Föstudagur 29. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Bryndís tæklar fátæka, fíkla og fanga í alls konar ástandi: „Mig langar til að hjálpa öllum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á heimasíðu Hjálpræðishersins stendur: „Hjálpræðisherinn er alþjóðleg evangelísk hreyfing, hluti af hinni almennu kristnu kirkju. Boðskapurinn grundvallast á Biblíunni. Þjónustan er knúin af kærleika Guðs. Verkefnið er að boða fagnaðarerindi Jesú Krists og í hans nafni mæta þörfum fólks án mismununar. (Alþjóðleg yfirlýsing Hjálpræðishersins / The Salvation Army Mission Statement).“

Bryndís Rut Óskarsdóttir er félagsráðgjafanemi og stýrir í sumar leikjanámskeiði fyrir börn í Hjálpræðishernum í Reykjavík. Hún þekkir starfsemi Hjálpræðishersins mjög vel og hefur má segja verið viðloðandi hann frá blautu barnsbeini þar sem ömmur hennar og afar í bæði móður- og föðurætt hafa starfað fyrir Hjálpræðisherinn bæði á Íslandi og í Noregi en móðir hennar er norsk. Hún segir að foreldrar sínir hafi ekki starfað þannig lagað hjá Hjálpræðishernum en þau voru sem börn mikið á samkomum. Faðir hennar, Óskar Einarsson, er þekktastur í tengslum við gospeltónlist og hefur stjórnað kór Fíla­delfíu í mörg ár.

Bryndís Rut Óskarsdóttir

„Ég fór mikið á samkomur á vegum Hjálpræðishersins með ömmu og afa á Akureyri þar sem ég bjó í tvö ár á unglingsárunum en ég heimsótti ömmu og afa öll sumur. Þegar ég fór til Noregs fór ég svo á samkomur með ömmu og afa þar. Svo eru fleiri fjölskyldumeðlimir í báðum ættum tengdir Hjálpræðishernum. Þetta er fjölskyldudæmi og hjarta mitt hefur verið hjá Hjálpræðishernum. Þegar ég var 18 ára flutti ég til Noregs og fór í skóla á vegum Hjálpræðishersins þar sem ég vann mikið sjálfboðaliðastörf.

Ég vann til dæmis með fátæku fólki, fíklum og fór í fangelsi og hópurinn sem ég var í sá um guðsþjónustur fyrir fanga.

Það gerði það að verkum að ég sá að ég vildi vinna við svona starf. Ég vildi vinna með fólki og það ýtti mér svolítið út í að fara í nám í félagsráðgjöf. Ég hef þannig verið tengd Hjálpræðishernum á einhvern hátt þótt ég hafi ekki sótt söfnuðinn sem slíkan öll þessi ár.“

80-85% útlendingar

- Auglýsing -

Börnin sem sækja leikjanámskeiðið sem Bryndís Rut stýrir í sumar eru um 30 talsins og eru á aldrinum sex til 12 ára.

„Þau fá morgunmat, hádegismat og hressingu um miðjan dag. Við höfum þetta eins ódýrt og hægt er til að sem flestir geti sótt um. Þeir sem hafa ekki tök á að borga geta sótt um í velferðarsjóði Hjálpræðishersins og foreldrar margra barnanna hafa gert það. Börnin eru frá ýmsum löndum; það er fullt af íslenskum börnum og svo eru á námskeiðinu meðal annars börn frá Póllandi, Spáni og Íran. Það er svo frábært að þau geta öll komið á sama stað og það eru allir eins; það er borin virðing fyrir öllum.“

Bryndís Rut Óskarsdóttir

- Auglýsing -

Bryndís Rut segir að þeir foreldrar sem hafa sótt um í velferðarsjóðnum hafi sumir fengið mat eða matarkort hjá Hjálpræðishernum. Svo eru margir foreldrar sem hafa ekki mikil eða nein tengsl við Hjálpræðisherinn en sáu leikjanámskeiðið auglýst og vildu að börn sín færu á skemmtilegt námskeið yfir sumarið.

Bryndís Rut nefndi foreldra sem hafa fengið mat eða matarkort hjá Hjálpræðishernum.

„Hjálpræðisherinn er að gefa 150-200 manns mat á hverjum einasta degi og af þeim eru mun fleiri útlendingar en Íslendingar.“

Hún segir að það fari eftir dögum en að útlendingar séu almennt 80-85% þeirra sem þiggja ókeypis mat í matsal Hjálpræðishersins og af þeim séu flestir frá Sýrlandi, Venezuela og Palestínu.

Daginn sem viðtalið var tekið átti að bjóða upp á hamborgara í hádeginu, lambakjötið er vinsælt, stundum er grillað en Bryndís Rut segir að það sé aldrei boðið upp á svínakjöt. Bæði sé verið að taka tillit til múslíma sem sækja aðstoð til Hjálpræðishersins og þiggja þar mat sem og að það sé fullt af fólki sem borði ekki svínakjöt. „Það er til að auðvelda allt að bjóða ekki upp á svínakjöt.“

Mann langar til að hjálpa öllum

Sem starfsmaður Hjálpræðishersins þar sem sumir skjólstæðingar hafa gengið hinn grýtta veg og eru jafnvel í neyslu og heimilislausir þá segir Bryndís Rut að hún hafi þurft að læra að brynja sig og að setja fólki mörk. Hún segir það til dæmis hafa verið erfitt þegar hún vann með unglingum hjá Hjálpræðishernum á Akureyri á sínum tíma þar sem krakkar leituðu til hennar og voru að opna sig varðandi alls konar hluti. Hún bendir á að hún hafi þroskast síðan þá og viti hvernig hún eigi að bregðast við.

„Ég verð að passa að taka það ekki inn á mig.

Mann langar til að hjálpa öllum.

Og mig langar helst til að knúsa börn og taka þau með mér heim sem ég veit að eiga erfitt heima en maður verður að passa að setja þeim mörk og þau þurfa að setja mér mörk. Og ég þarf að passa að gera ekki upp á milli þeirra.

Það er alltaf erfitt að horfa upp á erfiðar aðstæður og það sem mér hefur fundist vera erfiðast er að sjá alls konar fólk koma í alls konar ástandi og þurfa að tækla það. Það gefur mér til dæmis mikið að fá 10 brotna einstaklinga ef einn af þeim fer síðan að blómstra. Það var til dæmis klappað mikið í gær og það var mikil gleði þegar maður sem hefur beðið lengi eftir íslenskum ríkisborgararétti fékk hann loksins.“

Góð í að hlusta

Bryndís Rut segir að það gefi sér mikið að vinna hjá Hjálpræðishernum og að sig hlakki alltaf til að mæta í vinnuna.

„Ég hlakka til að hitta krakkana mína og annað starfsfólk; ég er að vinna með besta starfsfólki sem hægt er að óska sér. Það er svo góður andi í húsinu. Og það vinna allir saman. Ef mig vantar aðstoð við eitthvað þá er alltaf einhver sem getur hjálpað mér. Og það eru allir viljugir til þess að rétta fram hjálparhönd og við erum öll að vinna að sama markmiði.“

Spurð hvað hún hafi lært af því að vinna hjá Hjálpræðishernum nefnir Bryndís Rut fagmennsku.

„Mér finnst ég vera góð í að hlusta og tala við fólk sem er ekkert auðvelt fyrir alla. Og ég er farin að bera meiri virðingu fyrir fólki. Ég segi ekki að ég sé laus við fordóma en ég er meðvitaðri um fordómana mína. Og maður er meðvitaðri um að maður ætli ekki að bregðast við með fordómum. Það er ekki mitt hlutverk að dæma aðra. Ég hef lært að ég get rétt fram hjálparhönd og ég get veitt stuðning og nú þegar segja má að Covid sé búið þá get ég gefið knús ef einhvern vantar knús.

Ég legg áherslu á að vera til staðar fyrir fólk sem vill að ég sé til staðar fyrir það.

Og svo er ég búin að öðlast mikla fagþekkingu.“

Bryndís Rut er spurð hvort hún geri ráð fyrir að vinna sem félagsráðgjafi hjá Hjálpræðishernum eftir útskrift.

„Ef það verður staða fyrir mig hérna þá myndi ég klárlega vilja það. Bæði þekki ég húsið og starfsemina þannig að ég mun klárlega vera hérna allavega með annan fótinn. Þau losna ekki svo auðveldlega við mig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -