Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Forsetinn heiðraði séra Pálma í kveðjumessunni: „Ekkert viss um að ég kæmist í gegnum þetta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Séra Pálmi Matthíasson sá sunnudaginn 26. september um sína síðustu messu í Bústaðakirkju sem sóknarprestur þar. „Ég var með kveðjumessu í dag klukkan eitt og það var mjög tilfinningarík, hátíðleg og einlæg stund og komust færri að en vildu,“ segir hann seinni partinn þann dag. „Messan var í grunninn hefðbundin sunnudagsmessa en með meiri tónlist. Það var einsöngur Grétu Hergils, Marteins Sigurðssonar og frænda míns, Kristjáns Jóhannssonar. Kammerkór kirkjunnar söng og gamlir kórfélagar sungu með. Matthías Stefánsson lék á fiðlu. Minn kæri vinur, Jónas Þórir organisti, stýrði þessu af snilld.  Forsetinn kom og heiðraði mig með nærveru sinni og flutti ávarp. Mér þótti mjög vænt um það.“

Séra Pálmi Matthíasson

Hann segir að það hafi verið kærleikur í loftinu sem og þakklæti. „Þegar ég flutti predikunina þá fann ég fyrir svo einkennilegri og máttugri kyrrð. Þetta var alveg ótrúlegt. Ég var að hugsa um það þegar ég var að tala hvers konar ofboðsleg þögn þetta væri. Mér fannst eins og hvert orð væri meðtekið og eins og það hitti fólkið.“

Þegar ég flutti predikunina þá fann ég fyrir svo einkennilegri og máttugri kyrrð.

Séra Pálmi lagði í þessari síðustu predikun sinni sem sóknarprestur út af því ferðalagi lífsins sem hófst 18. september árið 1977 þegar hann var vígður. „Þá lagði maður af stað í ferðalag og taldi sig vera mjög færan til ferðalagsins; ungur maður, vel menntaður og í hörku formi beint úr íþróttum. En ég lærði það fljótt að það þarf meira til en lærdóm og líkamlegt form í starfi sem byggir á trú.“

Messan þennan septemberdag árið 2021 hófst á sama sálmi og byrjað var á daginn sem hann var vígður fyrir áratugum síðan: Guðs kirkja er byggð á bjargi; það er sálmur 288. Fyrsta erindið er svona:

 

- Auglýsing -

Guðs kirkja er byggð á bjargi,

en bjargið Jesús er,

hún er hans undrasmíði,

- Auglýsing -

sem alla dýrð hans ber.

Af vatni, orði og anda

hún öðlast hefur líf,

og sett á öllum öldum

sem allra þjóða hlíf.

 

Síðasti sálmurinn var einnig sá sami og í vígslunni, sálmur 26, Nú gjaldi Guði þökk.

 

Nú gjaldi Guði þökk

hans gjörvöll barnahjörðin,

um dýrð og hátign hans

ber himinn vott og jörðin.

Frá æsku vorri var

oss vernd og skjól hans náð,

og allt vort bætti böl

hans blessað líknarráð.

 

Séra Pálmi segir að kórinn hafi sungið til hans hlýja kveðju sem er lítið vers eftir Bjarna Stefán Konráðsson:

 

Megi gæfan þig geyma,

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið,

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér,

að ávallt geymi

þig Guð í hendi sér.

 

„Þetta er ótrúlega fallegur texti, sem hrærði við mér þegar þau sungu þetta til mín.“

Séra Pálmi segir að tilfinningarnar á þessum degi síðustu messunnar sem sóknarprestur tengist fyrst og fremst þakklæti. „Ég var svo sem ekkert viss um að ég kæmist í gegnum þetta án þess að verða klökkur og röddin myndi bresta en einhvern veginn tókst að ljúka messunni. Það er ekkert auðvelt að segja skilið við söfnuð eftir svona langa samfylgd og finna vináttu fólks í söfnuðinum. Ég var gífurlega þakklátur fyrir hvað það komu margir og ekki síst hvað kom mikið af ungu fólki. Ég fann það þegar þetta var búið að ég hafði eytt mikilli orku í að láta þetta ganga.“

Það er ekkert auðvelt að segja skilið við söfnuð eftir svona langa samfylgd og finna vináttu fólks í söfnuðinum.

 

Gleði og sorg

Séra Pálmi lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1977. Hann var sóknarprestur í Melstaðarprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi á árunum 1977-1981, sóknarprestur í Glerárprestakalli á Akureyri 1981-1989 og sóknarprestur í Bústaðaprestakalli frá árinu 1989. Hann segir að ef prestur ætli að vera góður prestur þá þurfi hann fyrst og fremst að vera á meðal fólksins og samsama sig því í ólíkum aðstæðum í gleði og sorg. „Ef manni tekst að vera með því á því ferðalagi sem það er á þá held ég að það sé meiri skilningur á því starfi sem presturinn er að sinna.“

Séra Pálmi segir að það sem hann hafi lært af því að vera í hlutverki prests í alla þessa áratugi sé fyrst og fremst að hann sé aldrei einn á ferð og að þetta sé ekki gert á hans eigin verðleikum. „Maður gerir þetta vegna þess að það er einhver blessun sem fylgir og það er fyrst og síðast náð Guðs sem gerir mann að því sem maður er. Það er kannski fyrst og fremst auðmýkt og þakklæti sem maður lærir.“

Hann segir að starf sitt hafi gefið sér ómælda gleði. „Þegar ég fór upp í kirkju í morgun þá var ég jafnglaður eins og þegar ég fór í kirkjuna á fyrsta degi. Mér hefur alltaf fundist þetta vera ótrúlega spennandi ferðalag og ferðafélagar hafa verið góðir.“

Það er stórkostleg tilfinning að gifta fólk og sjá það leggja af stað út í lífið.

Gleðistundirnar tengdar starfinu eru margvíslegar. Sr. Pálmi nefnir að það fylgi því ótrúlega mikil gleði og blessun að skíra lítið barn. „Það er stórkostleg tilfinning að gifta fólk og sjá það leggja af stað út í lífið. Það er stór áfangi á lífsleiðinni að fá að vera fermingarfaðir barna. Í gær, laugardag, var mikil gleði í hverfinu þegar Víkingur varð Íslandsmeistari í fótbolta og mér þótti rosalega vænt um að fá að vera á mynd með öldungunum í liðinu, Sölva Geir Ottesen og Kára Árnasyni, og vera með bikarinn. Þeir spurðu hvort þeir ættu að koma með bikarinn í kveðjumessuna. Maður eins og hálfhrekkur við þegar maður hefur skírt annan og fermt hinn og síðan farinn að ferma og skíra fyrir þá. Þetta eru snillingar sem maður hefur aldrei slitið tengslin við og mér þykir afar vænt um þá.“

Séra Pálmi Matthíasson

Sorgin tengist starfi prestsins þegar til dæmis dauðinn knýr dyra hjá sóknarbörnum. „Það er svo skrýtið að það fólk sem er sorgmætt og á í mestu erfiðleikum er kannski það fólk sem gefur manni langmest af öllum vegna þess að kvikan er svo opin. Fólk er svo einlægt og opið í þessu ferli og það verður oft til vinátta sem er mikilvægari heldur en allt annað. Það myndast oft tengsl sem erfitt er að útskýra en maður eignast stundum vini fyrir lífstíð í gegnum erfiðustu og sárustu augnablikin.“

 

Á krossgötum

Presturinn sem hefur verið stoð og stytta margra á þeirra erfiðustu tímum hefur sjálfur upplifað sorg og missi eins og flestir gera. „Það gengur enginn í gegnum lífið án þess að fara í gegnum hæðir og lægðir. Það er örugglega það erfiðasta sem maður lendir í þegar vinir eða vandamenn lenda í erfiðum veikindum og missi. Þá verður þetta svo nálægt manni og þá er maður einhvern veginn öðruvísi þátttakandi heldur en sem prestur sem kemur að einhverju sem maður kannski þekkir ekki persónulega.“

Jú, hann segir að það séu mörg atvik í eigin lífi sem hafa verið erfið. „Það var til dæmis erfitt þegar ég missti móðurafa minn og nafna þegar ég var ungur maður. Hann var eiginlega í fanginu á mér þegar það gerðist og það tók á. Mér fannst samt gott þegar frá leið að það skyldi hafa verið ég en ekki einhver annar sem var í þessum sporum. Hann var mér sem annar faðir í lífinu og skipti mig miklu máli. Það var blessun að eiga afa og pabba sem vini sína. Við vorum ótrúlega miklir vinir og höfðum unnið saman; verið á sjó saman. Þeir kenndu mér margt gott í lífinu sem ég hef notað í mínu starfi sem prestur.“

Það var blessun að eiga afa og pabba sem vini sína.

Það eru kaflaskil. Séra Pálmi stendur á krossgötum. Frítími er ný upplifun og hann ætlar að verja meiri tíma með fjölskyldunni en hann hefur getað gert. „Þau hafa því miður oft orðið að vera til hliðar og bíða á meðan ég hef verið að sinna ákveðnum hlutum og oft hafa áætlanir breyst vegna þess að eitthvað hefur gerst í mínu starfi; starfið er eiginlega þannig að annaðhvort er maður í því af heilum hug og lætur það hreinlega ráða sér eða ekki. Það er ekkert hægt að segja „já“ við þennan en „nei“ við hinn. Ég hef reynt að segja „já“ við öllu og reynt að leggja mig fram. Stundum tekst það þokkalega og stundum örugglega ekki. Við hjónin eigum fullt af áhugamálum og okkur langar til þess að dvelja erlendis kannski í svolítinn tíma og sjá hvernig það gengur.“ Séra Pálmi byrjaði á sínum tíma í námi í „multimedia“ tengdu helgihaldi og hefur hug á að klára það á Florida. „Námið gengur meðal annars út á hvernig hægt er að nota þessa nýju samskiptatækni í kirkjustarfi og boðun orðsins. Setja sem mest á skjá og tengjast snjalltækjum fólks.“ Presturinn hefur gaman af því að veiða og hann segir að þau hjónin séu svolítið að dunda í golfi.

Séra Pálmi byrjaði á sínum tíma í námi í „multimedia“ tengdu helgihaldi og hefur hug á að klára það á Florida.

„Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir að hafa náð þessum áfanga, verða þetta gamall og standa á þessum krossgötum. Hver dagur lífsins er gjöf og ekkert öruggt í þeim efnum. Ég þekkti alltof marga sem hafa því miður ekki náð þessu og hafa hvatt. Ég missti til dæmis minn besta vin og jafnaldra fyrir stuttu og mér fannst það mjög sárt. Við vorum búnir að vera vinir frá því við vorum þriggja ára og það voru fáir dagar sem við töluðum ekki saman.“

En er presturinn Pálmi alveg hættur eða má hann til dæmis gifta, skíra og jarða ef einhver leitar til hans? „Ef einhver hefur áhuga á því að leita til mín með eitthvað þá reynir maður að sinna því eins vel og maður getur. Er ekki vinsælt í öllu í dag að kalla að maður sé „freelance?“.“

Séra Pálmi Matthíasson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -