Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Geir um heillandi heimsálfu: „Nýleg dæmi á Íslandi áminning um vandann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það hefur alltaf verið erfitt að kynnast margvíslegum birtingarmyndum fátæktar og þá sérstaklega dauðsföllum kvenna vegna barnsburðar og ungra barna sem auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir með betri þjónustu. Hár mæðra- og barnadauði í Afríku og víðar í lágtekjulöndum er óásættanlegur þar sem við höfum þekkinguna til að koma í veg fyrir hann. Það er háð hverju tilviki fyrir sig hvernig ég hef brugðist við en nærvera og auðmýkt gagnvart hverri áskorun hefur reynst mér best.“

Þetta segir Geir Gunnlaugsson, eiginmaður, faðir, afi, barnalæknir, prófessor emerítus í hnattrænni heilsu, formaður Afríku 20:20 – áhugamannafélags um Afríku sunnan Sahara og kjörræðismaður Gíneu-Bissá á Íslandi. Við fengum að heyra frá reynslu hans í Afríku og hvað varð til þess að hann hóf þessa vegferð.

Fyrirlögn á Planet Youth spurningalistanum í Bissá í júní 2017.

Afríka sunnan Sahara er heillandi heimsálfa

„Við Íslendingar njótum þeirra forréttinda að lifa í samfélagi þar sem friður ríkir. Friður er

Super Mama Djombo við Þorvaldseyri undan Eyjafjallajökli í ágúst 2010

mikilvæg auðlind en það þarf ekki mikið til að kveikja elda sem erfitt er að slökkva, þess sjást því miður dæmi mjög víða. Það þarf því að hlúa að og efla frið um allan heim svo börn og fullorðnir fái tækifæri til að vaxa, þroskast og lifa í samræmi við getu sína og óskir og þannig lagt sterkari stoðir undir þau samfélög þar sem þau eru og vilja búa. Vopnuð átök, vaxandi áhrif hnattrænnar hlýnunar og ójöfnuður eru áskoranir sem við eigum að láta okkur varða og þar vísar unga fólkið okkur áfram veginn, sem endranær.“

Afríka sunnan Sahara er heillandi álfa eins og Geir hefur fengið að kynnast í gegnum störf og ferðalög. Áhrifa nýlendustefnunnar gætir enn og Geir segir að rótgróinn rasismi á heimsvísu sé ein afurð hennar sem þurfi að berjast gegn með öllum ráðum. Rányrkja auðlinda sé einn angi hennar og stunduð í mörgum löndum, gjarnan í skjóli spillingar, og alþjóðlegt átak þurfi til þess að vinna gegn henni.

„Nýleg dæmi um þetta hér á landi ættu að vera okkur á Íslandi áminning um vandann. Ég er þó sannfærður um að álfan muni með tíð og tíma ná miklum árangri, bæði í félags- og efnahagslegu tilliti, en um tveir af hverjum þremur íbúum álfunnar eru yngri en 25 ára. Framtíðarhorfur álfunnar er einmitt eitt viðfangsefna í nýrri bók um álfuna sem ég er að vinna að ásamt samstarfsfólki í Afríka 20:20.“

Uppspretta skemmtilegrar reynslu

röð tilviljana mynda ákveðið mynstur sem hefur lagt grunn að fjölbreyttum starfsferli

- Auglýsing -

Það kom Geir mest að óvart hvernig röð tilviljana mynda ákveðið mynstur sem hefur lagt grunn að fjölbreyttum starfsferli og verið uppspretta skemmtilegrar reynslu fyrir alla fjölskylduna. Fyrst má nefna mikilvægi tungumálakunnáttu og hvernig þekking á spænsku óvænt ruddi leið hans til Gíneu-Bissá þar sem portúgalska er opinbert tungumál. Vegna vinnu hans þar bauðst honum að koma í framhaldsnám í barnalækningum við Karolinska/St. Göran barnasjúkrahúsið í Stokkhólmi þar sem hann lauk doktorsprófi í barnalækningum og meistaraprófi í lýðheilsu. Hvoru tveggja var byggt á verkefnum frá starfsvettvangi hans í landinu. Á sama hátt fór Jónína kona hans í nám í mannfræði en hún er í dag prófessor í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

„Það kemur einnig á óvart hvernig reynsla á vettvangi í Gíneu-Bissá hefur nýst í öðrum störfum mínum hér á landi, t.d. sem forstöðumaður Miðstöðvar heilsuverndar barna innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, prófessor í lýðheilsu við Háskólann í Reykjavík, landlæknir og nú sem prófessor í hnattrænni heilsu við Háskóla Íslands.“

unnið við kennslu og rannsóknir á Íslandi, í Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku og Malaví í sunnanverðri Afríku

 Undanfarin sex ár hefur Geir verið prófessor í hnattrænni heilsu í félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild á félagsvísindasviði Háskóla Íslands, nú emerítus. Starfið hefur verið honum einstaklega gefandi þar sem hann hefur unnið við kennslu og rannsóknir á Íslandi, í Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku og Malaví í sunnanverðri Afríku.

- Auglýsing -

Löng saga sem á rætur í áhuga á fólki

Þegar Geir er aðspurður hvers vegna hann hafi farið þessa leið, svarar hann að það sé; „löng saga sem á rætur í áhuga á fólki, við hvers konar aðstæður. Ferð til Mexíkó 1971-72 lagði m.a. grunn, sem ég og eiginkona mín Jónína Einarsdóttir fylgdum eftir með spænskunámi og ferðalögum um Mexíkó, Mið-Ameríku og Kúbu árin 1979 og 1980 eftir að við lukum háskólanámi, ég með læknapróf en hún sem efnafræðingur og kennari. Eitt leiddi af öðru og fyrir röð tilviljana, m.a. vegna spænskukunnáttu og fyrri ferðalaga, buðust okkur störf í Gíneu-Bissá, ég fyrir sænsku þróunarsamvinnustofnunina Sida, Jónína fyrir Afrikagrupperna sem eru sænsk félagasamtök sem studdu m.a. fólk til sjálfboðaliðastarfa í álfunni. Þangað komum við fyrst árið 1982 og dvöldum þar í þrjú ár sem lagði grunn að lifandi tengslum við land og þjóð í sem hefur haldið í nær fjóra áratugi.“

Endurbygging og stækkun grunnskólans í Dorse í Biombosýslu í júlí 2021

Gínea-Bissá er lítið land, tæplega þriðjungur af stærð Íslands, í dag með tæplega tvær milljónir íbúa. Í landinu eru um tveir tugir þjóðernishópa með tungumál sem eru sum jafn framandi og íslenska er rússnesku.

„Það var því mikil reynsla fyrir mig að vinna í þessu umhverfi við lækningar á börnum, forvarnir og rannsóknir, bæði í höfuðborginni og úti á landi. Samtímis hafði Jónína umsjón með og var kennari í nýju námi fyrir meinatækna við nýstofnaða lýðheilsurannsóknarstofu landsins.

einstök reynsla að finna fyrir þeirri bjartsýni og gleði almennings

Geir talar um að það hafi verið mjög gott að búa í landinu og einstök reynsla að finna fyrir þeirri bjartsýni og gleði almennings sem fylgdi því að vera búinn að losa sig undan fjötrum nýlendustefnu Portúgala eftir 11 ára vopnaða baráttu. Hún endaði 25. apríl 1974 með nellíkubyltingunni þegar m.a. fjöldi fyrrverandi áhrifamanna í portúgalska hernum í Gíneu-Bissá steypti fasistastjórninni í Lissabonn af stalli, enda baráttan löngu töpuð í fyrrum nýlendum þeirra í álfunni, ekki bara í Gíneu-Bissá. Portúgalar hafa því að vissu leyti frelsisbaráttu í fyrrum nýlendum að þakka að þeir losuðu sig nokkuð friðsamlega undan einræðisstjórn liðinna áratuga.

Á tímum mikilla breytinga

 Þegar þau hjónin komu til Gíneu-Bissá vorið 1982 var mikill skortur á menntuðu fólki og til dæmis var nánast enginn með læknismenntun. Rafmagn var stopult, og þau þakklát ef það fékkst þó ekki væri nema í 8-12 klst daglega. Símakerfið var með mjög takmarkaða dreifingu og því notuðu þau aldrei síma fyrstu þrjú árin sem þau bjuggu í landinu.

Við fundum mjög fyrir þessum breytingum gegnum samstarfsfólk okkar sem sá lífskjör sín fara hratt versnandi á þessum árum.

„Við komum til Gíneu-Bissá á tímum mikilla breytinga. Stefna Alþjóðabankans, s.k. uppbyggingar- og aðlögunarstefna (á ensku structural adjustment program (SAP)), gekk þá í ljósum logum um álfuna. Í dag er hún tekin sem dæmi um hvernig stefna nýfrjálshyggju, hönnuð af fyrrum nýlenduherrum, var látin ríða á nýfrjálsum löndum með hörmulegum afleiðingum fyrir fólkið. Við fundum mjög fyrir þessum breytingum gegnum samstarfsfólk okkar sem sá lífskjör sín fara hratt versnandi á þessum árum. Margar rannsóknir hafa síðan sýnt fram á að þessari stefnu fylgdi hærri mæðra- og barnadauði, svo dæmi séu tekin. “

Sú gefandi reynsla að búa og starfa í Gíneu-Bissá leiddi til þess að þau hjónin ákváðu að fara á ný til Gíneu-Bissá 1993 með þremur sonum þeirra, þá 2, 6 og 7 ára gömlum. Geir starfaði fyrir Hjálparstofnun dönsku kirkjunnar (DCA) sem ráðgjafi héraðsstjórnar heilsugæslu Biombosýslu. Á meðan vann Jónína að öflun gagna fyrir doktorsverkefni sitt í mannfræði þar sem hún skoðaði viðbrögð mæðra við barnadauða. Þau bjuggu í fimm ár í litlu þorpi um 40 km utan höfuðborgarinnar sem var ómetanleg reynsla fyrir þau öll.

Sérstaklega ánægjulegt að hafa lagt eitthvað af mörkum

„Þegar ég lít til baka er ég svo stoltur af öllum þeim störfum sem ég hef fengið tækifæri til að sinna hér heima á Íslandi og erlendis. Það er þó sérstaklega ánægjulegt að hafa lagt eitthvað af mörkum í landi eins og Gíneu-Bissá og síðar við heilsugæsluverkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Monkey Bay í Malaví en ég var ráðgjafi stofnunarinnar um það verkefni í rúman áratug. Mér þykir einnig vænt um að hafa lagt hönd á plóginn þegar Unicef á Íslandi var að taka sín fyrstu skref á Íslandi og ákvað að veita stuðning við Gíneu-Bissá. Ég er stoltur af því að sögufrægasta hljómsveit Gíneu-Bissá, Super Mama Djombo, sem er jafngömul lýðveldinu, skuli hafa komið til Íslands þrisvar sinnum. Hún kom fyrst árið 2007 til að taka upp hljómdiskinn Ar puro við bestu aðstæður og því fylgt eftir með tveimur tónleikum  á Listahátíð í Reykjavík 2008 og tónleikaferð um landið sumarið 2010. Tónlist sveitarinnar er samofin nýfengnu sjálfstæði þjóðarinnar og þeim breytingum sem hafa fylgt og tengslin við Ísland hafa síðan haft margvísleg áhrif á tónlistarlíf landsins.“

Á þeim tíma voru hundruð s.k. meðaldrægra kjarnorkuflauga staðsettar víða í þéttbýli Vestur-Evrópu  og ógnuðu lífi og heilsu fólks um alla álfuna á tímum kalda stríðsins.

Hann segist einnig vera stoltur af Friðargöngunni frá Stokksnesi að Höfn í Hornafirði sem hann tók þátt í að skipuleggja ásamt öðru góðu fólki árið 1981. Á þeim tíma voru hundruð s.k. meðaldrægra kjarnorkuflauga staðsettar víða í þéttbýli Vestur-Evrópu  og ógnuðu lífi og heilsu fólks um alla álfuna á tímum kalda stríðsins. Hann starfaði þá sem heilsugælsulæknir á Höfn og stóð stuggur af þessari þróun ásamt mörgum öðrum í bænum en þá var ratsjárstöð bandaríska hersins starfandi í u.þ.b. 20 km frá Höfn þar sem þau bjuggu.

„Ég hef líka margs að minnast af fjölbreyttum rannsóknum sem ég hef unnið að, bæði hér heima og erlendis. Þar mætti til dæmis nefna rannsóknir um brjóstagjöf, kóleru og mislinga, líf og heilsu unglinga og heimilisofbeldi og afleiðingar þess á Íslandi. Útgáfa bókarinnar Afríka sunnan Sahara í brennidepli var einnig ánægjulegur áfangi, gefin út af Afríka 20:20 árið 2007. Einnig vil ég sérstaklega nefna tvær bækur um siðinn að senda börn í sveit sem ég vann að með Jónínu og öðru góðu samstarfsfólki. Þær voru gefnar út af Hinu íslenska bókmenntafélagi í nóvember 2019, það er Send í sveit. Þetta var í þjóðarsálinni, fræðileg greining á siðnum frá fjölmörgum sjónarhornum og myndabókin Send í sveit. Súrt, saltað og heimabakað. Þó svo ég hafi aldrei sjálfur farið í sveit þá var siðurinn allsráðandi þegar ég var alast upp í Reykjavík og borgin tæmdist af krökkum sem fóru í sveit á sumrin. Þessi siður er enn við lýði en í miklu minna umfangi en áður og í breyttu formi. Því var mikilvægt að skrásetja þessa reynslu núlifandi Íslendinga, eins og við höfum gert í þessum tveimur bókum. “

Nokkuð vel geymt leyndarmál

Geir sinnir nú starfi sínu sem prófessor emerítus við Háskóla Íslands við kennslu og rannsóknir. Hann er nú leiðbeinandi tveggja doktorsnema við Háskóla Íslands. Önnur þeirra vinnur við að rannsaka margvíslegar birtingarmyndir ójöfnuðar í lífi unglinga í Gíneu-Bissá, hin vinnur að rannsóknum á kynheilbrigði kvenna í Malaví með áherslu á aðgang að getnaðarvörnum.

Síðastliðin ár hefur Geir verið að vinna að frekari rannsóknum meðal unglinga í Gíneu-Bissá, og er þátttakandi í Planet Youth verkefninu sem leitt er af Rannsóknir og greiningu við Háskólann í Reykjavík.

„Það er líklega nokkuð vel geymt leyndarmál að áhrifa Planet Youth gætir í rúmlega þriðja tug landa og hundruðum sveitarfélaga í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku og Ástralíu – og í Afríku sunnan Sahara gegnum vinnu okkar í Bissá. Ég er einmitt að fara til Guanojuato í Mexíkó til að að taka þar þátt í ráðstefnu í lok nóvember vegna innleiðingar á aðferðafræði Planet Youth í héraðinu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -