í flokknum leituðu til mín og spurðu hvort ég væri tilbúin til að gefa kost á mér þá sagði ég að sjálfsögðu svo vera. Ég trúi því að það sé algert lykilatriði að til verði stjórnmálahreyfing sem er fær um að berjast fyrir því sem ég hef hér verið að fara yfir. Vinnuaflið þarf að eiga fulltrúa og við þurfum að hafa aðgang að völdum alls staðar í samfélaginu. Það er á endanum lykillinn að því að við getum komist út úr þessu fáránlega ástandi sem hér hefur verið látið viðgangast. Ég vona af öllu hjarta að Sósíalistaflokkurinn nái góðri kosningu og ég hef fulla trú á því. Þegar ég skoða þá lista sem birtir hafa verið þá tel ég að flokkurinn hafi stigið það mikilvæga skref að geta sýnt og sannað að hann eigi fullt erindi.“

Sólveig Anna ætlar að halda áfram sem formaður Eflingar enda segist hún ekki eiga von á því að fara á þing þar sem hún er í 4. sæti. „Ég mun þó auðvitað taka þátt í kosningabaráttunni með því að halda áfram að tala máli verkafólks og halda áfram að draga upp skýra og sanna mynd af aðstæðum vinnandi fólks á Íslandi. Það er hlutverk mitt í þessari kosningabaráttu og ég vona að ég geti sinnt því af heiðarleika og með markvissum hætti.“

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -