Fimmtudagur 28. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Erla syrgir Vilhjálm sem var aðeins fertugur: „Myndi ekki óska versta óvini að upplifa þessa sorg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta var óskaplegt áfall. Það hefur tekið okkur langan tíma að átta okkur á að þetta er raunveruleiki og að Villi sé farinn,” segir Erla Ösp Ingvarsdóttir en sambýlismaður hennar, Vilhjálmur Ingimarsson, varð bráðkvaddur þann 8. apríl síðastliðinn, nýorðinn fertugur að aldri. Þau höfðu verið búsett á Akureyri til margra ára.

Erla Ösp segir að Vilhjálmur hefur hvergi kennt sér meins fyrir andlátið.

„Hann var með of háan blóðþrýsting en það var ekkert sem ástæða var til að hafa áhyggjur af. Hann starfaði sem rafvirki hjá Ljósgjafanum og var í vinnuferð á Tálknafirði þegar þetta gerist. Þetta sama kvöld var sonur minn hjá stuðningsfjölskyldu sinni og við dóttir mín með létt stelpupartý, horfðum á sjónvarpið og höfðum það notalegt. Ég talaði við hann um tíuleytið um kvöldið og það var mjög gott í honum hljóðið. Það var síðan um klukkan hálfeitt um nóttina að ég vaknaði við símann og fékk fréttinar. Ég myndi ekki óska mínum versta óvini að upplifa eitthvað þessu líkt.”

Vilhjálmur lést langt um aldur fram þann 8. apríl síðastliðinn.

Ást við fyrstu sín

Erla Ösp og Vilhjálmur kynntust haustið 2002 þegar bæði léku í leikriti í Freyvangsleikhúsinu. „Þetta var ást við fyrstu sýn. Foreldrar mínir voru nýflutt í Eyjafjörðinn og mamma hafði orð á því að það gæti verið gaman fyrir mig að kynnast fleira fólki með því að taka þátt í leiklistarstarfinu. Ég man að ég sá Villa ganga inn og hugsaði með mér hvað það yrði nú skondið ef ég yrði ástfangin af honum. Þetta var kabarett sýning sem hét Viltu Viagra og Villi var aðalstjarnan í bleikri brók, baðaður í barnaolíu. Ég hugsaði með mér að þessi væri flottur, ég tek hann! Á þessum tíma bjó Villi í lítilli kjallaraíbúð og ég var flutt inn í janúar. Þetta hefðu verið komin 19 ár hjá okkur í haust.“

Sorgin bankar ítrekað á dyrnar

- Auglýsing -

Erla Ösp er vel kunnug sorginni í gegnum tíðina. „Við eignuðumst eldri dóttur okkar árið 2006 og aðra dóttur árið 2009 en hún var andvana fædd. Drengurinn okkar kom árið 2010 en hann varð fyrir súrefnisskorti í fæðingu og fékk væga CP lömun í kjölfarið auk þess að vera með einhverfu. Ég viðurkenni alveg að ég myndi þiggja pásu frá áföllum,” segir Erla af mikilli yfirvegun.

Villi og Erla nutu þess að eyða tíma saman með börnunum sínum.

Aðspurð um hvernig þau Villi hefðu tekið þessum áföllum segir Erla Ösp þau hafa þjappað þeim saman.

„Við urðum enn sterkari saman. Maður hefur heyrt af því að áföll geti aðskilið pör en við urðum bara samrýmdari. Ég var síðan greind með MS fyrir þremur árum síðan og Villi stóð eins og klettur við hliðina á mér, sama hvað bjátaði á. Ég er svo full af þakklæti, hlýju og væntumþykju fyrir árin með Villa.“

- Auglýsing -

Sá um stórsteikurnar

„Villi var tilbúinn að gera allt fyrir alla og var fljótur að kynnast fólki. Hann var mikil félagsvera, gat labbað inn í hóp og var strax orðinn málkunnugur öllum. Hann hafði líka gaman af því að segja skemmtisögur og sagði mjög skemmtilega frá,” segir Erna Ösp um manninn sinn. „Hann var einnig afar flinkur í eldhúsinu og sá um alla eldamennsku á heimilinu. Hann sá um allar stórsteikur og gerði þrjár suður af heimagerðu rauðkáli eftir sautján daga vinnuferð, honum þótti svo gaman í eldhúsinu“.

Villi elskaði að elda og var frábær kokkur.

Erla er full ástúðar þegar hún minnist Villa. „Hann var frábær pabbi og naut þess að vera með krökkunum. Dóttir okkar æfir sund og Villi var að ljúka við gráðu sem yfirdómari í sundi til að unnt væri að halda mót hér fyrir norðan. Hann átti aðeins útskriftina eftir. Hann var með mikið með krökkunum, gisti með hópunum og allir krakkarnir þekktu hann vel. Þeim fannst hann skemmtilegur og hvetjandi enda hvatti hann þau alltaf til dáða og var duglegur að hrósa þeim“.

Lífið í núinu mikilvægast

Erla Ösp og Vilhjálmur nutu þess að byggja sumarhús úti í sveit ásamt foreldrum Erlu.

„Það var okkar draumur að ljúka því. En núna er það fokhelt í pásu.“

„Þetta var ást við fyrstu sýn.“

Þau höfðu einnig gaman af því að ferðast. „Villi var kominn til útlanda í rúllustiganum í flugstöðinni,” segir Erla og kímir við tilhugsuninni.

„Ég grínaðist oft með að það hefði verið nóg að gefa honum rúllustigaferð til að gleðja hann!”

Hún hafði ákveðið að gefa honum ferð til Tenerife í fertugsafmælisgjöf fyrr í vetur, en þau höfðu ákaflega gaman af að fara þangað og langaði aftur.

„Bara við tvö. En svo kom Covid svo við komumst aldrei”.

Erla Ösp segir áföllin hafa kennt sér að það mikilvægasta í heiminum sé að njóta tíma með fjölskyldunni.

Erla segir að sem ung stúlka hafi hennar stærsti draumur verið að eignast stóra einbýlishúsið með stóra garðinum, heita pottinum og jeppanum í bílskúrnum

„Áföllin hafa kennt manni mikið. Þau hafa kennt manni að staldra við og njóta stundanna með sínum nánustu. Lifa í núinu, njóta barnanna og tímans hvort með öðru og plana ekki of langt fram í tímann. Við áttum ekki einbýlishús, stóran garð né dýra hluti en við vorum hamingjusöm og glöð. Það er það sem skiptir máli,” segir Erla Ösp sem hefur upplifað stór áföll í lífinu þrátt fyrir ungan aldur.

Vinir og velunnarar litlu fjölskyldunnar hafa efnt til söfnunar fyrir þau á þessum erfiðu tímum.

Fyrir þá sem vilja leggja söfnunni lið er reikningurinn 370-22-034997, kt.230480-3469.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -