Fimmtudagur 28. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Brynjar hefur gaman að kjaftforum körlum: „Samfélagsmiðlar eru að drepa kímnigáfu þjóðarinnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er nauðsynlegt að slá á létta strengi reglulega til að brjóta hlutina upp. Við lifum aftur á móti í samfélagi þar sem fólk er sífellt að móðgast fyrir hönd sjálfs síns eða einhverra hópa, það virðast allir skilgreina sig sem hluta af einhverjum hóp,“ segir Brynjar Níelsson alþingismaður. Hann hefur staðið í eldlínunni á Facebook þar sem ritdeilur hans og Bubba Morthens tónlistarmanns í kjölfar Samherjamálsins hafa hlotið mikla athygli.

„Ég hef miklar áhyggjur af því að samfélagsmiðlar sé að drepa kímingáfu þjóðarinnar. Það má lítið segja án þess að einhverjum misbjóði. Í dag er öruggast að gera ekki grín að neinum nema sjálfum sér. Og jafnvel það getur móðgað einhvern. Þetta er ekki góð þróun, við eigum öll eftir að enda inni á deild. Og ég í einhverju gúlagi.”

Menningarelítan rýkur í vörn

Bubbi skýtur föstum skotum og Brynjar skýtur á móti. Lesendur geta ekki varist því að fá á tilfinninguna að honum finnist það ekki leiðinlegt. „Jú, ég hef nú gaman af þessu. Það má oft draga það klaufalegasta fram í fari fólks. Menningarelítan rýkur alltaf í vörn fyrir sinn mann í stað þess að kynna sér málin og áður en maður veit af er farið að rífast um hver sé góður eða vondur í stað þess að líta á staðreyndir mála. Þar talar minn innri ferkantaði lögræðingur. En ég mátti svo sem eiga von á þessu, þetta er vandmeðfarin miðill, umræðan fer út um allt og kannski eru ekki allir að skilja kaldhæðni. Ég er fyrir löngu búinn að missa alla stjórn á þessu.“

Brynjar segir sig hafa lítinn húmor fræga fólkinu þegar það fari að tjá sig um hluti sem það hafi ekki þekkingu á né hafi sett sig inn í. „Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Ég hef reyndar alltaf haft gaman að kjaftforum mönnum eins og Bubba og stundum hittir hann naglann á höfuðið. Við höfum hist og það fór vel á með okkur þótt leitun sé að ólíkari mönnum.“

Hann segir það hvimleitt þegar þekkt fólk hrauni yfir aðra um mál sem það hafi ekki vit á. „Bubbi kallar fólk glæpamenn, ásakar það um peningaþvætti og hneykslast yfir þögn þingmanna. Rétt og rangt er hætt að skipta máli. Bubbi veit álíka mikið um peningaþvætti og ég veit um tónlist. Og ekki er ég að tjá mig um tónlist.”

- Auglýsing -

Engin tengsl við Samherja

Brynjar segist engin tengsl hafa við Samherja og þekki þar ekki nokkurn mann. „Sem stjórnmálamaður ber ég hag fyrirtækjanna í landinu fyrir brjósti. Það eru þau sem skapa hér verðmæti og atvinnu. Sú niðurstaða liggur fyrir í þessum málum öllum, hvort sem um er að ræða DNB bankamálið, verðlagsmálið eða skattsvikamálið, að ásakanir eigi ekki við. Svo berast fréttir frá Namibíu um að engir Íslendingar verði ákærðir þar en þetta fjallar enginn um. Það stóð aldrei steinn yfir steini í þessum ásökunum.

Aftur á móti fer Samherji í myndbandsgerð til varnar ásökunum og það verður óskaplegt hneyksli. Ég er ekki að leggja dóm á hvort það hafi verið rétt eða röng ákvörðun en öll umræðan fer út og suður, hver sé góður eða vondur, ríkur eða fátækur.“

- Auglýsing -

Sumir háðir sóttvörnum

Samtalið snýst að sóttvörnum og afléttingaráætlun stjórnvalda. „Þetta er raunhæf áætlun. Við erum komin það langt að við getum ekki leyft okkur takmarkanir. Ég vildi alltaf slaka á í samræmi við hraða bólusetninga og fannst fullmikið að banna til að mynda alla íþróttaleiki og tónleika. Það er alveg eins hægt að smitast úti í búð eða við gosstöðvar, það þarf bara einn, algjörlega burtséð frá hvað eru margir samankomnir.

Svo getur vel verið að sumir séu orðnir háðir þessu, hvað veit maður? Inga Sæland vill hafa alla þjóðina lokaði inn í Egilshöll, sitt sýnist hverjum. En mér hefur alltaf fundist nauðsynlegt að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er og fara að lögum.“

Fólk fer að slá um sig

Brynjar neitar því ekki að það sé kominn í hann kosningafiðringur. „Nú fer fólk að slá um sig, vera með stæla og tala um hvað við Sigga Andersen höfum verið vond við fólk í Covid. En það verður að hafa gaman af því ekki situr maður undir einhverju skemmtiefni alla daga hér í þinginu. Hér eru ekki margar tímamótaræður haldnar get ég sagt þér.

Hann telur Sjálfstæðisflokkin eiga mikið inni. „Við erum með trúverðuga stefnu í atvinnulífinu. Nú verða allir að standa saman, jafnvel enn þéttar en í sóttvarnaraðgerðum. Hér er komið langtímaatvinnuleysi sem við erum ekki vön og það hefur kennt okkur að það má lítið út af bregða. Stærsta velferðarmálið er að allir sem geta og vilja vinna geti fengið atvinnu.

Brynjar fór til Spánar um páskana eins og frægt var orðið þar sem hann kveðst hafa kynnt nýjustu tísku í sokkum. „Þar hitti ég mikið af fólki sem annaðhvort var atvinnulaust eða í íhlaupavinnum, sérstaklega ungt fólk en atvinnuleysi þar hefur verið um 25% meðal þess hóps frá því fyrir hrun. Það er ekkert skaðlegra fyrir samfélag en þegar að stór hluti er án atvinnu, berst sífellt í bökkum og er ekki almennilegur þáttakandi í samfélaginu.“

Grínið heldur lífi í hjónabandinu

Aðspurður um hvað hann geri í frístundum annað en að skrifa færslur sem hrista upp í fólki segist Brynjar vera þekktur letingi. „Ég er reyndar heltekinn af golfi eins og margir miðaldra karla og konur. Þetta er ekki bara heilbrigð hreyfing og keppni heldur fær maður allt slúðrið beint í æð. Það er er nauðsynlegt í samfélaginu, ekki síst fyrir stjórnmálamann.

Brynjar kveðst einnig vera afar góður í vera heima sjá sér og vera konu sinni til ama og leiðinda. „Við gerum grín hvort að öðru, það heldur lífi í hjónabandinu. Svo sef ég reglulega yfir sjónvarpinu og vakna með slefið út á kinn. Mér finnst reyndar afar gott að vera einn eða með konunni heima eða í bústað en ég hef líka mjög gaman af vera í kringum fólk og tala við það. Maður getur ekki verið í pólitíkinni án þess að njóta þess.

Sumarið leggst vel í Brynjar. „Þessi þjóð á svo ótrúlega mikla möguleika og getur rifið sig upp úr erfðileikum. Við getum líka klúðrað því því við erum hvatvís og skortir stundum stöðugleika. Við verðum að læra af reynslunni, hafa þolinmæði og haga okkur ekki eins og flón,“ segir Brynjar að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -